Tíu stórkostleg fjöll á SV landi
12.2.2013 | 12:56
Frá barnæsku hef ég haft ánægju af ferðalögum og þá helst gönguferðum og fjallaferðum. Um daginn las ég pistil eftir Reyni Traustason, ritstjóra DV sem hefur í baráttu sinni við umframkílóin tekið upp á þeim ósköpum að ganga á fjöll og verið ansi duglegur við hvort tveggja.
Reynir á sé uppáhaldsfjöll og mér þótti gaman að lesa um þau enda fyllilega sammála í umsögnum hans um hvert og eitt. Fjöllin hans Reynis eru þessi:
Ég hef oft verið spurður um uppáhaldsfjöllin mín, uppáhaldstaðina, uppáhaldsgönguleiðirnar og þetta og hitt. Vissulega eru mörg fjöll og staðir ofar í huga mínum en önnur. Vandinn er bara sá að listinnn eða listarnir breytast svo ört. Þess vegna get ég ekki raðað þeim í röð eftir væntumþykju. Allt er breytingum undirorpið og þá er hugarástandið, félagsskapurinn og jafnvel veðrið sem ræður stemmingu og hrifningu í hverri ferð.
Jæja, ég ætla samt að gera tilraun til að búa til lista yfir fjöll sem ég ann. Ég ætla aðeins að nefna fjöll á SV horni landsins. Síðar mun ég nefna fjöll annars staðar.
- Vífilsfell er stórkostlegt fjall og hefur svo margar ólíkar hliðar, móbergsmyndanirnar í kringum efsta hlutann eru hrífandi og svo er útsýnið frábært.
- Esja er margbreytilegt fjallabákn. Ég hef ekki tölu á ferðum mínum á Þverfellshorn en þangað er ég nú að mestu hættur að fara. Þar er alltof margt fólk, álag á gönguleiðunum er of mikið og hræðilegt að sjá hvernig hlíðin fyrir neðan hamranna er orðin. Þess í stað fer ég á Kerhólakamb og Kistufell (austurhornið). Hvort tveggja eru stórkoslegir staðir og mun áhugaverðari en Þverfellshorn.
- Móskarðshnúkar eru tengdir Esju órjúfanlegum böndum. Gaman er að ganga upp á Móskarðshnúk, þann austasta. Ekki er síður er áhugaverð leiðin vestur af honum, yfir hina tindana, og síðan út á Esju og þá á Hátind og þar niður.
- Hengill er stórt fjall og leynir á sér. Ástæðan fyrir því að ég nefni það hér er hversu margbreytilegt það er. Sérstaklega þykir mér varið í gönguleiðina frá Sleggjubeinaskarði, eftir vesturhlíðunum og á Skeggja. Innstadal tel ég hluta af Hengli. Þar fór maður oft hér áður fyrr, jafnt sumar og vetur, í bað í hveragilinu, eða gekk hringinn í kringum Skarðsmýrarfjall. En það var nú áður en Orkuveitna hóf hryðjuverkastarfsemi sína.
- Keilir er eins og keila, þó ekki fiskurinn. Hann er einstakur í orðsins fyllstu merkingu. Stendur stakur á miðri hraunsléttu, brattur en samt vinsamlegur. Nokkur gangur er að honum en það lengir bara góðan dag og skemmtilega útiveru.
- Syðstasúla er hluti af Botnsúlum. Mikið svakalega getur hún stundum verið erfið en þess á milli ótrúlega gefandi. Mér er minnistæð er ég fór einu sinni einn á hana og gekk til baka þá niður hina breiðu suðurhlið hennar. Þetta var stuttu eftir miklar rigningar og mér fannst hlíðin renna með mér niður. Þá varð mér um og ó og hafði það á tilfinningunni að ég hefði skemmt eitthvað. Stórkostlegast við Syðstusúlu er gangan upp eftir mjóum klettavegg alla leiðina á toppinn.
- Hvalfell er eitt af þeim fjöllum sem alltof fáir ganga á. Margt veldur, það sýnist ekki hátt þarna við hliðina á Botnsúlum en það er engu að síður 852 m eða svipað eins og að fara á Kerhólakamb í Esju sem telst einum metra lægri þar sem heitir Kambshorn. Órjúfanlegur þáttur í göngu á Hvalfell er að skoða Glym og gljúfrið hans.
- Stóri-Meitill er við Þrengslin og stutt að fara á hann frá Þrengslavegi. Aðeins lengri ganga er frá Skíðaskálanum í Hverdölum. Ég hef þá trú að afar fáir gangi á Stóra-Meitil, fólk viti bara ekkert um hann. Hann er samt alveg göngunnar virði, þó ekki sé nema til að skoða hinn risastóra gíg sem er í honum og stórfenglegt útsýnið.
- Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð er vinalegt fjall og gaman að rölta á í rólegheitum með góðu fólki, spjalla á leiðinni og njóta útiverunnar. Ekki spillir fyrir hið fagra útsýni.
- Búrfell, Húsfell, Stóra-Kóngsfell, Bláfjallahryggur, Skálafell á Hellisheiði, Sandfell, Selfjall, Úlfarsfell, Mosfell, Geitafell, Lambafell ... Þetta er svona safnliður.
Eiginlega gæti ég nefnt tuttugu fjöll, jafnvel fleiri. Einhver kann að segja að þá séu þau uppurin sem eitthvert slátur er í á SV horninu. Nei, því fer nú fjarri, af nógu er að taka. Og ... ég hef aðeins nefnt hér fjallgöngur, ekki göngu á mill staða. Er til dæmis gangan um Búrfellsgjá og á Búrfell fjallganga? Eða ganga í Grindaskörð ...?
Best að hætta hér áður en kappið ber letina ofurliði.
Hér eru nokkrar myndir og myndatextinn er hér í réttri röð.
- Kistufelli í Esju og er horft til Móskarðshnúka og Skálafells.
- Á Vífilsfelli og horft er í norður yfir Mosfellsheiði og til Esju.
- Í hömrum Þverfellshorns í Esju, Kistufell í baksýn
- Gengið á Móskarðshnúka, athugið að myndin er tekin með talsverðum aðdrætti.
- Búfellsgjá.
- Keilir
- Frá hlíðum Stóra-Meitils, horft til Reykjafells og Hengils.
- Í Hengli, horft í vestur. Fyrir neðan er Engidalur.
Eftirmáli: Ritvinnslan hér á Moggablogginu hefur aðeins skánað en er hörmulega leiðinlegt fyrir þá sem vilja birta myndir. Hér gildir ekki WYSIWYG (what you see is wat you get, sem útleggst að sú uppsetning sem þú velur er endanleg) og það er leitt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.