Ég er friðarins maður, segir Björn Valur og mundar sverðið
4.2.2013 | 14:35
Björn Valur Gíslason er uppáhaldsstjórnmálamaðurinn minn. Hann er einfaldlega svo sjálfhverfur, ófyrirsjáanlegur og ófyrirleitinn að hrein unun er að fylgjast með honum. Í pistli í dag segir hann svo spaklega:
Æ fleiri stjórnmálamenn tala nú opinberlega um nauðsyn þess að leggja til hliðar pólitísk átök og stríðsrekstur og taka þess í stað upp nýja siði í samskiptum stjórnmálamanna. Fátt vildi ég meira. Gallinn við þessa umræðu er að hún kemur ekki frá stríðsrekstraraðilunum sjálfum heldur frá okkur hinum sem höfum reynt að fara fram með friði.
Til að skilja Björn Val og marga félaga hans úr Vinstri grænum þarf dálitla kremlarlógíu. Þeir geta sjaldnast talað beint út um hlutina eða eins og sagt var um Tító og kommónistafélaga hans í gömlu Júgóslavíu. Þegar þeir réðust með offorsi á Albaníu voru þeir í raun og veru að segja kommonum í Sovétríkjunum til syndanna.
Í tilvitnuninni ræðast Björn Valur á svo áberandi hátt á Árna Pál Árnason, nýkjörinn formann Samfylkingar og samherja sinn í ríkisstjórninni að sá sem er ókunnur kremlarlógíunni gæti haldið að Árni Páll gæti verið Sjálfstæðismaður. Sá misskilningur er þá hér með leiðréttur.
Svo setur Björn Valur Árna Páli lífsreglurnar. Friðarhjal þess síðarnefnda á aðeins við um suma flokka en ekki aðra. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem fara með ófriði á hendur hinum smurðu, VG og Samfylkingunni. Ekki gleyma því, Árni Páll ..., þú veist, við förum með friði, ha ...
Það er hinsvegar ekki lengur hljómgrunnur fyrir átakastjórnmál af því tagi sem gömlu valdaflokkarnir, framsóknar- og sjálfstæðisflokkurinn, hafa boðið þjóðinni upp á í svo til hverju einasta máli allt kjörtímabilið. Og gera enn. Tími hinna pólitísku stríðherra og flokka þeirra er liðinn.
Það er svo skemmtilegt að fylgjast með Birni Val, rétt eins og friðarkonunni úr VG sem vill víst friða Reykjavík fyrir kjarnorkuvopnatilraunum. Nú er víst runninn upp tíma friðsamlegra stríðsherra sem boða ekki annað en frið nema á Alþingi þar sem barist er við íhald og framsóknarmenn og það gegn vilja þeirra ef ekki vill betur.
Ég er friðarins maður segir Björn Valur og reynir að stinga andstæðinga sína á hol ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.