Hin týnda þjóðaratkvæðagreiðsla Ögmundar um Nató

Nato

Innanríkisráðherrann er einn af þeim mönnum sem eru iðnir að koma með hugmyndir og byrja á ólíklegustu verkefnum. Hann er hins vegar afar lélegur í að vinna þeim brautargengi, hvað þá að klára þau.

Ögmundur Jónasson hafði á árinu 2010 verið heilbrigðisráðherra og kampakátur sem slíkur, rétt um ár síðan ríkisstjórnin tók við völdum. Þegar þarna var komið sögu vildi hann, þessi gamli allaballi og herstöðvarsinni og friðarandstæðingur (eða var það á hinn veginn, man það aldrei), nota tækifærið og koma Íslandi úr Nató.

Þann 2. september birti mbl.is viðtal við Ögmund sem ætlaði „að kanna hljómgrunn fyrir því innan sinna raða hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ögmundur leggur áherslu á að málið sé á frumstigi en hann kveðst vongóður um stuðning.

Forvitnilegt er að lesa núna viðtalið við Ögmund, sérstaklega í ljósi þess að kjörtímabil ríkisstjórnarinnar er nú nær á enda runnið. Ýmislegt hefur verið gert en annað látið reka á reiðanum.

Ég hef grun um að þetta [þjóðaratkvæðagreiðsla] njóti víðtæks stuðnings innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þó ég byggi það einvörðungu á getgátum en ekki neinni vísindalegri athugun. Ég gef mér að fólk sem fylgi VG að málum vilji gjarnan að Ísland standi utan hernaðarbandalaga. Ég held að það sé almennt og útbreitt viðhorf.

Mér finnst sjálfsagt að vilji til þessa verði kannaður. 

Ekkert hefur hins vegar bólað á niðurstöðu könnunar Ögmundar. Hitt er ljóst að enn eru Íslendingar í Afganistan og VG gerði ekki nokkrar athugasemdir við árásir Nató á Líbíu. Engar breytingar hafa orðið á aðild Íslands að Nató, þar er haldið áfram eins og áður og verkefnunum frekar fjölgað en hitt. 

Svo heldur fréttin áfram:

- Hversu sáttur hefurðu verið við utanríkisstefnu stjórnarinnar á þeim tíma sem þú hefur staðið utan hennar?

„Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi fylgt miklu skaplegri stefnu í utanríkismálum en forverar hennar hafa gert. Ég er ekki í neinum einasta vafa um að svo hafi verið.

Það hefur dregið úr viðleitni til að fara inn í hernaðarleg samvinnuverkefni eins og var hér áður og aðrar áherslur uppi. Þannig að ég tel að við höfum verið á réttri leið hvað þetta snertir. Ég nefni líka afstöðu til Palestínu sem dæmi,“ segir Ögmundur Jónasson. 

Jamm, þannig var nú það ...

Hin „skaplega stefna“ fjögurra ára í utanríkismálum er nú þannig að enn erum við í Nató og enn er áfram haldið með aðlögunina að ESB.

Stefnan kom þó ekki ókeypis enda eru Vinstri grænir eru búnir að missa tvo þriðju hluta fylgis síns ef marka má skoðanakannanir. Mikið má Ögmundur nú vera stoltur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband