Eldgos á Heimaey, þjóðhátíð og fótbolti

Móðir mín vakti mig þennan dag eins og venjulega og sagði að nú væri byrjað að gjósa í Vestmannaeyjum. Stórmerkilegar fréttir fannst mér og ég borðaði morgunverð og fór í skólann.

Ég var sextán ára og var á „fyrsta ári“ í menntaskóla. Raunar var það svo að við vorum eitthvað um sextíu manns sem höfðu ekki fengið inni í menntaskólum höfuðborgarinnar heldur vorum sett í Vörðuskóla, þar hafði verið stofnuð svokölluð menntadeild. Hún var undir stjórn Menntaskólans í Reykjavík og næsta haust fórum við mörg þangað inn og þá í fjórða bekk samkvæmt fornu bekkjaskipulagi skólans.

Hjálpa til  

Nú, þetta var bara útúrdúr. Mér og skólafélaga mínum, Jónasi Inga Ketilssyni, fannst alveg ómögulegt að komast ekki til Eyja þar sem fjörið var og ekki síst að sjá eldgosið og hjálpa til. Við kjöftuðum okkur í ham og það endaði með því að við örkuðum niður á Hverfisgötu og bönkuðum upp hjá Almannavörnum ríkisins. Ekki man ég hvort þetta var 23. janúar eða einum eða tveim dögum síðar. 

Við fengum viðtal við mjög áhugasaman mann sem tjáði okkur að því miður yrðum við að vera átján ára til að komast í hjálparhópa sem sendir væru til Eyja. Engu að síður tók hann niður nöfn okkar og símanúmer og kvaðst myndi hafa samband ef mannskap skorti eða eitthvað annað kallaði á. Af fundinum fórum við afar bjartsýnir og þóttumst miklir menn og meiri líkur en minni að á okkur yrði kallað. En nú fjörtíu árum síðar hafa Almannavarnir ekki enn haft samband við okkur og ég geri ekki ráð fyrir því að við verðum kallaðir héðan af.

Þjóðhátíð á Bökkum 

Um sumarið var áðurnefndur Jónas ráðinn til Vestmannaeyja á vegum einhvers verktakafyrirtækis. Þjóðhátíð var haldin um sumarið enda hafði goslokum verið lýst yfir og allt með kyrrum kjörum. Ég fór til á mína fyrstu og einu þjóðhátíð og komst að því að hátíðin var haldin í fyrsta og eina skiptið úti á svokölluðum Bökkum. Ég fékk inni í gömlu húsi þar sem verktakafyrirtækið hýsti starfsmenn sína og þar var stanslaus gleði alla þjóðhátíðina. Man eftir ballettdansmeyjunni íðilfögru sem við allir féllum í stafi fyrir og bárum á höndum okkar alla þjóðhátíðina en ... ekkert gerðist. Í beinu sambandi við þetta man ég eftir lundanum sem seldur var í stykkjatali og var betri en allt annað. Einhverjum félaga okkar týndum við, héldum að hann hefði orðið heppinn og hitt vingjarnlega stelpu en það var nú öðru nær. Hann sagðist hafa villst og farið „út í sveit“. Það fannst okkur undarlega orðað. Ekki væri hægt að villast á Heimaey og þar væri engin sveit nema að öll eyjan væri „sveit“. Hann sór og sárt við lagði og sagðist hafa hitt kindur og hross. Honum var bent á að halda sig við stelpurnar.

Eftirminnilegust er þó skemmtiförin ofan í gíg Eldfellsins. Gufur lagði upp af hrauninu og fjallinu en þær sköðuðu mig ekkert að ráði ... held ég ... og þó! Hitt er skýrt að við fórum ofan í gíginn og aftur upp úr aftur. 

Í gíginn hef ég ekki komið síðan og tel mig ekki þurfa þess. Hins vegar hef ég margoft komið til Eyja síðan og alltaf notið þess hvort heldur það hafi verið á að hitta Eyverja, þing SUS, á Tommamót eða bara í skemmtiferð. Um tíu árum síðar fór ég út í Surtsey og dvalið þar í rúman sólarhring.

Shellmót í Eyjum 

Skan210

Engar myndir tók ég á þessari frægu þjóðhátíð í Eyjum. Var eiginlega ekki byrjaður á myndatökum. Hins vegar er hér stórmerkileg mynd sem tekin var nákvæmlega tuttugu árum síðar á Shellmóti í Eyjum, 1993. 

Lengst til vinstri er Magnús Gylfason sem þarna var þjálfari tveggja eða þriggja liða tíu og ellefu ára KR-inga.

Maggi átti aldeilis eftir að setja mark sitt á knattspyrnusöguna, hjá KR, Víkingum og auðvitað ÍBV. Og núna er hann þjálfari hjá Val.

Skan204

Næstur honum er Grétar Sigfinnur, sonur minn, sem enn leikur með KR. fyrir framan hann er Jakob Sigurðsson, eitt mesta efni sem ég hef séð í fótbolta. Hann var afar smár en knár og leikinn með boltann. örlögin höguðu þó því að hann lagði fyrir sig körfubolta og gerði garðinn frægan með KR og er nú hjá Sundsvall í Svíþjóð.

Mér eru allir þessir strákar afskaplega eftirminnilegir og ekki síður foreldrarnir sem stóðu þétt saman og fóru víða með strákunum sínum, það er þangað til þeim þótti það ekki lengur gaman að hafa pabba og mömmu á hlíðarlínunni.

Jæja, læt þessu nú lokið enda búinn að hlaupa úr einu í annað, þó ekki án tenginga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband