Óheiðarleg viðhorf ríkisstjórnarinnar
6.1.2013 | 13:21
Það heimskulegasta sem við Íslendingar getum gert er að draga ráðamenn í Brussel á asnaeyrunum árum saman, telja þeim trú um að Íslendingar séu í þann veginn að ganga í ESB og láta valdamenn í 27 aðildarríkjum atast í því að gera flókna samninga við íslensku þjóðina sem gefur svo skít í allt saman þegar þar að kemur.
Þetta segir Ragnar Arnalds á Vinstrivaktinni gegn ESB. Veltum þessum orðum dálítið fyrir okkur og lítum á það sem ríkisvaldið hefur verið að gera.
- Ríkisstjórnin sagði ESB ósatt og segir enn að Ísland vilji ganga inn í sambandið
- Aldrei hefur verið meirihlutafylgi fyrir inngöngu Íslands í ESB samkvæmt skoðanakönnunum
- Enginn samningur verður gerður við ESB um neitt annað en tímabundnar undanþágur
- Viðræður við ESB ganga út á að Ísland sanni að öll lög, reglur og stjórnkerfi sé samkvæmt kröfum sambandsins. Þess vegna heita þetta aðlögunarviðræður.
- Ríkisstjórnin segir þjóðinni ósatt og kallar aðlögunarviðræðurnar samningaviðræður
- Íslendingar munu aldrei framselja yfirráðin yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum til ESB, það veit ESB og mun hins vegar aldrei samþykkja að við fáum að halda yfirráðunum.
Ragnar Arnalds segir það ekki berum orðum en hann á einfaldlega við að Ísland er að eyða tíma tuttugu og sjö Evrópuríkja til einskis, aðeins til að hætta við í lokin. Þannig á ekki að vinna með öðrum þjóðum, það er óheiðarlegt og rangt.
Nú eigum við Íslendingar að óska eftir hléi á viðræðunum við ESB og bendum á afstöðu þjóðarinnar í skoðanakönnunum því til sanninda. Síðan verði það ákveðið að bera áframhaldið undir þjóðaratkvæðagreiðslu um leið og kosið verður til Alþingis. Þannig fæst sú eina pólitíska leiðsögn sem þjóðin mun una við og það mun Evrópusambandið skilja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.