Krafa á þingmenn Sjálfstæðisflokksins

Alþingi samþykkti að næturlagi korteri fyrir jól lagafrumvarp um viðskipti með kvóta í losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda og er frumvarpið hluti af aðlögun okkar að ESB.

Hvaða afleiðingar hefur aðlögunin að ESB haft á lagasetningu, reglugerðir og stjórnsýslu hér á landi? Ofangreind tilvitnun er úr vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB. Þar er greint frá minnihlutaáliti umhverfis- og samgönguáætlunar Alþingis sem heldur því fram að ekki hafi verið hægt að afgreiða þetta lagafrumvarp vegna fullveldisákvæðisins í stjórnarskránni.

Engu að síður var það gert og þar að auki gegn niðurstöðu lagahóps samningarnefndar vegna ESB viðræðnanna.

Ég hef margsinnis vikið að því að höfum ekki aðeins sótt um aðild að ESB heldur erum við beinlínis á leið inn í það. Alþingi hefur samþykkt aðildina og ESB hefur samþykkt hana. Niðurstaðan eru aðlögunarviðræður þar sem breytingar eru gerðar á stjórnsýslu íslenska ríkisins, lögum og reglum.

Samningaviðræður eru engar, ALLS ENGAR. Um er að ræða aðlögun vegna þess að Ísland á að verða fullgildur aðili. Þegar þessum aðlögunarviðræðum er lokið verður Ísland fullgildur aðili. Engir samningur, enginn pakki, eins og svo oft hefur verið lofað. Hugsanlega aðeins tímabundnar undanþágur frá stjórnarskrá ESB. Jú, og svo þessi þjóðaratkvæðagreiðsla en má ekki  fara í hana samhliða þingkosningunum næsta vor? Miðað við eðli máls skiptir litlu þó farið verði í þjóðaratkvæðagreiðsluna áður en aðlöguninni lýkur.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins bregðist við 

Aðlögunarviðræðurnar byggjast á 35 köflum sem eru umræðuefnin. Að loknum viðræðum um hvern kafla er sú staða uppi að annað hvort samþykkir ESB stöðu málsins eða þá að Ísland þarf að gera breytingar á lögum, reglum eða stjórnsýslu.

Ég geri kröfu til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, af því að ég er í þeim flokki. Þingmenn mínir eiga að gera eftirfarandi þríhliða fyrirspurn til forsætisráðherra á fyrsta þingdegi ársins 2013:

  1. Hvaða lögum og reglum íslenska lýðveldisins hefur verið breytt vegna aðlögunar að Evrópusambandinu? 
  2. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á stjórnsýslu íslenska ríkisins vegna aðlögunar að Evrópusambandinu?
  3. Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á lögum, reglum og stjórnsýslu vegna aðlögunar að Evrópusambandinu?

Svör við þessum spurningum eru grundvallaratriði í umræðunni um aðildina að ESB.

Ríkisstjórnin hefur ekkert látið uppi um breytingarnar enda kunna þær að gjörbreyta afstöðu almennings til aðildarinnar og gera ljóst að ekki er um samningaviðræður sem ljúka mun með einhverjum samningi.

Þjóðin á rétt á því að vita hvaða breytingar hafa verið gerðar. Er til dæmis áherslan á nýja stjórnarskrá komin til vegna aðlögunarinnar? Eða breytingarnar á ráðuneytunum? 

Enginn samningur verður gerður. Þetta vita allir en engu að síður lætur ríkisstjórnin sem svo að um sé að ræða eitthvert samningaferli eins og þegar Noregur sótti um aðild að ESB árið 1992. Reglum um aðildina hefur síðan verið gjörbreytt og nú er ekki um samningaviðræður heldur aðlögun enda gert ráð fyrir því að með umsókn sé viðkomandi ríki staðráðið í að ganga í sambandið - ekki til að kíkja á einhvern samning eða pakka.

Staðan í samningaviðræðunum 

Til skýringar er gott að fara yfir stöðuna í aðlögunarviðræðunum. Hér að neðan má sjá þá kafla sem um er fjallað í aðlögunarviðræðunum.

Munum að til að geta rætt um þessa kafla þarf aðlögunarnefnd Íslands að geta sýnt fram á hver sé munurinn á íslenskum aðstæðum og aðstæðum ESB og hvernig Ísland eigi að brúa bilið. Munum líka að ekki er gert ráð fyrir að Evrópusambandið komi til móts við íslenska hagsmuni einfaldlega vegna þess að það er ekki að sækja um aðild að Íslandi - heldur öfugt.

Nú er lokið viðræðum um eftirfarandi kafla:

  • Utanríkis-, öryggis- og varnarmál
  • Hugverkarétt
  • Félagarétt
  • Neytenda- og heilsuvernd
  • Frjáls för vinnuafls
  • Menntun og menningu
  • Vísindi og rannsóknir
  • Iðnstefnu
  • Réttarvörslu/grundvallarréttindi
  • Evrópsk samgöngunet
  • Samkeppnismál 

Viðræður eru hafnar um eftirfarandi kafla og þá upplýsir aðlögunarnefnd Íslands hverju hafi verið breytt í lögum, reglum og stjórnsýslu og hverju eigi eftir að breyta til að þóknast Evrópusambandinu:

  • Opinber útboð
  • Upplýsingatækni og fjölmiðlun
  • Orka
  • Samgöngur
  • Félagsmála- og atvinnustefna
  • Framlagsmál
  • Fjárhagslegt eftirlit
  • Hagtölur
  • Fjármálaþjónusta
  • Tollabandalag
  • Frjálst vöruflæði
  • Gjaldmiðilssamstarf
  • Utanríkistengsl
  • Umhverfismál
  • Skattamál
  • Byggðastefna

Nú er ljóst hver staða Íslands er í næstu tveimur köflum og beðið er eftir því að viðræður hefjist.

  • Matvælaöryggi
  • Dóms- og innanríkismál

Svo eru eftir fjórir mikilvægustu kaflar aðlögunarviðræðnanna og sagt er að „samningsafstaðan sé í vinnslu“ sem þýðir einfaldlega það að ekki er samstaða um málið hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum. Fyrrnefndi flokkurinn veit svo sem hvað hann vill en sá síðarnefndi er hræddur um komandi kosningar og vill fresta umræðunni í þeirri von að útreiðin í næstu kosningum verði ekki eins hræðileg og skoðanakannanir benda til:

  • Sjávarútvegsmál
  • Landbúnaður og dreifbýlisþróun
  • Frjáls för fjármagns
  • Staðfesturéttur og þjónustufrelsi

Svo geta lesendur farið yfir hvern og einn kafla og velt því fyrir sér hvort þeir snerti fullveldi landsins samkvæmt stjórnarskránni eða brýna þjóðarhagsmuni.

Byrjum málið á þremur ofangreindum spurningum sem ég hvet þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að leggja fyrir forsætisráðherra á fyrsta degi Alþingis á nýju ári. Spurningarnar eru einfaldar og ábyggilega mjög einfalt að fá skýr svör.

Bendi lesendum á vefinn vidraedur.is en hann er opinber vefur utanríkisráðuneytisins og svokallaðrar samningaviðræðunefndar Íslands um aðlögunarviðræðurnar við ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Það er engin aðlögun í gangi.

Enda hefur þú ekki hugmynd um hvaða lög hafa verið breytt vegna samningsviðræðurnar.

Við erum í EES... þar kemur aðlögunin.

Það er sorglegt að þú skulir vera að eyða svona miklu púðri í þetta ESB plagg.

Við erum ekkert á leið þangað inn.... enda er enginn vilji til þess. Samningurinn verður felldur.

En mér leiðist að lesa tóma vitleysu og bull alla daga.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.12.2012 kl. 17:55

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Mjög gott hjá þér og skilmerkilega sett fram.

Ég veit að þú ert heill í andstöðu þinni við ESB aðild.

En hræddur er ég um að þú og fleiri ESB andstæðingar innan Sjálfsstæðisflokksins þurfið heldur betur að gæta að ykkur og halda þingmönnum og flokksforustunni við efnið og þrýsta á að þeir haldi sig við skýra stefnu flokksins í þessum ESB málum.

Forysta flokksins og flestir þingmenn hennar hafa verið ótrúlega meðvirkir og hálf sofandi í veita stjórnvöldum eitthvert alvöru aðhald og viðspyrnu í ESB aðildarruglinu. Þó svo að þeir hafi þar skýra stefnu flokksins til að styðjast við og fara eftir.

Nei það er ferðinni stöðugt meðvitundarleysi og máttleysi og undanhald frá skýrri stefnu flokksins.

Það veit ekki á gott !

Það er alveg með ólíkindum hvað þessi pólitíska Elíta í öllum flokkum og öllum löndum virðist vera veikgeðja og svag fyrir þessu ráðstjórnar- og miðstýringar bulli !

Gunnlaugur I., 29.12.2012 kl. 18:26

3 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ef við viljum forðast miðstýringar þá væri best að byrja hér heima.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.12.2012 kl. 18:56

4 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Það væri nær fyrir Sjálfstæðismenn að berjast fyrir að minnka báknið.

Þeir bera mikla ábyrgð á því.

Þeir voru við stjórn þegar báknið stækkaði hvað mest.

..... þar er miðstýringin.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.12.2012 kl. 18:58

5 Smámynd: Gunnlaugur I.

Ég tek undir með Sleggjunni & Hvellinum og er það nú ekki oft sem að það gerist.

Alveg rétt hjá þeim að minnka miðstýringuna og berjast gegn henni og auka lýðræðið.

En þá þarf bæði byrja og enda þá vegferð hér heima.

En ekki að gefast bara upp og enda þá ferð í gini sjálfrar Ráðstjórnarinnar úti í Brussel !

Gunnlaugur I., 29.12.2012 kl. 19:06

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þú eykur lýðræðið með því að minnka báknið og lækka skatta... láta fólk í friði og leyfa þeim að ráða sínu lífi sjálfir. Það er alvöru lýðræði.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.12.2012 kl. 19:18

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Dálítið skrýtið að Bjarni Freyr Borgarsson (sleggjan og hvellurinn) nennir ekki að lesa um bull og vitleysu en samt má hann vera að því að gera athugasemdir við það sama.

Höldum þessu einföldu. Hér er pistill um ESB og aðlögunina. Ég hef áður skrifað um báknið og mun síðar halda því áfram. Hins vegar fer betur á því að ræða eitt mál í einu, annars fer umræðan út um alla móa og það er ekki tilgangurinn með skrifum mínum.

Gunnlaugur, þessi pistill er nákvæmlega til þess skrifaður að veita þingmönnum Sjálfstæðisflokksins aðhald. Pólitíkin verður ekki bara til á þingi, hún verður líka til hjá okkur almennum flokksmönnum.

Ég veit ekki til þess að þingmenn flokksins eða aðrir hafi spurt þessara spurninga. Sá eini sem ég veit til að hafi lesið pistilinn er varaþingmaður flokksins í SV kjördæmi, Óli Björn Kárason, og hann hefur sagt frá honum á vef sínum, www.t24.is.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.12.2012 kl. 20:57

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það myndi ekki skaða að minna XD á að stór hópur kjósenda studdi VG í síðustu kosninum einungis vegna afstöðu VG gegn ESB.  Þ.á.m. hægri sinnaðir.

Þessir kjósendur láta ekki plata sig tvisvar.  Hafi XD áhuga á atkvæðunum þarf flokkurinn að vera sannfærandi í ESB afstöðu sinni.

Kolbrún Hilmars, 29.12.2012 kl. 23:06

9 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Sigurður

Það er líklega ekki vel varið tímanum, að vera með væntingar, svo ekki sé minnst á kröfur til handónýtar stjórnar andstöðunar. Ég man t.a.m. ekki eftir öðrum málefnum úr herbúðum Sjálfstæðismanna en frumvarpinu um staðgöngumæður og uppsteytin við samþykki Alþingis þess efnis að draga forsætisráðherrann fyrrverandi fyrir Landsdóm.

Ég man líka vel eftir stuðningi margra, þar á meðal formanns flokksins við að axla síðasta Icesave samninginn.

Annars gæti ég best trúað að þau ófrýnilegu skötuhjú, Jóhanna og Steingrímur segi af sér alveg á næstu dögum eða vikum og ekki vegna einarðrar stjórnarandstöðu, heldur af "taktískum" ástæðum í átt til "Bjartrar framtíðar"

Jónatan Karlsson, 29.12.2012 kl. 23:07

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sammála þér, Kolbrún.

Jónatan, ég er ekki sammála um að stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins hafi verið handónýt. Gæti nefnt mörg dæmi um verulega góð mál, gagnrýni og stefnu. Sitt sýnist þó hverjum og má vera að þú sért ekki sammála. Held nú samt að þau skötuhjú muni ekki segja af sér. Samfylkingin þarf að koma næsta formanni sínum að sem forsætisráðherra til að fá einhverja undirstöðu fyrir kosningabaráttuna. Steingrímur getur ekki hlaupist á brott eftir öll svikin í ESB málinu. Hann þarf tíma til að telja kjósendum trú um að svik séu ekki svik heldur eitthvað allt annað. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að fólk muni koma til með að trúa honum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.12.2012 kl. 23:13

11 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Alvöru hægri menn mundu aldrei kjósa VG. Það er bara þannig.

En að sjálfsögðu er þetta bull og vitleysa hjá þér Sigurður. Það sér hver maður.

Þú nefnir "aðlögun" milljón sinnum í þessari færslu þinni en getur ekki nefnt eina reglu eða lög sem við höfum þurft að breyta varðandi þetta aðildarferli.

Sleggjan og Hvellurinn, 30.12.2012 kl. 00:39

12 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Sigurður og þakka góða samantekt.

Það kemur mér þó á óvart að þú skulir nenna að svara þeim sem ekki nenna að lesa pistla þína. Efnisleg gagnrýni er góð og sjálfsagt að svara slíkum athugasemdum, en gegnrýni gerð af þeim sem ekki nenna að lesa það sem þeir ætla að gagnrýna getur aldrei orðið vitræn og því vart svaraverð.

Aðlögunarferlið er komið á hættustig, það er rétt og sjálfsagt mál að ráðamenn þjóðarinnar svari því hversu miklar breytingar hafi verið gerðar á stjórnsýslu og lögum landsins vegna hennar.

Hitt er svo annað mál, að ESB virðist hafa dregið verulega úr þeim áhuga að halda þessu ferli áfram og er það nú nánast orðið stopp. Virðist svo vera sem þar á bæ sé einhver skilningur kominn á að vilji þjóðarinnar til þessa ferlis sé ekki eins mikill og haldið hefur verið fram í þeirra eyru.

Það er ljóst að lítið mun ske í þessu ferli fram til næsta vors, tíminn verður notaður til að fara yfir þau mál sem við þegar uppfyllum og deilumálin látin bíða fram yfir kosningar.

Því væri kannski mikilvægara að þingmenn og frambjóðendur stjórnarandstöðunnar svöruðu spurningum um framtíðina, hvað þeir hyggjast gera að loknum næstu kosningum.

Framsóknarflokkurinn hefur hreinsað sig að mestu af ESB óværunni, þó enn séu öfl innan hans sem þykjast sjá einhverja guðlega dýrð þar syðra og eystra. Hvort þau öfl nái sér á strik aftur á eftir að koma í ljós. Vonandi mun svo ekki verða.

Innan Sjálfstæðisflokks eru aftur sterk öfl sem þangað vija fara, þó þau reyni að fela sig bakvið frasa um einhverja pakkaskoðun. Þar liggur kannski mesta hættan. Nú sem stendur eru þessi öfl innan flokksins í miklum minnihluta, en þetta eru sterk öfl og gætu auðveldlega náð fyrri styrk aftur. Ef svo fer og þau nái að halda þessu máli opnu og gefi komandi þingmönnum flokksins vopn til að svíkja meirihluta kjósenda hans með stjórnarsamstarfi við Samfylkingu, mun þessi helferð til Brussel verða gengin alla leið.

Það er í raun einungis ein spurning sem frambjóðendur og þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna þurfa að svara. Svar við þeirri spurningu mun greina á milli feigs og ófeigs íslensku þjóðarinnar. Þessi spurning er; kemur stjórnarsamstarf við Samfylkingu til greina? Verði svarið nei, er þjóðin hólpin en ef það verður kannski mun helförin halda áfram.

Auðvitað má segja að ekki sé skynsamlegt að svar slíkri spurningu fyrirfram, að réttar sé að svara henni eftir viðræður milli flokka. Það á vissulega við í nánast öllum tilfellum, en gagnvart Samfylkingu er hægt að svar þessari spurningu strax, enda sá flokkur með þetta eina mál á sinni könnu.

Þjóðin hefur öll efni á að svar strax þeirri spurningu hvort halda skuli áfram aðlögunarferlinu. Þar liggur allt á borðinu. Það sama á við um frambjóðendur stjórnarandstöðuflokkana, þeir geta svarað strax þeirri spurningu hvort samstarf við Samfylkingu kemur til greina, þar liggur einnig allt á borðinu.

Nú geri ég ráð fyrir áð þú verðir á landsfundi Sjálfstæðisflokks, Sigurður. Ég treysti á að þú látir þitt af mörkum í umræðunni um ESB málið. Þetta er stæðsta mál stjórnmálanna í dag og mesta ógnin við sjálfstæði þjóðarinnar. Þá vona ég innilega að ESB öflin innan flokksins nái ekki fótfestu.

Fyrirgefðu svo þessa löngu athugasemd, puttarnir eiga stundum erfitt með að yfirgefa lyklaborðið.

Gunnar Heiðarsson, 30.12.2012 kl. 08:01

13 Smámynd: Jónatan Karlsson

Góðan daginn Sigurður og aðrir viðmælendur.

Ég má til með að bæta gráu ofan á svart og nefni þá fyrst að Sigurður svarar fyrri athugasemd minni og segjist geta nefnt mörg góð mál sem Sjálfstæðisflokkur í stjórnar andstöðu hefur staðið fyrir - Ég bíð spenntur.

Næst hljómar hjáróma rödd eða raddir S & H, sem segja: "Alvöru hægri menn mundu aldrei kjósa Vg"

og að lokum kemur Gunnar Heiðarsson með langa og ítarlega athugasemd, venju samkvæmt, sem í aðalatriðum virðist vara við hrollköldum möguleikanum á samstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórnarsamstarfi óstöðvandi helfarar þjóðarinnar inn í Evrópusambandið.

Hér virðast launráðin "opinberast" fyrir allra augum, því þarna er sjáanlega greið leið til vegs og virðingar fyrir trausti rúna flokksleiðtogana, í stað óumflýjanlegrar niðurlægingar og ærumissis, ef þjóðin fær ráðið í eðlilegu kosninga ferli.

Jónatan Karlsson, 30.12.2012 kl. 10:34

14 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir innlitið, Gunnar. Alltaf fróðlegt að lesa viðhorf þín í blogginu og ekki síður málefnalegar athugasemdir. Ég er eiginlega sammála þér. Síðustu landsfundir hafa verið harðir gegn ESB en aðeins minna en um fjórðungur landsfundarfulltrúa sé hlyntur aðild eða aðlögunarviðræðunum. Þarna hafa verið háværari andstæðingar ESB en ég og fyllilega ástæða til að treysta á þá. Ég mun þó ekki láta mitt eftir liggja.

Ég held líka að þingflokkurinn eins og hann er nú skipaður sé harður í afstöðunni gegn ESB og engin hætta þar þó ég vilji til dæmis sjá einhver viðbrögð við kröfum mínum um svör við þessari þríhliða fyrirspurn.

Hvað aðra flokka ræðir, þá er ég þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn standi eiginlega dálítið einangraður. Bæði er að við erum orðnir þreyttir á VG og Samfylkingunni og þeir og aðrir flokkar álasa okkur fyrir að vera „hrunflokkurinn“. Held að myndun næstu ríkisstjórnar verði mikið vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2012 kl. 10:40

15 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég er ekki alveg viss um að ég skilji athugasemd þína, Jónatan, á þann hátt sem þú vilt. Ef þú heldur að ég sé einhver hluti af samsæri um að svifta þjóðina lýðræðislegu valdi sínu vegna aðlögunarviðræðna við ESB þá er það mikill misskilningur. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum átt að leggja aðildarumsóknina fyrir þjóðaratkvæði árið 2009 í stað þess að ríkisstjórnin tæki ein ákvörðun um svo afdrifaríkt mál. Ég er einnig á þeirri skoðun að þjóðin eigi að hafa lokaorðið um aðildarumsóknina. Helst vil ég að þjóðin fái að segja skoðun sína um það mál í næstu þingkosningum.

Það sem ég er að benda á í þessum pistil mínum og ótal öðrum er að verið er að blekkja þjóðina. Henni hefur verið talin trú um að við stöndum í samningavirðræðum við ESB meðan sannleikurinn er einfaldlega sá að ESB hefur samþykkt aðildarbeiðni okkar og verið er að ganga frá aðildinni skref fyrir skref. Það er gert á kerfisbundinn hátt með því að fara ofan í þessa 35 kafla og ræða þá í þaula og íslenska viðræðunefndin hefur það verkefni að sýna fram á hvort eða hvernig við ætlum að gangast undir skilyrði ESB vegna hvers og eins þeirra.

Ég vona að þú áttir þig á innihaldi orða minna. Þetta er gríðarlega umfangsmikið mál sem eiginlega hefur verið falið undir heljarmikilli orðræðu um samninga og niðurstöðu þeirra. Um samninga er ekki að ræða vegna þess að við erum að sækja um aðild að ESB og þurfum að gangast undir Lissabonsáttmálann. Honum verður ekki breytt þrátt fyrir umsókn Íslands.

En kæri Jónatan, ekki misskilja mig viljandi. Ég kann því afar illa þegar ég reyni að vera málefnalegur þá sé reynt að snúa út úr orðum mínum. Þá er eiginlega vonlaust að skiptast á skoðunum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2012 kl. 10:58

16 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll aftur Sigurður.

Ég er síður en svo að snúa út úr skoðunum þínum og þaðan af síður að efast um heilindi þín. Ég get t.a.m. upplýst þig um að nafn þitt var eitt af þeim, sem ég merkti við í ný afstöðnu prófkjöri, auðvitað auk HBK í það efsta. Það eina sem ég fetti í raun og veru fingur (á lyklaborðinu) út í, við málflutning þinn, er þessi árátta þín og reyndar margra annara Sjálfstæðismanna, að bera blak af og í bætifláka fyrir nokkra forystumenn flokksins, hvort heldur vegna svika við ályktanir landsfundar og siðferði landsmanna upp til hópa og jafnvel landslög - og það að því virðist aðeins af einhverri óskiljanlegri "flokks hollustu"

Ég leyfi mér að fullyrða, að ég, ásamt þúsundum annara Sjálfstæðismanna, mun annaðhvort sitja heima, eða finna annan flokk (sem er ENN vandfundinn) í næstu kosningum, nema til komi róttæk og raunveruleg uppstokkun í forystusveit flokksins.

Jónatan Karlsson, 30.12.2012 kl. 13:04

17 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir það, Jónatan. Mér hefði þótt lakara ef þú hefðir dregið heilindi mín í efa.

Held að það sé rétt hjá þér að margir Sjálfstæðismenn séu í vanda. Til að leysa úr honum verður Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst að leggja fram skýrar tillögur í efnahags- og atvinnumálum á næsta landsfundi, auk þess að útskýra hvernig og hvenær hann ætli að leysa úr skuldavanda heimilanna, atvinnuleysinu og öðrum mikilvægum málum.

Ég heyri þetta oft með forystu flokksins. Nýtt fólk hefur náð árangri í prófkjörum og svo skulum við sjá hvernig listarnir koma til með að líta út.

Ég viðurkenni upp á mig þá sök „að bera blak af og í bætifláka fyrir nokkra forystumenn flokksins“. Tel tilgangslaust að ráðast á samherja, slíkt veldur aðeins óvinafagnaði. Hins vegar hef ég gagnrýnt forystu flokksins á málefnalegan hátt þegar hún á það skilið og mun halda því áfram.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2012 kl. 13:13

18 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Enn getur enginn nefnt nein lög sem við höfum þurft að breyta varðandi umsóknarferlið... þó að hér er landslið NEI-sinna. Sigurður, Gulli og Gunnar.

Þögnin er orðin æðandi.

En svo við tölum um prófkjör þá er ég í Sjálfstæðsiflokknum og kaus í prófkjöri um daginn og merkti ekki við Sigurð.. m.a útaf þessari bloggsíðu sem hann opinberar fávisku rugl og veruleikafyrringu alla daga. Það sjá það flestir sem vilja... enda var Sigurður ekkert að ríða feitum hesti í þessu prófkjöri.

Sleggjan og Hvellurinn, 30.12.2012 kl. 14:45

19 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Skil ekki hvers vegna Bjarni Freyr Borgarsson (sleggjan og hvellurinn) sýnir ekki sjálfsagða kurteisi heldur leyfir sér leiðinda munnsöfnuð rétt eins og það sé einhver hluti af röksemdafærslu eða skoðanaskiptum.

Leiðist honum ruglið í mér eins mikið og hann vill vera láta ætti hann að sleppa því að lesa þetta blogg.

Verst er þó að þrátt fyrir ally hefur hefur ekki lesið það sem ég skrifaði hér í pistlinum. Þar var getið um lög sem samþykkt voru vegna kröfu frá Evrópusambandinu og lýst er jafnframt eftir því HVORT fleiri lögum eða reglugerðum hafi verið breytt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.12.2012 kl. 14:53

20 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ekki er ég lögfræðingur eða lagaprófessor, en það sem ég les um ESB umsóknina þá þarf að breyta Stjórnarskrá Íslands svo að Ísland geti lagalega gengið in í ESB?

Bjarni Freyr Borgarsson, það munar ekki um það, ekki bara að breyta einhverri smá lagasetningu, heldur þarf að breyta grundvallarlögum Íslands, Stjórnarskráni sjálfri til að geta orðið meðlimir ESB samkvæmt íslenzkum lögum.

Svo er það kanski ekki að íslenzkum lögum þurfi að endlega að breyta, heldur þurfa íslendingar að innleiða lög sem gerð eru í Brussel eða Strasbourg.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 30.12.2012 kl. 23:05

21 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Jóhann

Annaðhvort ertu óstjórnlega heimskur eða skilur einfaldlega ekki ritað orð.

Það er verið að tala um umsóknarferlið. Við erum að tala um hvaða lögum þarf að breyta í umsóknarferlinu?

En ef þjóðin kýs að ganga í ESB þá að sjálfsögðu þurfum við að bæta okkar stjórnsýslu.

Sleggjan og Hvellurinn, 31.12.2012 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband