Hvar er hinn djarfi málflutningur frambjóðenda?

En það er ekki nægjanlegt að marka stefnuna á landsfundi. Forysta Sjálfstæðisflokksins verður að koma fram af festu, tala skýrt og af sannfæringu – sýna djörfung í málflutningi. Hið sama á við um frambjóðendur flokksins um allt land. Aðeins þannig munu kjósendur skynja að sjálfstæðismenn séu málafylgjumenn, sem segja það sem þeir meina og gera það sem þeir segja.
 
Tilvitnunin er úr hvatningagrein Óla Björns Kárasonar í Morgunblaðinu í morgun. Undir fyrirsögninni „Vekefni sjálfstæðismanna á landsfundi“ brýnir hann Sjálfstæðismenn til að taka til hendinni, leggja fram hnitmiðaðar tillögur fyrir kosningarnar og vera ófeimnir. Undir orð Óla Björns er hér heilshugar tekið. En málið er flókið og svo virðist sem sjálfstæðismenn séu enn of latir til að berjast.
 
Fyrir utan alþingismenn er Óli Björn sá eini þeirra sem árangri náðu í undanförnum prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Aðrir steinþegja, fólk sem ruddist fram og fékk næg atkvæði sem virðast ýmist hafa tryggt þingmennsku eða varaþingmennsku. Heftur þetta fólk ekkert fram að færa eða er það komið í jólafrí fram á vor?
 
Óli Björn er eldhugi. Hann tekur öllum fram í málefnalegri stöðu. Hann gefur út bækur með skoðunum sínum, ritar greinar í dagblöð og vefsíður, berst fyrir skoðunum sínum og hvetur aðra til dáða.
 
Hann lenti þó aðeins í sjötta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hafði þó lagt mun meira til málanna enn allir aðrir til samans, jafnvel þingmennirnir. Sleppum því en hvað hafa þeir lagt til málanna sem lentu framar honum? Hvers vegna taka þau Vilhjálmur Bjarnason, sem lenti í fjórða sæti, og Elín Hirst (5.) og Karen E. Halldórsdóttir (7.), ekki til máls? Eru þau ekki lengur með í pólitík?
 
Hvað dvelur þau sem náðu svo fínum árangri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? Hvers vegna heyrist ekkert í Brynjari Níelssyni (4.), Sigríði Á. Andersen (7.), Áslaugu Maríu Friðriksdóttir (8.), Ingibjörgu Óðinsdóttur (9.) og Elínbjörgu Magnúsdóttur (10.). Vorum við bara að kjósa einhverjar liðleskjur í prófkjörinu?
 
Í Norðvesturkjördæmi heyrist ekki hljóð frá frambjóðendunum. Haraldur Benediktsson (2.), þegir þunnu hljóði, sama gerir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (3.) og Sigurður Örn Ágústsson (4.). Hvers konar framganga er þetta hjá pólitíkusum? Það er bara Bergþór Ólason sem ritar greinar í blöð og hefur skoðanir á málum en því miður lenti hann ekki í neinu af efstu sætunum.
 
Var allt þetta fólk bara að sækja um huggulega innivinnu eins og sá sem gegnir starfi borgarstjóra í Reykjavík?
 
Er ekki í lagi að gera kröfu til þess að þetta fólk standi upp úr hægindastólunum og láti til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Nóg er að minnsta kosti að gera í pólitíkinni. Enginn gerir kröfur til þess að þetta fólk reyni að fara í sporin hans Óla Björns enda varla gerlegt. Eitthvað má þó á milli vera.

mbl.is Verkefni á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

kannski hefur það séð að þín gerð af eldmóði er ekki til árangurs fyrir neinn - ekki einu sinni fyrir þinn flokk. kannski hef ég rangt fyrir - allavega er mitt ráð til þín að halda áfram að blogga hérna eins og þú hefur gert

Rafn Guðmundsson, 19.12.2012 kl. 12:27

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hvers konar dóni ert þú, Rafn Guðmundsson? Finnst þér stórmannlegt ryðjast inn með ruddaskap og persónulegar meiðingar?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.12.2012 kl. 12:47

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Þar sem vandinn sem þjóð okkar er að glíma við er sameiginlegur þá kemur það okkur öllum við að flokkarnir velji fólk til forystu sem hefur eitthvað til málanna að leggja. 

Vandinn sem þú ert að lýsa er ekki bara bundinn við Sjálfstæðisflokkinn, aðrir flokkar glíma við hann líka. 

Það er eins og fólk hafi lítt til málanna að leggja annað en það sem síðasti sérfræðingur sagði. Síðan í málum sem geta stórskaðað þjóðina, líkt og ICEsave samningarnir voru, þá þora fáir gegn sérfræðingunum sem færa ótal rök fyrir að þetta eigi að vera svona og svona.  En þingmönnum virðist vera ofviða að leggja sjálfstætt mat á þessi rök.  

Það segir líka mikið um flokkana að þeir sem þó hafa skoðanir og setja þær fram á skýran og skilmerkilegan hátt, að þeir ná oft á tíðum ekki miklum árangri.  Og ef þeir ná árangri þá er það yfirleitt vegna þess að þetta eru populista skoðanir.  

Spurningin er þegar þjóðarvá er fyrir dyrum eins og Tryggvi Þór Herbertsson orðaði mjög vel í frábærri grein í Morgunblaðinu, hvað gera þeir sem skynja hættuna en mæta tómlæti innan flokka sinna og það er ekki hlustað, hvorki á aðvaranir þeirra eða tillögur til að takast á við vána??

Er þetta ekki stóra samviskuspurningin í dag sem menn þurfa að svara og gera upp við sig.  

Hvort er mikilvægara, flokkurinn eða þjóðin???

Ég hef oft hugsað þetta þegar ég hef lesið greinarnar hans Óla, hann mælir af skynsemi hins hefðbundna íhaldsmanns, málflutningur hans á sér skírskotun í stefnu flokksins.   En fær ekki miklar undirtektir og jafnvel sjónvarpsandlit skákar honum. 

Hvað gera svona menn á örlagatímum.

Horfa á skipið stranda???

Það er mikil ábyrgð að gera ekki neitt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.12.2012 kl. 15:06

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tek undir hvert orð hjá þér, Ómar. Stjórnmálaflokkar eru að mínu mati til fyrir þjóðina og allir reyna að vinna henni til heilla. Það gengur hins vegar ekki alltaf og á því hafa menn mismunandi skoðanir. Slíkt kallast pólitík og ég geri einfaldaf kröfur til þeirra sem vilja taka þátt í henni, að minnsta kosti fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.12.2012 kl. 15:10

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Og takk fyrir það Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.12.2012 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband