Afhelgun embættismanns eða afhjúpun

Framan af valdaferli Jóns Gnarrs var til siðs að hamast að honum, finna honum allt til foráttu og velja honum ýmis ósæmileg viðurnefni. Nú finnst kannski einhverjum þeir sem hreyta ónotum í borgastjóra og borgarstjórn yfirleitt að embættið hafi beðið hnekki, að virðing fyrir því hafi dvínað, en ég leyfi mér að halda því fram að virðing almennings fyrir embættinu nálgist það stig sem hún á að vera á, að fyrir þorra borgarbúa sé borgarstjóri orðinn þjónn þeirra, að Jóni hafi tekist að afhelga embættið, hann sé einn af okkur.
 
Um þetta leyti kynnir Björt framtíð framboð til alþingiskosninga og á þeim listum eru sum þau sem tekið hafa þátt í að færa borgarstjóra og borgarstjórn nær almenningi. Vonandi tekst þeim líka að afhelga Alþingi – ekki mun af veita. 
 
Þannig ritar Árni Matthíasson, blaðamaður, í Pistilinn á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu í morgun. Greinin sem nefnist „Afhelgun embættanna“ er afbragðsgóð og ég er að mörgu leiti sammála honum. Staðreyndin er einfaldlega sú að embættismaður er starfmaður almennings. Starf hans á umfram allt að skilgreina sem þjónustustarf.
 
Það stendur þó dálítið í mér að samþykkja niðurlag pistilsins, þann hluta sem ég birti hér að ofan. Hingað til hef ég ekki fundið fyrir því að þeir sem gengt hafa embætti borgarstjóra undanfarna áratugi hafi sett sig á háan hest, langt þar í frá. Flestir hafa verið áfram um að sýna sjálfum sér og því starfi sem þeir gegna þá virðingu sem tilskilin er.
 
Raunar má bæta því grundvallaratriði við að flestir þeirra sem gengt hafa embættinu hafa getað það, haft þekkingu og reynslu til þess að sinna því að minnsta kosti þokkalega. Ég man eiginlega ekki til þess að hafa fundið fyrir hroka hjá neinum þeirra.
 
Þarna er komið að því sem skiptir öllu og það er þekkingin og reynslan. Með fullri virðingu fyrir Jóni Kristinssyni þá er ljóst að hann er fyrsti maðurinn sem gegnir þessu mikilvæga embætti sem hvorki hefur reynslu né þekkingu fyrir starfann. Þetta má rökstyðja með ýmsu því sem hann hefur látið frá sér fara í viðtölum og greinum. Því til viðbótar þurfti að breyta stjórnskipulagi á skrifstofu borgarstjóra og var starfsskyldum hans breytt og skrifstofustjóri tók þær yfir.
 
Jón Kristinsson hefur aldrei haft neina forystu fyrir nokkrum málum í borgarstjórn. Þegar á hann hefur verið gengið um mörg vandamál sem borgin hefur staðið frammi fyrir hefur hann yfirleitt hrakist undan í flæmingi og vart getað skýrt málin. 
 
Síst af öllu hefur hann þó sýnt af sér hroka. Það má ef til vill færa honum til tekna. Það sem gjaldfært hefur verið á hann gerir það að verkum að hann kemur út í bullandi tapi.
 
Ef afhelgunin er í því fólgin að óhæft fólk kemst upp með að gera ekki neitt þá eigum við í afskaplega miklum vanda. Það er nefnilega sitthvað afhelgun og afhjúpun. Sko, keisarinn í ævintýrinu var einfaldlega ber, hvað svo sem allir sögðu.

 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband