Skítleg framkoma hjá Mótussi
11.12.2012 | 10:34
Vond fyrirtæki eru þau sem níðast á almenningi. Þau eru vond sem skýla sér á bak við óskýr lög. Þau eru vond sem ráðast á almenning og taka ekki tillit til aðstæðna.
Oft er erfitt að láta enda ná saman og við skiljum það mæta vel. Við gerum okkar besta til sinna okkar starfi á sanngjarnan hátt og með lágmarks kostnaði. Við leggjum mikla áherslu á jákvæð samskipti.
Svona elskulega tjáir sig innheimtufyrirtækið Mótus á heimasíðu sinni (leturbreytingar eru mínar). Ekki er samt allt sem sýnist og því er betra að rýna í textann. Takið eftir sjálfhverfunni. Takið einnig eftir að þarna er í raun engin vægð gefin þrátt fyrir að fallegum orðum hafi verið raðað saman í sennilegt samhengi.
Þeir fundu upp slagorðið Ekki gera ekki neitt, tvöföld neitun í einni setningu. Blíðlega fram sett en ekkert virðist vera á bak við það þegar til kastanna kemur.
Staðreyndin er sú að enginn munur virðist í raun vera á Mótussi og öðrum sem hafa tekjur af því að berja á fólki. Ofangreind tilvitnun inniheldur engar strokur. Hann er einungis áferðafallegri en þessi:
Okkur kemur það ekkert við þó erfitt sé að láta enda ná saman. Við rukkum kröfuna eins og okkur sýnist. Hins vegar er ekki verra ef skuldarinn þegi og borgi, það eru jákvæð samskipti.
Mótus sýnir hroka sinn með því að segja eitt en framkvæma annað. Þeir eru fljótir að svara bréfum, hafa þau stöðluð.
Hjá Mótussi er allt útspekúlerað. Fyrsta svar á alltaf að vera neikvætt. Annað svar á alltaf að vera neikvætt sem og það þriðja og fjórða. Hið eina sem á að bjóða eru afborganir af skuld. Það er góð aðferð til tekna því þá hlaðast upp vextir. Á gjaldfallnar skuldir er skellt innheimtukostnaði sem er fundinn út af lögfræðilegri nákvæmni og ekkert skorið af vegna þess að umhyggjan er ekki fyrir skuldaranum heldur skiptir rukkarinn öllu máli, skuldareigandinn minna.
Ég þekki dæmi um mann sem lenti í kjaftinum á svona hákörlum vegna þess að þeir svöruðu ekki bréfi um gjaldfrest. Ástæðan var sú að sá sem átti að svara bréfinu hafði forðað sér frá fyrirtækinu og komið sér í betra skjól. Það er skítleg að fela sig á bak við þetta.
Auðvitað ber skuldari ábyrgð á skuld sinni. Það er hins vegar auðvelt að áfellast skuldarann. Honum eru oft allar bjargir bannaðar og oft hvílir svo margt þungt á honum að hann hefur einfaldlega ekki nægilega yfirsýn, einblínir á að redda málum með peningum sem eru væntanlegir. Á meðan safnast kröfur saman. Það er ekki gott að vera atvinnulaus, þung reynsla fyrir hvern mann svo ekki bætist við að lenda í kjaftinum á innheimtuhákarlinum Mótussi.
Ég mæli ekki með Mótussi. Hvet þá sem eiga ógreiddar kröfur sem þarf að innheimta að skoða sín mál vel og vanda valið á rukkaranum og muna að skuldarar eru oft af holdi og blóði þó ekki sé víst að rukkarinn sé það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.