Steingrímur fer með staðlausa stafi
4.12.2012 | 18:04
Ég tel óhjákvæmilegt að ræða þá óvenjulegu og í raun þá fáheyrðu stöðu sem er uppi í stöðu þingsins hvað varðar aðra umræðu um fjárlagafrumvarp. Þessi umræða hefur nú staðið í þrjá heila daga, tæpar 30 klukkustundir að því er mér er sagt, og ég hygg að það sé án fordæma. Þetta er þeim mun undarlegra, sem þetta fjárlagafrumvarp er það langbesta og auðveldasta sem að Alþingi hefur haft á sínum borðum í fimm ár.
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnumálaráðherra, í umræðum á Alþingi í dag, 4. desember, um fjárlög ársins 2013, samkvæmt frétt í pressan.is. Og hann Steingrímur sparar hvorki upphrópanirnar né sjálfshól.
Þá kom Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í pontu og benti á eftirfarandi:
- Annarri umræðu um fjárlög ársins 2011 lauk 8. desember.
- Annarri umræðu um fjárlög ársins 2010 lauk 14. desember
- Annarri umræðu um fjárlög ársins 2009 lauk 15. desember.
Illugi benti auk þess á að árið 2008 hafi umræðan um fjárlögin fyrir árið 2009 staðið í yfir 20 klukkustundir og þá hafi Steingrímur J. Sigfússon, með 25 ára reynslu sem stjórnarandstöðuþingmaður, talað í tvær og hálfa klukkustund.
Og þarna var Steingrímur rasskeltur fyrir að fara með staðlausa stafi við að reyna setja upp landsföðurlegan svip. Í sannleika sagt er hann ekkert nema kj... , það tileinkaði hann sér sem stjórnarandstöðuþingmaður sem hann og verður hann næstu árin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður, þetta sýnir bara hversu grunnhygginn maðurinn hlýtur að vera að halda fram svona staðhæfingum sem hægt er að reka öfugar ofan í hann.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 19:22
Hann talar gegn betri vitund og gerir það vel, jafnvel afar vel. Fáir stjórnmálamenn eru svo vel máli farnir að þeir geti blygðunarlaust farið með staðlausa stafi. Man bara eftir Lúðvíki heitnum Jósefssyni, fyrrum þingmanni og ráðherra Alþýðubandalagsins. Sagt var að hann viki alvarlega frá sannleikanum þegar hann tæki niður gleraugun.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.12.2012 kl. 20:47
Ég sé nú ekki betur en að í klukkustundum talið sé umræðan þegar komin 50% fram úr umræðunnni um fjárlögin 2009, enn á að tala í kvöld og nótt og ekkert lát að sjá á þessu.
Hitt er rétt að Steingrímur skaut sig í tærnar hvað hann sjálfan snerti, en það breytir því ekki að heildarumfangið verður æ sérstæðara.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2012 kl. 22:32
Oftast er gagnrýni á lög frá Alþingi á þann veg að þau hafi ekki verið nægilega ígrunduð, fljótaskrift á þeim, þau ekki fengið nægilega umræðu og á þeim séu alvarlegir gallar sem oft þarf að fjarlægja með breytingatillögum. Aldrei hef ég heyrt að lög frá Alþingi séu gagnrýnd vegna þess að þau hafi fengið of mikla umræðu ... ;-)
Þegar Icesave samningarnir voru til umræðu var yfirleitt viðkvæðið hjá stjórnarþingmönnum að ekkert væri órætt um þau mál. Engu að síðar var það svo og mönnum lá mikið niðri fyrir. Þá var líka talað um málþóf.
Enn er nægur tími til stefnu. Skil ekki þingmeirihlutann sem er að fara á taugum þó annarri umræðu sé ekki lokið og það 4 til 11 dögum á undan umræðu síðustu ára.
Var til dæmis að hlusta rétt áðan á Pétur Blöndal með afskaplega áhugavert innlegg. Hann nefndi að aukning fjárveitinga til ýmissa verkefna væri vegna fjárveitinga frá ESB sem veitir milljarða króna hingað til lands vegna aðildarumsóknarinnar. Líklega er þetta gert til að liðka fyrir hjá almenningi hér á landi.
Steingrímur skiptir engu hér. Þetta er allt um virðingu Alþingis og stöðu mála í kreppunni. Þar af leiðandi ber þingmönnum að tjá sig eða rétt eins og einhver þingmaður orðaði það: Hvers vegna kjósa stjórnarþingmenn að sitja hjá við umræðuna?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.12.2012 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.