Lögbann krafist á Lýsingu

Hagsmunasamtök heimilanna eru á réttri leið. Þau láta ekki nægja einhverja orðræðu heldur vaða í dómstóla með mál sem þeim finnst þurfa úrskurðar við. Lögbannið gegn Lýsingu byggja þau á að að innheimta fyrirtækisins á gengistryggðum lánum sé ólögleg.

Þess er krafist að innheimta verði ekki leyfð að nýju fyrr en réttir og sannanlega lögmætir endurútreikningar liggja fyrir í samræmi við dóma Hæstaréttar (nr. 600/2011 og nr. 464/2012).

Í raun er það þannig að Lýsing telur dóma hæstaréttar ekki eiga við sig og þar af leiðandi heldur fyrirtækið sínu striki.

Niðurstöðu er að vænta næstu daga. Vonandi verður kröfunni ekki vísað frá á þeim grundvelli að Hagsmunasamtökin eigi ekki beinna hagsmuna að gæta, það er þau kæra ekki út af eigin láni.


mbl.is Lögbannskrafa á innheimtu Lýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég þori að veðja sýslumaður mun hafna lögbannskröfunni þar sem í lögum um kyrsetningu, lögbann o.fl. segir:

Lögbann verður ekki lagt við athöfn:
1. ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega;....

HH munu þurfa að leita til Héraðsdóms eftir að sýslumaður hefur kveðið upp sinn úrskurð til að fá lögbannið sett.  Vertu viss!

Erlingur Alfreð Jónsson, 4.12.2012 kl. 13:31

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sælir félagar.

Eins og Sigurður bendir réttilega á þá gengur þetta ekki upp á grundvelli einkaréttar, það er að segja hinna almennu lögbannslaga, þar sem HH eiga engra einkaréttarhagsmuna að gæta (eru sjálf ekki með lán eða nein viðskipti við Lýsingu).

Þess vegna er krafan ekki lögð fram á þeim grundvelli, heldur samkvæmt lögum nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. HH eru einmitt meðal þeirra stjórnvalda og samtaka sem innanríkisráðherra hefur tilnefnt á grundvelli þeirra laga til að fara með slíka heimild. Við höfum nú látið reyna á hana í tveimur dómsmálum. Í því fyrra var lögum breytt í þá veru að vörslusviptingar án dóms og laga stöðvuðust, svo málið var látið niður falla. Í seinna skiptið fór það alla leið til hæstaréttar, sem gerði sér lítið fyrir og staðfesti aðildarhæfi samtakanna þó hann féllist ekki á lögbannskröfuna sjálfa. Þetta fordæmi verður ekki aftur tekið og í málinu núna er nóg að vísa til þess dóms.

Það sem þarf hins vegar að hnekkja er ástæðan fyrir því að Hæstiréttur vildi ekki fallast á sambærilega kröfu gagnvart Landsbankanum  í fyrrnefnda málinu en sá hluti dómsins byggði einmitt á lagagreininni sem Erlingur vitnar til í almennu lögbannslögunum, sem er undarlegt, því þau eiga ekki við um skilyrði lögbanns á grundvelli laganna um heildarhagsmuni neytendaheldur aðeins um framkvæmd lögbanns á grundvelli slíks úrskurðar. Skilyrðin fyrir lögbanni til verndar heildarhagsmuna eru hinsvegar önnur, í fyrsta lagi að brotið sé gegn tilskipunum um neytendavernd (sem Lýsing gerir með því að senda út ranga innheimtuseðla) eða á hinn bóg þá getur líka verið nóg að slíkt brot sé yfirvofandi, en tilgangur þeirra tilskipunar sem lögin byggja á er einmitt að hindra brot gegn réttindum neytenda, sem eru ekki alltaf vel í stakk búnir til að gera það sjálfir á grundvelli einkaréttarhagsmuna. Málflutningurinn mun ganga út á að sannfæra dómarann um þetta.

Til þess að hafa vaðið fyrir neðan okkur verður hins vegar líka reynt að sýna fram á, að þrátt fyrir að sú túlkun verði ofan á að styðjast við 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um lögbann o.fl., að þá getur hún ekki átt við um Lýsingu með sama hætti og Landsbankann (NBI). Þó svo að NBI hafi talist gjaldfær og þannig mætti sækja skaðabætur síðar eftir að  búið er að endurreikna lánin, þá er staða Lýsingar allt önnur. Í stað 10-15% af útlánum NBI þá erum við að tala umnæstum 100% af útlánasafni Lýsingar sem er undirlagt þessari áhættu. Efnahagreikningar Lýsingar undanfarin fjögur ár sýna ákveðna sögu sem fer eingöngu niður á viðog er svo komið að það er eingöngu tugmilljarða framlögum úr þrotabúi Exista til félagsins að þakka, sem það er ennþá í rekstri. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar bendir allt til þess að niðurstaða þessa árs í reikningum félagsins sé sú að félagið sé með jákvætt eigið fé áður en að reiknuð sé niðurfærsla á lánin samkvæmt nýjustu dómum.

Hluti af málsgögnum í málinu er reiknilíkan sem framreiknar spá upp úr ársreikningum félagsins um áhrif hugsanlegrar niðurfærslu lána. Hún sýnir að Lýsing þolir ekki nema 15% niðurfærslu áður en eigið fé fer niður fyrir lögbundin mörk og 25% áður en það verður beinlínis neikvætt og allar tölur rauðar. Til samanburðar þá var niðurfærslan á láni Borgarbyggðar eftir dóm í því máli um 25% en það lán hafi áður verið endurreiknað eftir setningu laga nr. 151/2010. Bílalán eru til hámark 7 ára sem þýðir að öll lán sem tekin voru hjá Lýsingu fyrir hrun eru komin yfir helming lánstíma. Hafi verið greitt af slíku láni með tvöfaldan höfuðstól mestallan tímann er ljóst að búið er að borga nú þegar a.m.k. 25% of mikið miðað við grófa áætlun.

Þannig að ef menn telja ekki nóg að brot á lögum sé beinlínis yfirstandandi og hafi þegar valdið tjóni, til þess að leggja bann við því, þá er líka hægt að sýna fram á vegna þess að Lýsing er í raun gjaldþrota, að þá eru tjónþolar í verulegri hættu á að þeirra lögbundnu einkaréttarhagsmunir fari forgörðum, þegar þeir reyna að sækja sér skaðabætur eftir á og í ljós kemur að kassinn er galtómur. Þetta hefur nú þegar gerst í einu tilviki hér á landi, reyndar hjá Landsbankanum eða dótturfélagi hans Avant, sem var rekið á mjög svipaðan hátt og Lýsing að því er virðist. Það félag varð gjaldþrota og átti ekki einu sinni nóg fyrir endurkröfum vegna fyrri endurútreikninga, hvað þá þeirra síðari, og dæmi eru um viðskiptavini þar sem töpuðu milljónum sem þeir áttu inni hjá fyrirtækinu vegna ofgreiðslu.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.12.2012 kl. 16:38

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Löng ræða og góð, Guðmundur. Þó sigur vinnist á Lýsingu er hugsanlegt að fyrirtækið þoli ekki áfallið og fari hreinlega á hausinn. Vandinn er að þá er óvíst um endurgreiðslur á ofgreiddu á þeim lánum sem eru að fullu greidd eða nálægt því. Varðandi þau lán sem eru enn „lifandi“ myndi höfuðstóllinn lækka vegna ofgreiddra afborgana, það er þó skárra en ekkert. Við sem vorum hjá SP erum komnir í skjól Landsbankans, hins vegar held ég að þar séu öll mál að fullu kláruð.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.12.2012 kl. 17:00

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei þau er langt frá því að vera kláruð hjá SP.

Þar á enn eftir að gera bílasamningana upp á réttan hátt.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.12.2012 kl. 17:10

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þó ég styðji heilshugar þessa lögbannsbeiðni Guðmundur, og finnist eðlilegt að á hana sé fallist hagsmunanna vegna, efast ég bara um að sýslumaður muni fallast á hana og miða þar við eigin reynslu því ég reyndi þetta sama vorið 2010 vegna innheimtu (ekki vörslusviptingar) vegna bílasamnings SP.

Ég vona þó að Héraðsdómur muni fallast beiðni HH, en ég tel því miður víst að hún fari alla vega þangað, ef ekki lengra.  Lög nr. 141/2001 fjalla ekki um forsendur fyrir setningu lögbanns, heldur gefa m.a. hagsmunasamtökum þær heimildir að óska lögbanns  með heildarhagsmuni neytenda í huga eins og þú réttilega lýsir.  En í lögunum er vísað sérstaklega til þess að um lögbannsbeiðni o.fl. fari eftir almennum reglum og þær er að finna í lögum nr. 31/1990. Þar að auki hafa lög nr. 141/2001 það meginmarkmið að vernda neytendur í viðskiptum yfir landamæri á EES-svæðinu. Því er ekki til að dreifa hér þó það ætti ekki að útiloka aðkomu HH sem slíka.

Hvað varðar brot Lýsingar á tilskipunum EB held ég að slíkur rökstuðningur eigi ekki við hér. Ég tel að tilskipanir EB hafi einar og sér ekkert gildi í samskiptum aðila í millum. Þær beinast að stjórnvöldum hvers lands sem ber að færa efni þeirra í landslög með formlegum hætti. Fyrr gefa þær einstökum aðilum varla neinn rétt né skapa honum skyldu. Fyrirtæki eins og Lýsing eða SP/Landsbankinn geta því ekki að mínu mati talist hafa brotið gegn tilskipunum EB, heldur aðeins landslögum.  Það eru ríkin sjálf, þ.e. stjórnvöld, sem brjóta gegn tilskipununum með því að leiða þær ekki í landslög, eða framfylgja slíkum rétti hafi hann verið rétt innleiddur í innlendan rétt.

Ef þetta er grunnurinn fyrir beiðni HH held ég að ekki verði erindi sem erfiði, á hvaða dómstigi sem er, og er þá betra heima setið en af stað farið.  Hef þó ekki kynnt mér þetta sérstaklega.  Tel betra að HH byggi kröfuna á broti gegn landslögum.

Hvað stöðuna vegna SP er það rétt sem Guðmundur segir; þar á eftir að gera upp bílasamningana og líklega bílalánin.  Landsbankinn mun ekkert gera fyrr en dómur hefur fallið í einhverju slíku máli.  Fór þangað í síðustu viku og hef þetta eftir starfsmanni á bílafjármögnunarsviði sem tók við stjórnun þess, alla vega tímabundið,  eftir að Kjartan Georg hvarf á braut. Sú manneskja starfaði áður hjá SP.  Ég hef óskað eftir fundi með lögfræðingum bankans til að þeir útskýri og bendi á heimildir í mínum samningi sem leyfa að heildarlántökukostnaður samningsins megi breytast. Það verður sjálfsagt þrautinni þyngri að fá þann fund.

PS: Ég fór ekki dómstólaleiðina í minni beiðni vegna þess hve stutt var í dóm Hæstaréttar í máli 92/2010 á þeim tíma.

Erlingur Alfreð Jónsson, 4.12.2012 kl. 19:34

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Tel betra að HH byggi kröfuna á broti gegn landslögum.

Það er nákvæmlega málið. Í landslögum (nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda ntt. 1.gr.) eru einmitt taldar upp þær tilskipanir, eins og þær hafa verið innleiddar í íslensk lög, sem þarf að vera brotið gegn svo heimild til að leita lögbanns eigi við.

Þetta er einmitt allt saman byggt á landslögum og brotum gegn þeim!

Varðandi að þetta eigi ekki við nema þvert á landamæri, þá skrifaði ég sérstaka greinargerð til að afsanna það, sem varð einmitt til þess að hæstiréttur féllst á það í máli nr. 636/2012 að það skipti engu máli hvort þetta væri innalands eða utanlands eða hvaðeina. Þannig var skapað dómafordæmi um að HH hafa fulla heimild til að höfða slíkt mál hér innanlands gegn innlendum aðilum, jafnt sem erlendum í öðrum ríkum.

Erlingur. Takk fyrir að hjálpa mér í rauninni að sanna mál mitt.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.12.2012 kl. 03:38

7 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég ætlaði ekki að hrekja neitt af því sem þú sagðir og er ekki í grunninn ósammála því sem HH er að gera.   En í setningunni sem þú vísar til átti ég bara við að mér finndist eðlilegra að segja í kröfunni að Lýsing hefði brotið gegn þessari og hinni innlendu lagagreininni en ekki einhverjum tilskipun EB. En það getur vel verið að leið HH gangi upp og ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið rætt við lögfræðing við undirbúning málsins.  Gangi ykkur alla vega vel.  Vona svo sannarlega að þið hafið erindi sem erfiði við að stöðva framferði þessa fyrirtækis.

Erlingur Alfreð Jónsson, 5.12.2012 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband