Illvirkin á veginum inn í Bása og Þórsmörk
29.11.2012 | 00:04
Vaxandi umferð einkabíla, fólksflutningabíla svo ekki sé talað um flutningabíla hefur farið illa með vegina. Fjallvegirnir spænast upp og grafast niður og verða fljótt ófærir vegna vatnselgs eða forar. Á vorin opnast þeir ekki fyrr en seint og um síðir og þeir lokast óþarflega fljótt vegna þess að snjór safnast í þá þótt umhverfið sé nær snjólaust. Og hvað gera þá ökumenn? Jú, eins og göngumennirnir krækja þeir fyrir verstu pyttina, aka út fyrir eins og það er kallað. Að lokum verður landið umhverfis roföflunum að bráð.
Ofangreint er úr grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 10. maí 2004. Tilefnið var grein sem Árni Jóhannsson, þáverandi formaður Útivistar, ritaði í blaðið um mánuði fyrr. Í henni ræddi hann um breytingar sem verið var að gera á veginum inn í Þórsmörk. Útivist hafði ekki óskað eftir þessum breytingum, að sögn Árna.
Árni segir í grein sinni:
Hverjum er svona mikið í mun um að eyðileggja þá upplifun sem felst í því að aka yfir óbrúaðar ár og njóta sæluvistar í paradís að leiðarlokum? Ekki veit ég svarið en þegar þessi ósköp hófust reyndi ég að grafast fyrir um það án árangurs. Ég hafði samband við aðra rekstraraðila, Vegagerðina og þingmenn, en allt kom fyrir ekki - enginn kannaðist við glæpinn. Hins vegar var staðan sú að á Vegaáætlun hafði verið úthlutað 50 milljónum til framkvæmda á þessum vegi og ekki er í mannlegu valdi að stöðva eða breyta því fjárstreymi.
Daginn eftir var vitnað í grein Árna í leiðara Morgunblaðsins og þar segir: Morgunblaðið tekur undir hvert orð í grein Árna Jóhannssonar, formanns Útivistar.
Nokkru áður hafði Árni Alfreðsson, líffræðingur og áhugamaður um útiveru, ritað grein í Morgunblaðið um lagfæringar á veginum inn í Þórsmörk. Hann sagði í grein sinni:
Hverjum er svona mikið í mun að eyðileggja þetta ævintýri sem Merkurferðir hafa hingað til þótt? Hverjir hafa slíkra hagsmuna að gæta að "ríkið" ætlar að eyða tugum eða hundruðum milljóna í veg sem án efa verður mjög viðhaldsfrekur og dýr. Það er deginum ljósara að það eru aðilar í ferðaþjónustunni sem knýja á um þessa aðgerð. Eðlilega berast böndin að þeim aðilum sem hafa svokallað húsbóndavald í Þórsmörk; Ferðafélaginu, Útivist og Austurleið-SBS eða öðrum sem hafa tekjur af Mörkinni á einn eða annan hátt.
Vegagerðin segir að í "bili" hafi verið ákveðið að leggja veginn "aðeins" inn að Jökullóni. Vegur inn að Jökullóni er nánast alla leið inn á Þórsmörk. Hvort sem smáspotti verður skilinn eftir í "bili" eða ekki þá er hér um að ræða miklar landskemmdir sem eðlilega fylgja upphækkuðum vegi í tiltölulega ósnortnu umhverfi auk þess að eyðileggja áðurnefndan ævintýrablæ. Þegar slíkur vegur, innan tíðar með slitlagi, er kominn nánast alla leið hlýtur það einungis að vera tímaspursmál hvenær hann er kláraður.
Nú eru liðin átta ár frá því að þessar þrjár greinar og leiðari voru ritaðar og enn hamrar Árni Alfreðsson járnið þó það sé langt í frá heitt. Hann ritar í dag grein í Fréttablaðið um málið og segir:
En nú eru blikur á lofti. Jarðýtur og gröfur eru farnar að vinna í gilkjafti Hvannár með risaræsi og fyrirhleðslugrjót. Mér er spurn. Hver þrýstir á að Hvanná sé brúuð? Engin leyfi eru þarna fyrir hendi enda telur verktakinn engin leyfi þurfa þar sem framkvæmdin sé ekki "svo stór" í sniðum. Með sömu rökum má brúa allar ár og læki á leiðinni inn í Þórsmörk í áföngum án nokkurra leyfa. Sem er sennilega ætlunin. Ef þessi ráðagerð verður að veruleika þá verður lítill sjarmi af Merkurferð í framtíðinni. Og Þórsmörkin breytist sjálfkrafaí sjoppuvædda rútubílamiðstöð líkt og Gullfoss og Geysir.
Í dag hefur svæðið ákveðna sérstöðu sem margir sækja í, Íslendingar sem og útlendir ferðamenn. Þrátt fyrir að aðgengi að svæðinu sé takmarkað vegna náttúrulegra aðstæðna (óbrúaðar ár) þá er ágangur ferðamanna það mikill að víða sjást þess ljót merki. Er virkilega þörf á ótakmörkuðu aðgengi og þar með margfalt meiri átroðningi?
Það stendur enn sem ég sagði 2004 og endurtek í upphafi þessa pistils að fjallvegir verða aldrei fornminjar. Umferð bíla slítur þeim og eyðir og gera þarf við þá. Hins vegar flögraði aldrei að mér að til stæði að fara í slíkar framkvæmdir er farið hefur verið í síðustu árin. Eitthvað má nú á milli vera þess sjónarmiðs sem ég stóð fyrir og þeirra þriggja sem ég hef hér vitnað í. Í raun erum við fyllilega sammála.
Miskunnarlaust hafa jarðýtur verið settar á torleiði á veginum inn í Þórsmörk. rör hafa verið sett undir veginn innan við Merkurbæi og þar eru ekki lækir lengur til trafala.
Rutt hefur verið úr Akastaðaánni og er hún slíkur aumingi að Toyota Jaris gæti farið yfir hana.
Fyrir innan Langanes hefur verið hlaðinn mikill garður og gerð hraðbraut með ræsum inn að Jökulsá.
Steinsholtsá var einu sinni mikill farartálmi vegna þess að þröskuldur var í henni skammt neðan við vaðið. Þar safnaðist oft mikið vatn og var þá mjög erfitt að aka yfir hana. Ég man oft eftir því að pallbíll sem ég ók lyftist að aftan og við lá að hann snérist þó maður æki skáhalt yfir skaðræðið. Sá tími er liðinn, jarðýtan ruddi fyrirstöðunni úr ánni og nú er hún vesöl og ómerkileg.
Sama var með lækinn úr Stakkholtsgjánni. Hann bar með sér möl, gróf sig niður æði oft. Nú hefur jarðýtan farið í hann og rutt niður bökkunum beggja vegna og opnað fyrir læknum þar fyrir neðan. Nú er Jarisfært yfir.
Með hlíðinni inn að Stakk var stundum mikið vatn, þar vildi oft vatn flæða yfir veginn í vatnavöxtum. Þegar fór að frjósa mynduðust þarna krapaskarir sem voru erfiðar yfirferðar. Nú eru þarna eitt eða tvö ræsi og enginn tók eftir því er þeim var komið fyrir.
Hvanná var alltaf yndislegt skaðræði. Flæmdist um frá Álfakirkju við Réttarfell að Stakk og jafnvel lengra. Stundum gróf hún sig og var djúp og erfið í einni bunu, en svo breytti hún sér og var ekkert nema blíðan, lak í ótal sprænum. Ummerkin um hamfarir Hvannár eru greinileg. Aurkeilan frá Hvannárgili er kúpt, hæst í miðið en lækkar til beggja hliða. Nú er verið að gelda Hvanná og er það gert með því að setja hana í ræsi uppi við Gunnufuð eða þar sem næst.
Básalækurinn kemur úr Básum og rennur vestan undir Réttarfelli og fer út í Krossá við Álfakirkju. Skammt frá henni er ræsi og er þessi ljúfi lækur sem í umhleypingum minnir ótæpilega á sig orðin að bölvaðri druslu sem Jaris fer létt með.
Krossá er enn mikið vandamál. Gera má ráð fyrir að yfir hana verði sett hengibrú á tveimur stöðum, við Langadal og einnig við endann á Merkurrana. Nema auðvitað að gerð verði göng undir hana.
Aldrei flögraði það að mér að Vegagerðin myndi gera neitt annað en að sinna eðlilegu viðhaldi á veginum inn í Þórsmörk og Goðaland. En að hún stæði fyrir illvirkjum á þessu svæði er ótrúlegt. Ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að taka fram fyrir hendurnar á Vegagerðinni þá er það núna.
Nú þurfa Árni Jóhannsson, Árni Alfreðsson og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins að taka á honum stóra sínum. Ég skal aðstoða ef leggjast þarf á járnkallinn.
Þetta gengur ekki lengur. Eða með orðum Árna Alfreðssonar:
Ef þessi ráðagerð verður að veruleika þá verður lítill sjarmi af Merkurferð í framtíðinni. Og Þórsmörkin breytist sjálfkrafa í sjoppuvædda rútubílamiðstöð líkt og Gullfoss og Geysir.
Myndir:
Efsta myndin er tekin innan við Langanes þar sem hefur verið gerður vatnargarður til að hafa heimil á Markarfljóti.
Næsta mynd er af Jóhannesi, bjargi á Steinsholti. Þar vætlar nú Steinsholtsáin í kringum hann.
Rúta á leið frá Langanesi á tíunda áratug síðustu aldar
Vegurinn frá Stakkholtsgjá. Í fjarska sést Réttarfell og lengst til vinstri er Stakkur. Þarna má greina lækjarsprænu sem kemur úr ræsi undir veginum.
Fyrir gosið í Eyjafjallajökli var oft mikið ævintýri að komast yfir útfallið úr Lóninu. Nú er það allt breytt og þurfti ekki Vegagerðina til.
Síðasta myndin er af bíl í Hvanná.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.