Hressandi að hitta Ómar Ragnarsson
23.11.2012 | 14:06
Stundum er skammt á milli önugheita og gleði. Því kynntist ég í morgun. Hitti að máli bólstrara í Kópavogi út af hægindastól sem skemmdist í flutningum fyrr á árinu, leðurlíkið er að flagna af. Ekkert er við því að gera, sagði fagmaðurinn. Settu bara teppi á stólinn.
Ég ók fúll heimleiðis, lenti í því að tveir bílar svínuðu illilega fyrr mig og varð enn fúlli. Í bakaríinu var biðröð og það kemur stundum fyrir að maður er síðastur og svo bætist enginn við og þá er magnast fýlan. Og með brauðið í hendinni hraðaði ég mér fúll út úr bakaríkinu, rekst næstum því á konu sem ég þó gef ekki neinn gaum í önugheitum mínum. Þá heyri ég að hún segir ofurlágt en skýrt:
Ég kaus þig nú, Sigurður.
Ég snarstoppa og lít í kringum mig og síðan á konuna. Sá þá skyndilega að þetta var hún Helga Jóhannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað heilsaði ég henni með virktum og skammaðist mín um leið að hafa ekki tekið eftir henni.
Og ég spyr hana hvort hún sé enn í Sjálfstæðisflokknum því maðurinn hennar fór yfir til Samfylkingarinnar fyrir nokkrum árum. Já, hún hélt nú það.
Ég fer nú ekki að yfirgefa minn gamla flokk, sagði hún með áherslu. Við gengum saman út úr húsinu og þar á bílastæðinu var eiginmaðurinn, Ómar Ragnarsson og beið eftir Helgu sinni.
Það er alveg met hvernig Ómar tekur á móti fólki. Hann veifaði báðum höndum og hóaði eins og jólasveinn:
Þarna ertu, ég las bloggið þitt í gær og þú hafðir alveg rétt fyrir þér. Ég er búinn að skrifa blogg um þetta sama. Og svo sagði hann mér frá hremmingum sínum á Kanaríeyjum og drukknum eldri borgurum sem sumir geta aldrei haft hóf á drykku sinni eða sýnt neina kurteisi.
Ég hélt að þú ætlaðir að nefna við mig bloggið mitt um greinina þína um Eldvörpin við Grindavík sem þú birtir í Fréttablaðinu í gær, sagði ég. En Ómar hafði ekki séð hana og við ræddum stuttlega um þau hryðjuverk sem þar eru í uppsiglingu.
Þegar við kvöddumst hvatti hann mig til að standa mig í grænu málunum. Um daginn kallaði hann mig kjarkmann að leggja áherslu á umhverfis- og náttúruverndarmál í prófkjöri í Sjálfstæðisflokknum. Hann átti líklega við að allur flokkurinn myndi sparka mér út í hafshauga fyrir vikið.
Ég er nú ekki á þeirri skoðun. Fái ég ekki gott gengi í prófkjörinu á morgun þá verður það áreiðanlega ekki þess vegna. Fæ ekki annað séð en að allir sem ég tala við séu sammála áherslum mínum í þessum efnum. Tímarnir eru að breytast og nýjar kynslóðir eru komnar sem ferðast um landið, njóta þess og taka ástfóstri við það, eins og ég hef svo oft sagt. Við þurfum ganga varlega um landið.
Mikið afskaplega leið mér nú vel eftir að hafa hitt Ómar. Hann er mannbætandi. Eða eins og sagt var um Ópal; bætir, hressir og kætir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Facebook
Athugasemdir
Ég vil nú benda þér á ágæti fyrrum farastjóri, að grein eins og þú skrifaðir í ofstæki þínu og braust í leiðinni eðlilegan trúnað við það fólk sem þú átt að sinna með alúð og bros á vör, var ótrúlega rætin og þér til mikillar minnkunar. - Ég geri ráð fyrir, og vona í leiðinni, að sem flestir og þá helst fólkið sem þú ræðst á með rætni þinni, ofskopa og fanatík - sjái nú til þess að þú fáir ekki framgang í framapoti þínu. - Manni eins og þér er ekki hægt að treysta og myndi ég umsvifalaust reka þig ef þú ynnir hjá mér.
Leiðinlegt var að sjá á bloggi Ómars að hann tók nánast í sama streng og þú, því miður, en það gerir fanatíkin. Hún er meingalli á mönnum.
Már Elíson, 23.11.2012 kl. 14:40
Þakka þér fyrir innlitið, Már.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.11.2012 kl. 14:43
Már Elíson, er ofstækið ekki pínulítið þín megin í athugasemd þinni? Úr grein Sigurðar las ég þá sorglegu staðreynd; að oft á tíðum eru eldri borgarar ekkert betri en unga fólkið sem þeir sem eldri eru gagnrýna þó oft á tíðum. Ekki nafngreindi Sigurður nokkurn mann í grein sinni, þannig á engan er hallað.
Ég vona að Sigurður eigi sér bjarta framtíð í pólitíkinni, allavega á hann mitt atkvæði víst.
Sigríður Jósefsdóttir, 23.11.2012 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.