Katla gýs 28. desember kl. 12.43
20.11.2012 | 14:51
Af Mýrdalsjökli er tíðindalaust. Ekkert bólar á gosi þó Katla gamla sé gengin langt yfir allt meðaltal og ætti að óbreyttu að hafa fyrir löngu misst vatnið.
Það er aldeilis ótrúlegt því allt frá því Eyjafjallajökull hóstaði hafa forspáir menn og konur, fólk með skyggnigáfu, þeir sem kunna með galdraspil að fara, sem og liðið sem gáir í garnir og innmat sauðfjár haldið því fram að Katla væri í þann veginn að fara að gjósa.
Sjálfmenntaðir jarðfræðingar hafa bendir á að auðveldast væri fyrir Mýrdalsjökul að gjósa á haustin en þá væri hann léttastur, jökulfargið minnst ...
Og spekin var svo mikil fyrir ári er jarðskjálftar voru tíðir í Mýrdalsjökli að gripið var til orðspeki forsætisráðherra sem hélt því oft fram að hennar tími væri kominn.
Hérna er jarðskjálftayfirlit Veðurstofunnar kl. 14:15 í dag. Ekkert að gerast nema þarna vestur af Goðabungu, í rótum Tungnakvíslajökuls. Aldrei bregst að þar eru jarðskjálftar þó allt sé með kyrrum kjörum annars staðar.
Lesendur muna ef til vill eftir þeim draumspaka sem ég hef oft minnst á og hefur leiðbeint mér af og til. Sá hefur verið heldur hljóður upp á síðkastið.
Þó sendi hann mér í morgun óhugnanlega nákvæm skilaboðum að Katla myndi gjósa 28. desember kl. 12:43, taldi víst að þetta ætti að vera í desember en ekki nóvember. Hann heldur því jafnframt fram að engir mannskaðar verði og ekkert tjón verði á mannvirkjum að öðru leyti en að spýturnar yfir Múlakvísl munu skolast suður í Atlantshafið.
Þetta sel ég ekki dýrar en ég keypti, bendi bara á að ártalið vantar. Minni þó á að aldrei hefur neitt ræst sem þessi draumspaki maður hefur sagt. Sel ég því þessar fréttir ekki dýrari en ég keypti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er hann í flokki með Steingrími J eða Jóhönnu Sigurðard..
Vilhjálmur Stefánsson, 20.11.2012 kl. 15:25
Skil þig, Vilhjálmur. Eru þau ekki annars í sama flokki?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.11.2012 kl. 15:28
Ég man vel eftir "úlfur", úlfur" ástandinu sem skapaðist við Eyjafjallajökul fyrir þrettán árum. Viðbúnaðaráætlun var gerð og haldnir fundir með fólkinu. Siðan liðu árin og enda þótt ýmsar vísbendingar um hugsanlegt gos sæust áfram, minnkaði "úlfur, úlfur" ástandið sem von var, það kom enginn úlfur.
Svo kom hann allt í einu og nær öllum á óvart.
Ómar Ragnarsson, 20.11.2012 kl. 16:52
Ég er opin fyrir öllu svona, svo er bara að bíða og sjá hvað gerist. Þetta er bara skemmtileg viðbót við lífið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.11.2012 kl. 23:01
Ég var einmitt að benda á það á Facebook eftir lestur þessarar fréttar (http://www.visir.is/heimsendir-21.-mai-2011-/article/2011110329105) 27. mars 2011 að þann 21. maí 2011 myndi heimsendir ná til Íslands samkvæmt útreikningum Harold Camping, þá meira í gríni en alvöru.
Föstudagskvöldið fyrir gos vorum við að velta því fyrir okkur á Facebook hvort Harold miðað við rétta klukku á Íslandi eða GMT sem er notað hér, þ.e. hvort hamfarirnar ættu að byrja 17:00 eða 18:00. Það var mikið fjallað um þessa tímasetningu á hinum og þessum spádómssíðum á Internetinu (sem maður las sér bara til skemmtunar).
Ég var svo í bíl með vini mínum nokkrar mínútur í sex næsta laugardag (21. maí 2011) og ég sagði við hann að samkvæmt útreikningum þá yrði heimsendir eftir nokkrar mínútur sem myndi byrja á náttúruhamförum hér á landi.
Fáeinum mínútum síðar kom öflugt sprengigos í Grímsvötnum. Manni varð pínu brugðið og ekki síst félaga mínum sem brá ennþá meira.
Sumarliði Einar Daðason, 20.11.2012 kl. 23:06
Ég gleymdi víst að taka fram hér að ofan, að þetta er allt til í tímamerktum bloggfærslum, ásamt kommentum frá hinum og þessum, á serverum hjá Facabook sem erfitt er að falsa.
Sumarliði Einar Daðason, 20.11.2012 kl. 23:08
Tek undir með Ómari. Hættulegt er að taka ekki mark á vísindamönnum. Þeir tala að vísu yfirleitt varlega, en engu að síður, tökum mark á þeim. Draumspakir menn koma ekki í staðinn, allra síst sá sem ég vitna stundum til ...
Ég vona að þú eigir frekar við bloggið mitt en ekki eldgosin, Ásthildur, kæra vinkona ;-). Helst vildi ég að þau verði sem fæst.
Einstaklega skemmtileg saga, Sumarliði. Get alveg ímyndað mér upplitið á ykkur félögunum við fréttirnar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.11.2012 kl. 23:35
Ég trúi því sem stendur í Landnámu að Hafur-Björn (Moldargnúpsson) og fyrsti þingmaður Grindvíkinga, hafi verið fengsæll því landvættir hafi fylgt honum til róðra. Flestir trúa í dag á Hafrannsóknarstofnun og ég reyni að sýna þeirri trú umburðalyndi og samúð.
Sigurður Þórðarson, 21.11.2012 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.