Meira en 3244 pistlar á sex árum

Síðustu vikur hafa nokkrir þungavigtarmenn og -konur gefið kost á sér í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þá vísa smáfuglarnir ekki til fólks sem hefur velgst [velkst] um innan flokksins árum saman og lítið lagt til málanna heldur þá sem hafa tekið baráttu fyrir frelsi einstaklinga og atvinnulífs föstum tökum.

Sigríður Á. Andersen gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Smáfuglarnir nefna til dæmis Óla Björn Kárason, Sigríði Andersen og Brynjar Níelsson. Hver þessara einstaklinga hefur lagt mikið á sig í gegnum árin til að stuðla að auknu frelsi og minni ríkisafskiptum. Þetta eru einstaklingar sem hafa tekið mikið á sig persónulega og þurft að þola linnulausar árásir vinstrimanna þegar það hefur sagt skoðanir sínar í fjölmiðlum.

Ofangreind tilvitnun er af vefnum amx.is sem ég hef nokkrum sinnum vitnað í hér á þessum vettvangi, flestum lesendum mínum án efa til ánægju. 

Ég er fyllilega sammála því að það skorti nokkuð upp á að frambjóðendur í prófkjörum hafi kynnt sig skýrt svona pólitískt séð. Þó er ég vissum að flestir frambjóðenda myndu sóma sér vel á þingi. Mér finnst þess vegna lítil ástæða til að hnjóða í fólk með þessum hætti jafnvel þó amx.is vilji reka áróður fyrir Óla Birni, Sigríði og Brynjari Níelssyni.  

Ég þekki Óla Björn ágætlega og styð hann eindregið, hann er málefnalega sterkur frambjóðandi. Brynjar þekki ég vel. Hann er gamall nágranni minn og raunar eru bræður hans, Guðlaugur og Gústaf æskuvinir mínir, sá fyrrnefndi sem er jafnaldri minn. Sigríði þekki ég ekki persónulega en hún er ein af útgefendum Vefþjóðviljans, einum þeim besta stjórnmálavef sem ég þekki.

Ég er einn af nítján frambjóðendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mér telst þó til að á undanförnum sex árum hafi ég ritað um 3.244 pistla hér á Moggabloggið, og er þá þessi meðtalinn. Í þeim hef ég meðal annars lagt mikla áherslu á frelsi einstaklingsins, uppbyggingu atvinnulífsins, gagnrýnt núverandi ríkisstjórn, barist gegn aðildinni að ESB og raunar fagnað því sem vel er gert og gagnrýnt annað. Ég skrifa um margt fleira. Ég ann landi mínu, ferðast um það og hef birt frásagnir og myndir frá forvitnilegum stöðum. Gaman hefur verið að finna fyrir áhuga á slíkum pistlum.

Það gleður hjarta mitt að fólk vilji lesa pistlana mína. Tölfræðin lýgur ekki og samkvæmt yfirliti Moggabloggsins hafa rúmlega 3.000 manns lesið þá í hverjum mánuði að undanförnu og þeim fer fjögandi.   Þetta þýðir um 17 þúsund flettingar, svo gripið sé til annars mælikvarða.

Síst af öllu er ég skoðanalaus og ég er óragur við að tjá þær. Það kunna áreiðanlega margir að meta og þess vegna hvet ég þá til að leggja mér lið í prófkjörsbaráttunni.

Gaman væri að geta sannað að frambjóðandi þurfi ekki endilega að njóta velþóknun þeirra sem vinna að pólitískri skoðanamyndun til að ná árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband