Með hótunum býður Starf ehf. persónulega þjónustu

Eitthvað hafði skátinn misskilið boðskapinn. Honum hafði verið sagt að gera eitt góðverk á dag og af takmörkuðum skilningi sínum dró hann gömlu konuna yfir götuna þó svo að hún hefði verið á allt annarri leið.
 
Þetta datt mér í hug þegar ég fór að kynna mér starfsemi fyrirtækis sem nefnist Starf ehf. Það er í aumingjagæskubransanum, fær miklar fjárhæðir frá Atvinnuleysistryggingasjóði til að vera gott við atvinnulausa. Auglýsir sig með gylliboðum, lofar „persónulegri þjónustu“ og „við þjónustum þig“. Gæskunni lýkur þó fljótlega fyrir hinn atvinnulausa þegar svipan fer á loft.
 
Þvingunin
Með þvingunum er fólk skikkað á fjögurra daga námskeið til að læra að gera ferilskrá, fylla út umsóknir, senda umsóknarbréf, rata um netsíður sem bjóða upp á störf og fleira. Eflaust er þetta afar gagnlegt fyrir fjölmarga en bara ekki alla. Fjöldi fólks kann þetta og sinnir þessu daglega eða að minnsta kosti á reglubundnum fresti.
 
Persónuleg þjónusta Starfs ehf. er engu að síður svo ópersónuleg að fyrirtækið gerir öllum skylt að sækja svona námskeið. Öllum óskum, beiðnum eða mótmælum um að fá að sleppa við námskeiðið er umsvifalaust hafnað og viðurlögin eru þau að svipta viðkomandi atvinnuleysisbótunum, að hluta eða öllu leyti.
 
Svipunni sveiflað
Kona nokkur var skikkuð á námskeiðið en gat ekki mætt fyrsta daginn vegna þess að þann dag var vetrarfrí í skólanum hjá tveimur ungum börnum hennar og hún þurfti að sinna þeim heima. Hefði konan ekki verið atvinnulaus hefði hún áreiðanlega fengið frí í vinnunni eða að minnsta kosti getað tekið út orlofsdag til þess arna.
 
Hjá Starfi ehf. var brugðist ókvæða við, í svipunni hvein og henni var hótað bótamissi. Konan lét sig ekki heldur fór í velferðarráðuneytið sem vísaði henni á Vinnumálastofnun og þar loksins fékk hún frí fyrsta dag námskeiðsins. Ekki missti hún þó af neinu enda hafði hún enga þörf á námskeiðinu.
 
Hótun skapar hlýðni
Aðferðafræði Starfs ehf. er um margt gagnrýnisverð. Það gengur ekki að þvinga fullorðið fólk, án tillits til menntunar, þekkingar og reynslu, til að mæta á námskeið sem það hefur ekkert gagn af. Þar með er ekki tekið tillit til þarfa eða óska einstaklingsins heldur gert ráð fyrir að aðstæður allra séu hinar sömu. Þetta er algjörlega óviðunandi og í raun svo vitlaust að ekki tekur nokkru tali.
 
Atvinnuleysi er böl. Hins vegar er ekki á það bætandi þegar sá atvinnulausi er tuskaður til og starf hans, skoðun og verk eru dregin í efa og honum gert að haga sér á allt annan hátt en skynsemi hans segir.
Fjöldi fólks kvartar undan Starfi ehf., yfirleitt er það vegna þess að því er ofboðið. Fæstir þora hins vegar að koma fram opinberlega vegna ótta við að verða á einhvern hátt refsað.
 
Starf ehf. á að vera fyrir atvinnulausa en virðist þess í stað vera til fyrir sjálft sig í aumingjagæskubransanum þar sem litið er niður á atvinnulausa, talað til þeirra með hroka og litið fram hjá sjálfstæði einstaklingsins og skynsemi hans.
 
Svo hjápar alltaf í viðskiptum að komast í þá stöðu að gera öðrum tilboð „sem þeir geta ekki hafnað“.
 
[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember sl.]

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er fræg sagan af Vestfjörðum. Þar var atvinnulaust fólk á Þingeyri skipað til að sækja námskeið á vegum vinnumálastofnunar. Námskeiðin fóru fram þrjá daga vikunnar, fjóra tíma á dag. Námskeiðisstaðurinn var Ísafjörður!

Þessu fólki var gerð grein fyrir því að ef það ekki sækti þessi námskeið, mætti það búasrt við að verða svift bótum.

Að keyra langan veg til að sækja fjögurratíma námskeið, þrjá daga vikunnar, er óhugsandi fyrir þann sem þarf að lifa af atvinnuleysisbótum. Þá er betra að vera án bóta!

Gunnar Heiðarsson, 2.11.2012 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband