Ég styð Óla Björn í suðvesturkjördæmi
31.10.2012 | 10:43
Nú þegar innan við eitt ár er í alþingiskosningar verður Sjálfstæðisflokkurinn að taka upp hanskann fyrir atvinnulífið - ekki fyrir stóru öflugu fyrirtækin - heldur fyrir þau litlu og meðalstóru. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná árangri í komandi kosningum og fá umboð til að leiða næstu ríkisstjórn, verður flokkurinn að endurnýja trúnaðarsambandið við þá sem eiga það sameiginlegt að veita þúsundum atvinnu með því að leggja allt sitt undir og hafa rekið fyrirtæki sín af skynsemi. Allt annað gengur gegn hugsjónum Sjálfstæðisflokksins.
Þannig skrifaði Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í sumar og ritstjóri t24.is. Undir þetta hljóta allir að taka, ekki síst þeir sem eru í framboði í pófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna Alþingiskosninganna næsta vor. Óli Björn er í framboði í prófkjörinu í suðvesturkjördæmi en það verður laugardaginn 10. nóvember.
Nú er komin úr bókin Manifesto hægri manns eftir Óla Björn. Ég er ekki búinn að kaupa mér hana, mun gera það, en man eftir grein með sama nafni sem Óli Björn birti í Mogganum og á heimasíðu sinni fyrr á þessu ári. Afskaplega vel skrifuð og hvetjandi.
Ég styð Óla Björn rétt eins og ég studdi hann í prófkjörinu 2009 þó svo að ég sé ekki búsettur í kjördæminu og því hvet ég alla sem þar hafa kosningarétt að tryggja honum brautargengi.
Þá benti ég á hið augljósa og geri enn. Munurinn á Óla Birni og mörgum öðrum góðum mönnum er að hann hefur hugmyndir og tillögur til úrbóta. Hann er frumkvöðull en ekki sporgöngumaður, með fullri virðingu fyrir þeim síðarnefndu.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf núna á því að halda að almennir flokksmenn standi upp og taki yfir. Nauðsynlegt er að nýtt fólk taki sæti á þingi fyrir flokkinn, fólkið sem hingað til hefur setið tiltölulega hljótt hjá. Tími þess er kominn ef svo má segja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.