Stjórnarskrá á að setja í sátt við þjóðina
19.10.2012 | 13:56
Hún nefnist opinberlega „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ og sagt er í bæklingnum sem dreift var inn á hvert heimili að niðurstöðurnar séu „ekki lagalega bindandi fyrir Alþingi“. Hvort tveggja þurfum við að muna.
Hér er ekki um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu á borð við Icesave. Það er einnig alvarleg hagræðing á sannleikanum sem fram kemur í leiðara Fréttablaðsins í dag:
Nei við fyrstu spurningunni þýðir að stjórnarskrármálið er sent aftur á upphafsreit, eða aftur fyrir upphafsreit; vinna stjórnlagaráðs sett til hliðar og endursamning nýrrar stjórnarskrár send inn í óráðna framtíð og að öllum líkindum í sama eða svipaðan farveg og verið hefur mörg undanfarin ár.
Þetta er andstyggilega sagt og beinist eingöngu að koma því inn hjá lesendum að stjórnarskráin hafi verið óbreytt frá 1944. Það er rangt. Henni hefur ótal sinnum verið breytt þó í heildina hafi hún gefist vel. Það er hins vegar engin ástæða til þess að fólk samþykki eitthvað fljótheitum og þetta tækifæri gefist ekki aftur. Þeir sem halda þessu fram eru að skrökva. Stjórnarskrármálið hefur rofið friðinn í þjóðfélaginu og þannig eigum við ekki að breyta stjórnarskránni.
Ástæðan fyrir því að við sem nú viljum segja NEI í þessari atkvæðagreiðslu eru einfaldlega þau orð er sú að það er svo ótalmargt óljóst í tillögum stjórnlagaráðs. Þó ekki sé dregin í efa áhugi og vilji ráðsins til að láta gott af sér leiða vekur það athygli að laganefnd sem þingið skipaði um skoðun á tillögunum á ekki að skila niðurstöðum fyrr en síðar í mánuðinum.
Það vekur líka athygli hversu aukaspurningarnar eru einhliða og taka ekki á þeim raunverulegu álitamálum í þjóðfélaginu. Til dæmis eru ákvæðin um stöðu forsetans gjörsamlega út í hött. Af hverju var ekki spurt um það hvort Íslendingar vilja yfir höfuð hafa forseta eða takmarka vald hans eða auka við?
Hvers vegna er ekki spurt um fullveldi Íslands? Þess í stað er óljósa hugtakinu „þjóðareign“ gert hátt undir höfði og spurt um það á leiðandi hátt. Hefði nú ekki verið skynsamlegra í ljósi aðstæðna að spyrja þjóðina hvort hún vildi gefa eftir hluta eða allt fullveldi ríkisins til alþjóðlegra stofnana eins og ESB?
Eins og má sjá af ofangreindu, sem og hugsanlegum mótrökum, er engin samstaða um að tillögur stjórnlagaráðs verði grunnur að nýrri stjórnarskrá.
Þess vegna er betra að segja NEI núna og vinna síðan að stjórnarskrárbreytingum í sátt við sem flesta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.