Fróðlegar skýringar jarðfræðings á gígnum

Mogginn

Í sumar ritaði ég nokkrum sinnum um fallegan gíg sem er að finna sunnan við Hafnarfjall á svæði sem sumir telja til Hrossatungna. Síðasta mánudaginn birti Morgunblaðið svo afskaplega fallega mynd á forsíðunni  af gígnum og fylgdi með viðtal við Harald Sigurðsson, eldfjallafræðing. Hann hélt eins og ég að gígurinn væri eftir loftstein en komast að því við athugun á vettvangi að svo var ekki.

Í pistli mínum frá því í sumar vitnaði ég í Hjalta Franzson, jarðfræðing, sem ritaði doktorsritgerð sína um þetta svæði. Hefði Haraldi verið kunnugt um rannsóknir Hjalta hefði hann ekki þurft að fara á staðinn. Það gerði hann þó sem betur fer og útkoman var þessi stórkostlega fallega mynd sem hinn ágæti ljósmyndari Ragnar Axelsson tók. Mér finnst þó furðurlegt að Haraldur skuli ekki hafa vitað af rannsóknum Hjalta, hafi hann vitað af þeim gat hann þeirra ekki, hvorki í bloggi sínu né blaðaviðtalinu.

Á bloggsíðu Haraldar gerir Hjalti Franzson ansi góða athugasemd í gær og rekur rannsóknir sínar í mjög stuttu og skýru máli. Ég leyfi mér hér að birta athugasemd hans (greinaskil eru mínar):

811019-11

Mér þykir myndin sem birtist af fyrirbærinu í Hrossatungum hin fegursta og ekki undravert að hún hljóti forsíðuathygli. Mér fannst þó skýringarnar á fyrirbærinu e.t.v. ekki nægilega ítarlegar né í alla staði sannverðugar, og langar mig að gefa ítarlegri skýringar en fram hafa komið.

Allt Hafnarfjallssvæðið og allt austur að Draghálsi tilheyrir mikilli megineldstöð sem virk var frá um 5,5 milljónum þar til fyrir um 4 milljónum árum síðan, og var, í þeirri ritgerð sem ég skrifaði um svæðið, kölluð megineldstöðin í Hafnarfjalli og Skarðsheiði.  Eldstöðinni er skipt upp í ein fjögur tímasskeið, þar sem það elsta tengist  Brekkufjalli, en síðan taka við skeið sem taka mið af miðju virkninnar, þ.e. Hafnarfjalls-, Skarðsheiðar- og Heiðarhornsskeið.

Það skeið, sem hér er fjallað um og fyrirbærið finnst innan, er kennt við Hafnarfjall. Á því tímaskeiði framleiðir eldstöðin þunn basalthraunlög og síðan myndast mikil askja, sem jafnvel má skipta upp í þrjár samvaxnar og samtíma sigdældir. Þvermál öskjunnar er um sjö kílómetrar. Þykkt öskjufyllingarinnar er um eða yfir 800 m.

Þessi  öskjufylling er samsett úr brotabergi sem er allt frá þursabergi yfir í túff og augljóst að gosefnin hafa orðið til í vatnsumhverfi. Þótt við séum hér staðsett í miðri megineldstöð og með háhitakerfi í grenndinni, þá er það kalt grunnvatnskerfi sem ræður ríkjum í öskjufyllingunni og stjórnað af öskjuvatninu, ekki ósvipað og við sjáum í Öskju í dag. Móbergið er því tiltölulega ferskt að sjá, en er þrátt fyrir það um eða yfir 4 milljóna ára gamalt. Þetta er það umhverfi sem fyrirbærið skýst inn í.

Ég held að flestir geti verið sammála um að þetta er innskot. Rofið á þessu svæði gæti  ég giskað á að sé vart meira en 2-400 m frá því yfirborði sem þá ríkti í megineldstöðinni.  

Innskotið er sérstætt að því leyti að það er hringlaga kragi af þéttu lárétt stuðluðu basalti.

Innan kragans sést ekki í berggrunn og þakið lausum jarðlögum, og því ekki með öllu ljóst hvaða berg er um að ræða þar. Það er þó augljóslega linara í sér en í kraganum þar sem það hefur rofist niður af jöklinum.  

Mér sýnist helst að um grunnstæðan gígtappa sé að ræða, með vel kristallað ytra byrði en þar innan við er bergið sundurlausara og linara, eins og menn gætu gert sér í hugarlund ofarlega í gígrás.  

Ég vona að þetta skýri að nokkru tilurð þessarar fallegu skálar í Hrossatungunum. 

Meðfylgjandi mynd tók ég í flugferð með Arngrími Jóhannssyni þann 19. október 1981, það er fyrir næstum nákvæmlega þrjátíu og einu ári. Myndinni gleymdi ég svo þar til í sumar er ég skannaði hana og fleira í tölvutækt form. Þar með vaknaði athygli mín.

Ég gekk um svæðið í júlí og skoðaði gíginn. Sem leikmaður var ég þess fullviss að hann væri eldgígur jafnvel þó umhverfið væri úr móbergi, ekki tilviljunarkennd náttúrusmíð eða eftir lofstein. Því miður lenti ég í þoku og á ekki nógu góðar myndir af gígnum. Ég skrifaði einnig talsvert um gíginn á blogginu og fékk ágætar undirtektir. Meðal annars var gaukað að mér nokkuð flókinni og fræðilegri umfjöllun Hjalta Franzsonar, jarðfræðings, um gíginn.

Með ofangreindri umfjöllun Hjalta er nú komin ágætis endir á skemmtilegar vangaveltur sem hófust hjá mér í byrjun sumars og er nú mál að ljúka þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Gígurinn er vel sjáanlegur á Google Earth. Hægt er að sjá það hérna.

Jón Frímann Jónsson, 16.10.2012 kl. 15:56

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Veit, var með myndir af honum í fyrri pistlum af Google og kortavef Samsýnar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.10.2012 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband