Á að refsa atvinnulausum fyrir atvinnuleysið?

Oft hefur heyrst að þeir sem eru atvinnulausir kunni bara ágætlega við það og njóti lífsins á bótum frá ríkisvaldinu. Þetta er í langflestum tilvikum hin mesta firra. Engan hef ég hitt sem dásamar það hlutskipti sem hin norræna velferðarstjórn hefur skapað í kjölfar hrunsins

Í pressan.is í dag rita Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, ótrúlega undarlega grein um atvinnuleysi. Hann segir meðal annars í henni:

Það er ekki svo að skilja að atvinnulausir geri ekkert. Án efa eru flestir þeirra að leita að vinnu sem borgar nægilega mikið betur en atvinnuleysisbæturnar til að það taki því að stunda hana. En á meðan slíkt millibilsástand ríkir er ekkert sem bannar að hið opinbera nýti sér vinnuafl þessa hóps. Þegar allt kemur til alls, þá borgar hið opinbera þessum hópi laun og það m.a.s. talsvert há m.v. mörg láglaunastörf. 

Hagfræðingurinn Hyman Minsky viðraði eitt sinn þá hugmynd að hið opinbera borgi ekki atvinnuleysisbætur. Sparnaður sem af því hlytist væri nýttur til að setja upp atvinnuáætlanir fyrir atvinnulausa sem fælu í sér að þeir veittu samfélagslega þjónustu. Launin fyrir þá þjónustu yrðu að vera lág m.v. laun í einka- og opinbera geiranum, eins og atvinnuleysisbætur eiga almennt að vera. Þannig væri ekki markmið áætlananna að borga há laun til þeirra sem hefðu misst vinnuna heldur að flýta fyrir því að hinir atvinnulausu finndu sér aðra vinnu. Halda mætti jú að fáir vilji vinna láglaunavinnu svo áhuginn við atvinnuleitina ætti af þeim sökum að glæðast

Þetta er eins sú heimskulegasta hugmynd sem ég hef nokkru sinni heyrt. Staðreyndin er hins vegar sú að auðvelt er að setja fram einhverja heimskulega hugmynd og styðja hana með hagfræðilegum rökum, eins og Ólafur Margeirsson rekur í greininni, en ég birti ekki hér.

Eitt er að verða atvinnulaus. Annað er að ríkisvaldið refsi viðkomandi með því að þvinga fólk í vinnu sem nefnist „samfélagsleg þjónusta“. Hið þriðja er að taka af atvinnulausum manni þann rétt að geta valið starfa við hæfi. Hugmyndin minnir óneitanlega á þá sem hafa orðið sekir um lögbrot, sitja inni en er leyft að komast út vegna góðrar hegðunar með því skilyrði að þeir sinni „samfélagslegri þjónustu“. 

Vart missir maður starf sitt vegna þess að hann er óhæfur heldur er það yfirleitt vegna þess að efnahagslegt umhverfi er slíkt að atvinnutækifærum fækkar, kreppa ríkir, stjórnvöld sinna ekki uppbyggingu í atvinnulífi, fjárfestingar í fyrirtækjarekstri minnka vegna ofsköttunar og svo framvegis. Kunnuglegt ekki satt? Slæm stjórnvöld klúðra efnahag þjóðfélagsins og fá um leið að refsa þeim sem missa við það vinnuna.

Nei, þetta gengur ekki upp.

Í raun væri hægt að halda því fram að á sama hátt megi refsa öðrum. Til dæmis þeim sem misstu hús sín á uppboði vegna afleiðinga hrunsins. Þeim væri gert að búa í tjaldi þangað til eignastaða þeirra væri sannarlega orðin slík að þau gætu keypt sambærilegt hús á markaði.

Líklega er auðvelt fyrir Ólaf Margeirsson, hagfræðing eðan þennan Hyman Minsky að segjast mundu þakksamlega þiggja að vinna í „samfélagslegri þjónustu“ þangað til þeir fengju starf við hæfi. Það þarf ekki neinn sálfræðing til að átta sig á því að báðir væru myndu ljúga þessu, þó ekki væri til annars en að standa við ómögulega hugmynd.

Svo er það tilefni í annan pistil hvað samfélagsleg þjónusta er, hvernig hún er skilgreind. Í flestum tilvikum er hún ekkert annað en skipulagt iðjuleysi þar sem sérkunnáttu er sóað í algjöran óþarf. Nefna má að setja hagfræðimg í að sópa gólf. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég veit að það skilur enginn það að vera atvinnulaus í nokkurn tíma, nema að hafa reynt það sjálfur. Skilningsleysið er algert.

Það að fá vinnu á bótum getur verið mjög jákvætt. Ég varð ofurglöð að fara á námskeið í 6 vikur til dæmis, og var alltaf í sjálfboðavinnu.

Það sem vantaði og er í DK til dæmis, ferðakostnaður. Að fara á námskeið með strætó eða bensínkostnaður í 1 mánuð er amk um 20.000kr. Það er mikill kostnaður af 140.000kr mánaðarbótum.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.10.2012 kl. 12:21

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki þekki ég bakgrunn þessara manna, Ólafs Margeirssonar né Hyman Minski, en helst er að sjá að þeir hafi gengið til náms í gömlu ráðstjórnarríkjunum. Séu að boða hið alræmda gúlag hér á landi!

Það verður enginn atvinnulaus að gamni sínu og flestir þyggja þá vinnu sem býðst, jafnvel þó fjárhagslegt óhagkvæmni hljótist af. Sjálfur er ég í vinnu þar sem svo háttar að ég þarf að koma mér sjálfur til og frá vinnu á eiginn kostnað, nærri 40 km á dag. Þar sem ég bý út á landi, utan allra ferða Strætó bs., verð ég að eiga og reka bíl til að stunda vinnuna. Það er ljóst að fjárhagslega yrði ég mun betur staddur á atvinnuleysisbótum, en ekki hvarflar þó að manni slíkt.

Sú kredda að atvinnulausir séu sáttir með sitt hlutskipti er fyrra. Það er fáheyrt að menn láti slíka vitleysu frá sér, sérstaklega frá þeim sem þykjast menntunarlega séð, geta sagt öðrum til.

Atvinnuleysisbætur eru ekki ölmusa heldur aðferð samfélagsins til hjálpar þeim sem ekki hafa vinnu. Svo vill til að í venjulegu árferði eru það atvinnurekendur sem standa undir atvinnuleysistryggingasjóð og aðkoma ríkisins að þeim sjóð með fjármagn einungis við mjög óeðlilegar aðstæður, eins og nú ríkir. Því hefur ríkið í sjálfu sér ekkert með það að gera hvort og hvernig atvinnulausir skuli leggja fram eitthvað vinnuframlag.

Ef ríkið vill hins vegar losna frá þáttöku í atvinnuleysistryggingasjóð, á það einfaldlega að sjá svo um að aðstæður til atvinnuuppbyggingar séu með þeim hætti að fyrirtæki fái dafnað. Þá stækkar sá stofn sem greiðir til sjóðsins á sama tíma og atvinnulausum fækkar. Þannig losnar ríkið frá þeirri kvöð að greiða til þessa samfélagsþáttar.

Eins og áður segir kemur það í raun ekkert ríkinu við hvort eða hvernig atvinnulausum beri að skila einhverju vinnuframlagi. Sú aðferð sem hafur verið farin undanfarið, þar sem atvinnulausum er boðið upp á námskeið, er til fyrirmyndar. Slík námskeið mega þó aldrei vera kvöð, heldur skulu þau vera val.

Við gætum hugsað okkur hvernig atvinnulaus hagfræðingur tæki því að vera skipað á námskeið í heimilisbókhaldi, eða ef atvinnulaus læknir yrði skyldaður á námskeið í fyrstu hjálp og þessum mönnum tilkynnt að ef þeir ekki sæktu þessi námskeið væru þeir teknir af því bjargræði sem þeim er ætlað til að lifa.

Gunnar Heiðarsson, 5.10.2012 kl. 19:43

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið Anna. Gunnar, vel skrifað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.10.2012 kl. 19:56

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

Þegar ég bjó í Danmörku '96 - '99 var ég atvinnulaus um tíma.  Þar var mjög mikið lagt upp úr að fólk væri í vinnu þó það væri "atvinnulaust"  T.d. vann ég um tíma í endurvinnslustöð og var svo um tíma í skóla.  Ef maður neitaði að taka þessa vinnu, þá lækkuðu bæturnar um þriðjung ef ég man rétt.  Þ.e. maður fékk ákveðnar grunn bætur og síðan fékk maður greitt eftir vinnustundum.  Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk sem missir vinnuna hafi eitthvað að gera, þangað til það finnur vinnu aftur.  Það gefur fólki tilgang og heldur við ákveðnum rútínum sem skapast í kringum vinnuna.  Ég hef hinsvegar unnið fyrir sjálfan mig alla ævi fyrir utan þessi ár sem ég bjó í Danmörku, svo ég hef ekki aðra reynslu af atvinnuleysi en þennan tíma þar - sem betur fer:)  Datt bara í hug að nefna þetta:)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 5.10.2012 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband