Laugarás fyrr og nú
21.9.2012 | 11:49
Þann 29. júní 1985 skrapp ég upp á Laugarás í Reykjavík. Þar var víðsýnt um bæinn, ekki síst í vestur, og ég tók nokkrar myndir.
Skammt frá átti ég heima í nokkur ár eftir að ég flutti með foreldrum mínum úr Hlíðunum.
Laugarás nefndist yfirleitt aðeins holtið milli Austur- og Vesturbrúnar en líklega hefur nafnið hér áður fyrr verið haft um alla hæðina, allt frá Laugardal og austur yfir. Kannski er það svo nú
Þarna í holtinu var lítill malarvöllur sem var mikið notaður af skara af strákum í hverfinu. Man eftir því hversu bagalegt það var að missa boltann út fyrir hliðarlínu. Þá fór hann niður á Austurbrún og jafnvel rúllaði niður Hólsveg, sem er nokkuð brattur og talsverð erfiði að eltast við hann. Skotfastir strákar áttu það til að þrusa boltanum yfir suðurmarkið og út á Vesturbrún. Man eftir að pabbi hringdi í Geir Hallgrímsson og kvartaði undan þessu. Daginn eftir komu borgarstarfsmenn og settu stóreflis grjót með hliðarlínu vallarins og mig minnir að þeir hafi lagað netin í mörkunum. Hvort tveggja var ansi mikil framför.
En nú er hún Snorrabúð stekkur eins og sagt er. Vinstri stjórn í Reykjavík var á sínum tíma svo ákaflega hlynt svokallaðir þéttingu byggðar og það leiddi til þess að Laugarásinn var eyðilagður með fjölda raðhúsa. Þau liggja svo þétt að vart er hægt að snúa meðalstórum bíl inni á milli þeirra. Og fótboltavöllurinn er farinn. Engu að síður var hæsta hluta holtsins hlíft og efsta myndin er tekin þar fyrir 27 árum.
Um daginn skrapp ég aftur upp á Laugarás og þvílík breyting sem þar er orðin. Holtið er í raun allt uppgróið og lítið útsýni að hafa vegna hávaxinna birkitrjá. Gamli stöpullinn er horfinn og nýr kominn, hvaða máli sem það nú skiptir.
Svona hefur nú Reykjavík breyst, til betri áttar vil ég segja. Mikill trjágróður sem breytt hefur verðurfarinu í borginni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Öllum þessum góðu blettum þar sem við gátum leikiðboltaleiki aða barist með sverðum eru horfnir. Oftast undir stór og falleg einbýlishús, en það læknar ekki söknuðinn eftir þeim. Eitt af mínum síðustu verkum var að raða upp fallegum stórum steinum efst á fallegasta útsýnishólnum í þá nýja hverfinu nálægt Álfkonuhvarfi. Þarna átti að vera friðaður og leikvöllur fyrir börn á öllum aldri. Þegar ég flutti til landsins aftur fór ég þangað til að skoða og taka þátt í gleðileik barnanna. Ekkert var ekki eins og ég skyldi við eftir mig. Allt var farið, steinarnir,sleðabrekkan,blómabrekkan og sjálfur hóllinn líka. Í staðin voru stór og kuldaleg einbýlishús með ósýnilegu fólki á hellulögðum flötum bletti. Ég gaf þessum barnahól marga kaffitíma og marga hálfa matartíma til einskis. Þeir skipta tugum leikvellirnir sem ég hef búið til í mínu gröfukallslífi, en þessi er sá sem dó í spillinu og græðgi fárra manna á kosnað barna.
50 cal.
Eyjólfur Jónsson, 22.9.2012 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.