Seðlabankinn reynir að kjafta sig út úr vanda
20.9.2012 | 10:06
Þegar óvandaður stjórnmálamaður lendir í klípu segir hann í þröngum hóp með hrokabliki í augum, Ég sé um þetta, kjafta mig einhvern veginn út úr því. Og viti menn, honum tekst það. Oftast vegna þess að fjölmiðlar nenna ekki að elta ólar við hann.
Sjáið bara hversu mjúkum höndum menn fara um Guðbjart Hannesson, velferðarmálaráðherra, sem hefur þá einu launastefnu að hækka laun forstjóra Landspítalans. Hinum gaf hann einfaldlega fingurinn. Engin haldbær rök hafa komið frá ráðherra um gjörninginn, hann eftirlætur forstjóranum afsakanirnar sem á heldur illa tíð með þær. Fjölmiðlum finnst þetta hins vegar allt í lagi.
Seðlabankinn er stofnun sem maður hefur hingað til borið talsvert mikla virðingu fyrir. Nú gerist það að Morgunblaðið segir frá því að í frosti gjaldeyrishafta leyfi bankinn Deutche Bank og erlendu fjárfestingarfélagi að skipta 18 milljörðum íslenskra króna yfir í erlendan gjaldeyri.
Svo beið maður spenntur eftir því að heyra skýringar Seðlabankans og þær komu vissulega, ef skýringar skyldi kalla. Þær birtast á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í morgun. Ég las þær og skildi varla upp né niður. Eitthvað vantaði. Skyldi Mogginn hafa sleppt hluta þeirra fyrir mistök?
Nei, Seðlabankinn var einungis að reyna að kjafta sig út úr vanda sem hann hafði engar rökréttar skýringar á. Svo svipað eins og þegar Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra og þingmaður, bregður fyrir sig fornyrðislagi brúkar Seðlabankinn kansellímál. Hvorugur verður fyrir vikið skilnanlegur.
Best er í raun athugasemd ritstjórnar, en í henni segir hárbeitt:
Í yfirlýsinguna vantar rökstuðning við þessa fullyrðingu, útskýringar Seðlabankans eru óljósar og ófullnægjandi og bankinn neitar að veita upplýsingar um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. [...]
[R]étt [er] að vekja athygli á því, að gengi krónunnar hefur lækkað um meira en 7% gagnvart evrunni - úr 149 krónum í 160 krónur - frá því að Peningamál Seðlabankans voru kynnt 22. ágúst síðastliðinn. Þetta er verulegt fall á tæpum mánuði.
Á fundi með blaðamönnum, þegar rit bankans var kynnt, taldi Már Guðmundsson hins vegar ástæðu til að ætla að veruleg gengisstyrking krónunnar mánuðina á undan væri ekki eingöngu tilkomin vegna árstíðarsveiflna. Því væri ekki endilega ástæða til að ætla að krónan myndi gefa eftir á komandi misserum. Í Peningamálum er gert ráð fyrir því að gengi krónunnar gagnvart evru verði að meðaltali 150 á næsta ári.
Gera má ráð fyrir því að það sem Morgunblaðið á við er að undanþágulekar í gegnum gjaldeyrishöftin valdi lækkun á gengi krónunnar. Önnur skýring er varla í sjónmáli. Seðlabankinn er því á harðaflótta rétt eins og ríkisstjórnin af því að hann er viljandi í undanþáguveitingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.