Kjaftbrúk, dýfur og leiðindi leikmanna
17.9.2012 | 13:45
Kjaftbrúk leikmanna við dómara fer að vera ansi leiðigjarnt, sérstaklega fyrir okkur áhorfendur. Þó maður heyri ekki oft hvað þeir segja þarna úti á leikvellinum fer ekki á milli mála að sjaldnast eru það neinar gælur ef líkamstjáningin er lögð til grundvallar.
Auðvitað gengur ekki að hreyta einhverjum ónotum í dómara og reyna síðan að afsaka sig með því að það hafi verið sagt í hita leiksins. Þetta er eins og að afsaka umferðarslys með því að hafa verið drukkinn undir stýri.
Menn eiga að hafa stjórn á sér, það er grundvallaratriði. Hitt er síðan til opinberrar umræðu að knattspyrnumenn stunda þann undarlega leik að senda dómurum tóninn til þess eins að halda þeim við efnið, sýna hvar valdið liggur. Þegar bæði lið gera þetta spinnst allt smám saman upp í einn allsherjar kjafthátt sem engan enda tekur.
Ósiðir fótboltamanna eru margir. Flestir kannast við þann sið að leikmaður fleygir sér niður í vítateig andstæðinganna til að fá víti. Þetta eru kallaðar dýfur og þeir sem slíkt stunda dýfingameistarar. Stundum takast dýfurnar, dómarar eru auðvitað mannlegir.
Svo fellur einhver, hefur verið tæklaður, brugðið eða hrynur niður af sjálfsdáðum. Þá bregst það sjaldnast að viðkomandi kútveltist, grípur um legginn og hrín hástöfum. Í flestum tilfellum lagast bágtið fljótast ef viðkomandi fær aukaspyrnu út á veltuna. Hrikalegustu slysin á leikvellinum lagast undrafljótt og eru ábyggilega tilefni til mikilla læknisfræðilegra rannsókna. Væri ráð að Íslensk erfðagreinin tæki þetta til athugunar.
Boltinn á það til að fara útaf leikvellinum og mér skilst að þá eigi það lið að kasta inná sem ekki olli því að hann skrapp yfir hvítu línuna. Langt er síðan leikmenn fóru að taka upp þann sið að hjálpa dómaranum með því að lyfta upp hendi er boltinn fer útaf. Með slíkri tjáningu segjast þeir eiga innkastið. Ekki veit ég til þess að dómarar fari almennt eftir þessum markvissu tilkynningum leikmanna enda vandast málið þegar menn úr báðum liðum veifa fálmurunum og þykjast eiga innkastið. Líklegast ættu dómarar þá að kalla á fund og ræða málið og komast þannig að niðurstöðu, nú eða kasta uppá'ða.
Nei, dómar á leikvelli eru ekki til umræðu. Þeir eru endanlegir. Dómi verður ekki kollvarpað með lýðræðislegri handauppréttingu né heldur á þann veg að sá sem hæst hrópar um meint óréttlæti fái að ráða.
Er ekki best, strákar og stelpur, að halda einfaldlega kjafti og snúa sér frá dómaranum eftir að hann hefur dæmt. Það er svosem í lagi að tauta einhvern andskotann ofan í bringuna á sér eða kasta sér niður og berja á grasinu. Nú, og svo má alltaf fara að gráta. Dómarar eru yfirleitt aumingjagóðir og væru áreiðanlega til í að dæma þeim í haga sem fellir flest tárin og grætur sárast.
Best af öllu væri þó að leikurinn fengi að ganga snuðrulaust fyrir sig, án leiksýningar. Já, ég veit, nú fullyrða margir að án leikrænna tilþrifa væri fótboltinn hundleiðinlegur. Eitthvað kann að vera til í því ...
Ertu þroskaheftur? spurði Jón og fékk rautt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 14:46 | Facebook
Athugasemdir
Mér dettur nú fyrst í hug, er þetta það ljótasta sem manninum dettur í hug að hægt sé að vera? Mig langar til að upplýsa hann um það að það er ekkert ljótt við að vera þroskaheftur og segir meira um þann sem notar það sem skammaryrði en þann sem hann notar það um. Þroskaheft fólk er yndislegt fólk, einlægt , gott og ég hef aldrei heyrt þroskaheftan einstakling tala illa um annan einstakling. Ég held að þú ættir frekar að taka þér þroskaheft fólk til fyrirmyndar en að nota það í einhvert skammaryrði.
Falur Þorkelsson, 18.9.2012 kl. 17:14
Falur, þú átt auðvitað við leikmanninn sem notaði þetta orð ekki mig sem aldrei hefur notað orðið sem skammaryrði. Er það ekki?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.9.2012 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.