Gekk berfættur í mosanum á tindinn

DSC_0050

Ég lýsti því fyrir hlustendum þegar ég gekk berfættur á efsta tind fjallsins Löðmundar.  fór ég úr skónum og gekk berfættur til að skemma ekki viðkvæman gróður tindsins.

Þannig ritar Reynir Traustason, ritstjóri DV, í blogg sitt er hann nefnir „Baráttuna við holdið“. Þetta kann að virðast dálítið sérstök lýsing svo ekki sé talað um samhengið. Hið síðarnefnda skiptir mig engu máli.

Þarna er land andstæðna. Gróður á sér erfitt uppdráttar, samfelld gróðursvæði eru lítil, jarðvegur er vikrar eða aska, afskaplega laus í sér. Gras vex einkum nálægt ám og vötnum og gamburmosinn klífur fjöllin. Þannig er þetta við Löðmundarvatn og Löðmund.

DSC_0097

Sá sem gengur fjöllin, lærir á gróðurfarið. Víða á það í gríðarlegum erfiðleikum. Gróðurþekjan rofnar auðveldlega. Þetta sést svo ákaflega vel víða á Fjallabaki nyrðra og syðra þar sem fjöll eru sum hver gróðursnauð neðst. Þar rýkur sandurinn og hreinsar gróðurinn í burtu en ofsinn nær ekki ofar. 

Á fjöllum verður allt svo undarlega öðru vísi og rökhugsunin jafnvel sterkari en endranær, ef til vill barnsleg. Þegar komið er að grænum dýjamosanum reyna flestir að krækja fyrir hann ef mögulegt er. Óraunverulegi litur mosans og oft eyðilegt umhverfið fær göngumanninn til að endurskoða hug sinn. Virðingin fyrir náttúrunni vex eftir því sem maður á fleiri stundir á fjöllum.

Ég er ekki hissa þó Reynir Traustason hafi tekið af sér skóna og gengið berfættur síðasta hluta leiðarinnar á Löðmund. Þó fæstir hafi gert það sama er það einhvern veginn svo rökrétt. Göngufólk skilur manninn enda reyna flestir að hlífa gróðri eins mikið og þeir geta. Ekki er ólíklegt að maður verði léttari við það eitt að halda niðri í sér andanum meðan gengið er yfir viðkvæm, mosavaxin svæði.

DSCN2031

Efsta myndin er tekin í sumar örskammt frá Löðmundarvatni. Þarna gægist grárleitur Löðmundur fyrir ónefnda fjallið við Helliskvísl. 

Önnur myndin er af Mælifelli á Mælifellssandi.

Og þriðja myndin er af dýjamosa sem fundið hefur sér stað skammt frá Strúti í Strútslandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband