Hrolleifsborg fyrir 17 árum

DSC_0673Einna fegurst jöklasýn sem gefst á Íslandi er úr Reykjarfirði. Í botni dalsins fyrir innan fjörðinn er Drangajökull, hvelfdur og fagur, og augnayndi er af Hrolleifsborg, Reiðarbungu og Jökulbungu.

Fyrstu myndina tók ég fyrir tveimur árum í kvöldsól. Þarna er Hrolleifsborg (851 m) til vinstri og hægra megin, lágreist, er Reiðarbunga (825 m).

Í þessari ferð gengum við nokkur á Drangajökul og höfðum viðdvöl á öllum „skerjunum“, enduðum loks á hinni afburðafögru Hrolleifsborg. Tilsýndar er hún fögur og ekki svíkur hún þegar að er komið.

930730-221

Nokkuð oft hef ég komið í Reykjarfjörð. Leið mín lá þangað talsvert oft er ég var fararstjóri fyrir Útivist og einnig kom ég þangað á eigin vegum. Ekki spilti heldur fyrir að kynnast því ágæta fólki Ragnari Jakobssyni og konu hans henni Lillu.

Einu sinni bjargaði hún lífi mínu og eldri sonar míns sem var alltaf í ferðum með mér. Þannig var að yfirleitt var hann frekar neyslugrannur og hélst það þannig þar til hann var tíu ára og tók þá upp á þeim óskunda að éta meira en ég hafði ráð fyrir gert í nesti. Stóðst á endum í gönguferð sem hófst í Jökulfjörðum og endaði í Reykjarfirði að ég var orðinn gjörsamlega matarlaus er á áfangastað var komið. Er Lilla frétti af þessu var hún ekkert annað en hjálpsemin og við lifðum næstu tvo daga svona mest megnis á heimabökuðu brauðmeti frá henni. Hef ég aldrei, hvorki fyrr eða síðar, bragðað eins góðan mat.

Þegar ég var að skoða myndir af ferðum mínum í Reykjarfjörð rakst ég á þessa mynd af Hrolleifsborg sem er hérna fyrir ofan. Hana tók ég úr flugvél í byrjun ágúst 1993, það er fyrir nítján árum. 

Mér lék nokkur hugur á því að skoða hvort jökullinn hefði eitthvað rýrnað á þessum árum og leitaði því að nýlegri mynd. Eftir smá leit fann ég þokkalega mynd frá 2010 sem ég klippti til en hún sannar í raun og veru ekkert um jökulbúskapinn.

Hún virðist bara sýna mjög svipuð snjóalög við Hrolleifsborg.

DSC_0820_b

Þessi þriðja mynd er tekin á sjálfum jöklinum og því er sjónarhornið aðeins annað. Með því að rýna í myndirnar er þó hægt að bera þær saman. Við sjáum skarðið eða bilið sem er framan í fjallinu. Neðst á efri myndinni, hægra megin við gilið, er stakt sker í hlíðinni. Ofan við það er samfelldur skafl sem fylgir einhverri syllu sem er í sömu láréttu stefnunni og berglögin þarna eru.

Þetta er án efa sama línan og við sjáum á neðri myndinni en snjórinn er þarna slitróttur.

Niðurstaðan af athugun á þessum tveimur myndum er því sú að lítill munur er á snjóalögum en samanburðurinn er engu að síður ekki nægur til að draga fullnægjandi ályktanir. 

Svo má alltaf stækka þá þriðju og þá kemur í ljós að frá slitrótta kaflanum og niður að snjólínu eru örugglega meira en fimmtíu metrar.

Nú er svo komið að langur tími er liðinn síðan maður fór að taka myndir og allflestar geymi ég og er þegar byrjaður að skanna inn filmur. Þar af leiðandi gefst tækifæri til að bera saman aðstæður fyrir fimm, tíu, fimmtán eða tuttugu árum, jafnvel fyrr. Þetta á ég eflaust eftir að gera meira á þessum vettvangi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband