Freysi
29.8.2012 | 15:26
Ef þú kemst ekki þangað á jeppa þá er líklegast ekkert varið í staðinn, sagði hann hátt og snjallt yfir hópinn í litla kofanum í Goðahnúkum og glotti um leið og hann leit til mín. Hann vissi sem var að ég, göngukallinn, myndi nú æsa mig yfir þessum orðum. Og auðvitað féll ég í gryfjuna og fór að tuða eitthvað um gildi gönguferða, skíðaferða, fjallgangna og allt sem nöfnum tjáir að nefna.
Þá hló Freysi og allir vinir hans með honum, tilganginum var náð.
Ég man alltaf eftir þessum orðum Freysa og lengi á eftir hefndi ég mín með því að fullyrða að þetta væri markmið jeppakalla, að fara akandi alla um allar trissur og skemma um leið landið. Ég vissi þó betur enda var síst af öllu hægt að segja það um Freysa að hann færi illa með landið sem hann unni svo heitt.
En nú er hann dáinn, þessi ágæti drengur sem í raun og sann var allra vinur. Fullu nafni hét hann Vilhjálmur Freyr Jónsson. Hann lést í vélhjólaslysi langt fyrir aldur fram, aðeins 47 ára gamall. Hann var véltæknifræðingur, geysilega fær með jeppa, enda vann hann hjá Toyota umboðinu, síðar Arctic Trucs og loks hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Hann breytti bílum og fann upp betri aðferðir við það, átti þátt í einkaleyfum hjá Össuri. Hann ók á jeppa á Suðurskautinu og var með þeim fyrstu sem óku yfir Grænlandsjökul.
Ég þekkti hann ekki mikið, en við þáttum sameiginlega vini og kunningja þó leiðir okkar lægju ekki oft saman.
Í eina skiptið sem ég fór í ferð með Freysa var það 1994 ég og vinur minn, Guðbergur Davíð Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður, vorum að búa til sjónvarpsþátt sem nefndist Jeppar á fjöllum. Við fengum Arnar Jónsson, kunningja minn til að fara með okkur á Vatnajökul og hann dró Freysa með. Þetta var í byrjun september og á fjórum bílum ókum við sem leið lá upp Skálafellsjökul og í Goðahnúka. Þetta var gríðarlega eftirminnileg ferð.
í Goðahnúkum vildi svo einkennilega til að Toyota bíllinn minn bilaði, fór ekki í gang. Freysi vissi hvað var að en hafði skiljanlega ekki tök á því að gera við hann. Bíllinn var einfaldlega úrbræddur. Þrátt fyrir þetta áfall, skiluðum við bílnum niður að Jöklaseli þaðan sem hann var sendur til Hafnar og síðan með skipi til Reykjavíkur.
Ferðin hélt hins vegar áfram. Ég fékk að vera með Freysa í bíl og þá skildi ég hversu mikill töframaður hann var í akstri og skemmtilegur ferðafélagi. Á Grímsfjalli varð Arnari það á að brjóta framdrif. Freysi skreið aftur í skott á bílnum sínum og fann framdrif og réttar olíur til að setja með því. Hugsið ykkur, kæru lesendur. Hvers konar maður á framdrif fyrir Toyota bíl á lager?
Við ókum yfir endilangan Vatnajökul, að hluta til eftir gps punktum. Komum niður í Gæsavötn, héldum þar í Laugafell við Sprengisand, ókum norður fyrir Hofsjökul, að Hveravöllum og á Langjökul.
Bílnum sínum sem var lengdur Toyota Hilux hafði Freysi breytt mikið. Ég sá hann aka yfir hrikalega grýttan veg á um sjötíu kílómetra hraða án þess að bíllinn haggaðist að neinu ráði. Svo góð var fjöðrunin. Ökumenn hinna bílanna siluðust þennan vegarspotta á um tuttugu kílómetra hraða. Freysi var ekkert sérstaklega gefið fyrir hraða eða hættur. Hann vildi bara sýna okkur hvernig væri hægt að breyta bílum til öryggis fyrir ökumann og farþega.
Við Þursaborg á Langjökli sýndi hann okkur ferðafélögum sínum aftur hversu góð fjöðrunin var í bílnum. Hann fann góðan stað og lét bílinn stökkva sem nam mannhæð ... Þetta hafði ég aldrei séð, að minnsta kosti ekki til götubíls.
Eftir þessa ferð hitti ég Freysa af og til. Þótti alltaf meira og meira til hans koma. Einhver sagði mér að hann hefði byrjað að ferðast gangandi. Og svo frétti ég af því í gegnum Ingu Jónu Halldórsdóttur, vinkonu mína, að hann hefði kynnst Kristjönu Harðardóttur og þau gifst og eignast tvö börn.
Í Morgunblaðinu í dag er fjöldi minningargreina um Freysa. Hér er tilvitnun í eina þeirra:
Síðasta daginn sem hann lifði bakaði hann pönnukökur með Steinunni dóttur sinni, fór í flugtúr með Jóni syni sínum og saman fóru þeir feðgar ásamt frændum á mótorhjól. Þeir léku sér, Freyr grillaði pylsur og síðan tóku þeir síðasta hringinn. Freyr leiddi hópinn með þrjá unga menn en þá kom höggið sem aldrei verður bætt. Ungu mennirnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma til hjálpar.
Minnistæður maður er horfinn á braut. Hér var ekki ætlunin að rita formlega minningargrein heldur langaði mig til að rifja upp nokkrar minningar um Freysa og birta á mínum vettvangi. Harmur eiginkonu, barna og annarra ættingja er mikill. Ég votta þeim samúð mína.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.