Hættum að ganga á Þverfellshorn
26.8.2012 | 11:48
Esjan er eitt fallegasta fjall landsins og stórkostlegt til útivistar. Hins vegar má fólk ekki gleyma því að gönguleiðin upp á Þverfellshorn er ekki sú eina. Hún er að vístu gríðarlega vinsæl og stendur undir því. Engu að síður eru margar fleiri og jafnvel skemmtilegri leiðir á Esju.
Ferðafélagið hefur eiginlega eignað sér gönguleiðina á Þverfellshorn. Þar hefur félagið raðað upp frekar lítt merkilegum skiltum sem segja í sjálfu sér enga sögu né eru leiðbeinandi.
Skrýtnaðasta skilti sem ég hef séð er það sem hér birtist mynd af og er við klettabeltið. Þar stendur meðal annars Umferð á eigin áhættu.
Hvað er verið að segja þarna? Að umferðin fyrir neðan skiltið hafi verið á ábyrgð Ferðafélagsins? Nei, þetta er bara vanhugsað skilti sem hefur engan annan tilgang en að auglýsa Ferðafélagið. Esjan er ekki vettvangur fyrir slíkt.
Svo er það annað mál hver sé ábyrgð ferðafélags eins og FÍ. Er það forsvaranlegt að beina öllum kröftum að því að koma sem flestum göngumönnum á sama staðinn eða ætti félagið að reyna að vekja athygli á fleiri gönguleiðum og létta þar með álaginu á Þverfellshorn. Veitti nú ekki af. Munum að sama gerir Ferðafélagið með Laugaveginn, gönguleiðina vinsælu milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Svo virðist sem félagið kynni aðrar gönguleiðir með hangandi hendi.
Víkjum aftur að Esjunni og látum Ferðafélagið í friði. Þeim mun áreiðanlega ekki líka svona gagnrýni, jafnvel þó hún sé fram sett af vini sem vilji til vamms segja.
Ég er eiginlega hættur að fara á Þverfellshorn. Finnst of margir á þeirri leið og raunar er ég dauðhræddur við þá sjón sem þar blasir við, vanbúið göngufólk og hlauparar og ekki síður ofbýður mér átroðningurinn sem hefur sett mark sitt á fjallið þarna svo það er ekki lengur eins og það var. Það er miður.
Kerhólakambur
Gönguleiðin upp Kerhólakamb er einstaklega skemmtileg og hentar vel fyrir þá sem áhuga hafa á að koma sér í form. Hún er að mestu leyti ein löng brekka þar til að Kambnum er komið.
Vegur liggur frá þjóðveginum upp að malarnámi austan við gilmynnið. Þar má leggja bílnum. Gljúfurá er ekki mikil og hægt að stikla hana svo hægt sé að komast að hömrunum vestan við. Auðvelt er að klifra upp þá og þar fyrir ofan er leiðin greið. Hlíðin er að vísu mjög brött en föst í sér, gróðursnauð neðst en um miðbikið er nokkur gróður.
Níphóll er í rúmlega 500 m hæð og tilvalinn áningarstaður en þaðan er þriðjungurinn eftir upp á brún. Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Níphól. Tilvalið er að skoða hamrana og gljúfrin fyrir neðan sem er mögnuð sjón.
Fyrir ofan Níphól heitar Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, en þau eru lægðir á milli hóla á þessu svæði.
Efst er lítið hamrabelti sem þó er engin fyrirstaða göngufólki. Varða er þar fyrir ofan og þá er takmarkinu náð.
Lág-Esja
Gangan hefst við mynni Blikadals. Brattast er fyrst en síðan tekur við aflíðandi halli upp á Kerhólakamb. Leiðin er hins vegar nokkuð löng. Hægt er að fara af Kerhólakambi og niður að mynni Gljúfurdals og ganga þaðan undir Esjuhlíðum að mynni Blikadals þar sem bílnum var lagt. Ekki er löng leið út á Þverfellshorn.
Einnig er hægt að ganga hringinn. Fara upp Lág-Esju, síðan fyrir botn Blikadals og loks að Dýjadalshnúk og Tindastaðafjalli og þar niður í dalinn. Þá er aðeins eftir að fara yfir Blikadalsá en hægt er að stikla hana víða eða einfafldlega að vaða hana.
Lág-Esja er frábær til göngu en eðlilega má telja léttara að ganga hana frá Þverfellshorni eða Kerhólakambi og vestur um fjallið og niður Lág Esju.
Kistufell
Þar er mín uppáhaldsleið á Esju. Ég legg bílnum skammt frá Leirvogsá við mynni Grafardals og geng síðan upp á austurhorn Kistufells. Þetta er afar skemmtileg gönguleið, alls ekki eins brött og hún virðist. Þegar upp er komið er útsýnið frábært, einstaklega fagurt til Móskarðshnúka.
Meðfylgjandi mynd er tekin á leiðinni upp og horft í austur að Móskarðshnúkum og til Skálafells. Fremst er þó Þverárkotsháls og þar um liggur leiðin á Hátind, önnur uppáhaldsleiðin mín á Esju.
Hátindur og Móskarðshnúkar
Ef til vill tilheyra Móskarðshnúkar ekki Esju en þeir eru þó tengdir henni órjúfanlegum böndum. Stórkostlegasta gönguleiðin á suðvesturhorni landsins, já, og þó víðar væri leitað, liggur á milli Esju og Móskarðshnúka. Þá er gengið t.d. upp á Móskarðshnúka og síðan sem leið liggur eftir fjallshryggnum og út á Esju.
Hryggurinn er skrambi hár og þar er nær þverhnípt til beggja handa. Eftir að af honum er komið er gengið fyrir Þverárdal og síðan á Hátind. Af honum eru þrjár leiðir að velja niður. Persónulega finnst mér þægilegast að fara niður á Þverárkotsháls, en hinar tvær, sem liggja niður í Grafardal eru spennandi.
Að lokum
Hér var ekki ætlunin að fara að skrifa einhverjar leiðarlýsingar á Esju en ég féll þó í þá gryfju, eiginlega mest vegna gremju minnar yfir örlögum Þverfellshorns og þeirri skammsýni margra sem halda að það sé eina Esjan. Hún hefur fjölmörg sjónarhorn og á hana eru frábærar gönguleiðir sem lítið hefur verið sinnt af ferðafélögunum Útivist og Ferðafélagi Íslands. Þess í stað er öll áherslan lögð á Þverfellshorn. Um það hef ég bara eitt að segja: Takist ferðafélagi að gera gönguleið vinsæla á hún að leggja höfuðáherslu á að gera hana sjálfbær, snúa sér eftir það að öðrum verkefnum. Og hvert skyldi vera meginmarkmið ferðafélags: Jú, gera sjálft sig óþarft. Það gerist þó seint, alltaf koma fram nýjar kynslóðir, en eftir stendur að þær sem fyrir eru kunna betur til verka í göngum um landið.
Og til aðdáenda Esju hef ég þetta að segja: Látum Þverfellshorn eiga sig. Skoðum aðrar leiðir. Þær eru fjölmargar og hér hef ég til dæmis ekki nefnt þær sem eru úr Kjós.
Tveggja tíma ganga á toppinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.