Hver ákvað að Húsavík væri ferðamannastaður?
22.8.2012 | 14:03
Í sjálfu sér er áhugavert að lesa um viðhorf Elínar Sigurðardótturk, framkvæmdastjóra Íslenskra fjallaleiðsögumanna, um ferðaþjónustu á Íslandi. Vandinn er þó miklu meiri en hún lætur uppi og þá fyrst og fremst ólíkir hagsmunir innan ferðaþjónustunnar.
Flugfélög hafa þá hagsmuni að fylla öll sæti til og frá landinu. Sama er með hótel og gististaði, þau þurfa að fullnýta fjárfestinguna allan ársins hring. Þetta fer ekki endilega saman við umhverfismál og náttúruvernd. Samkvæmt árlegum skoðanakönnunum meðal erlendra ferðamanna er stærsti hluti þeirra hér vegna náttúrufars og vilja skoða landið.
Lítum svo á ferðamannastaðina. Flestir þeirra eru yfirfullir á háannatímum. Aðrir, sem ekki teljast til frðamannastaða eru tómir. Markaðsetning landsins gengur allt of mikið út á hina þekktu staði og þar af leiðandi er engin eftirspurn eftir hinum. Þetta er auðvitað sök ferðaþjónustufyrirtækja. Þekking á landinu innan þeirra virðist vera afskaplega lítil og því hjakkar hver í sporum annarra.
Landmannalaugar og Þórsmörk, gönguleiðin þar á milli, Hveravellir, Þingvellir, Ásbyrgi, Mývatn, Dettifoss, Skaftafell.
Fyrir tuttugu árum hlógu þeir sem þá voru bessarwisserar í ferðaþjónustunni að Húsvíkingum sem voru að rembast við að kynna hvalaskoðun. Þeir hættu fljótlega að hlægja enda gekk allt upp hjá Húsvíkingum. Ég þori að fullyrða að hvalaskoðunin á Húsavík hefur valdið því að ferðaþjónustan í Þingeyjarsýslum hefur blómstrað undanfarin ár. Þar gera menn sér grein fyrir gildi hennar og líklega er sú ástæðan fyrir því að þangað sækja ferðamennirnir.
Vestfirðir eru að komast inn á kortið en mikið vantar upp á að það sama gerist á Norðurlandi vestra og eru þó möguleikarnir gríðarlegir.
Enginn ákvað fyrir Húsvíkinga hversu stór bærinn átti að vera í ferðaþjónustu. Þeir hafa þróað hann eftir sínum hætti og þannig á það að vera. Elín Sigurðardóttir, farmkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumana, telur að einhver þurfi að ákveða hvaða staðir eiga að vera stórir ferðamannastaðir og byggja þá upp sem slíka en leyfa öðrum svæðum að vera ósnortin. Þessu eru ég ósammála. Ég myndi varla treysta mér til að hafa með höndum slíkt alræðisvald og fara fullkomlega með það, hvað þá að ég treysti öðrum. Húsvíska aðferðin er best.
Ferðamannastaðirnir eru miklu fleiri en menn gera sér grein fyrir og því algjörlega óþarfi að hrúga saman ferðamönnum á örfáa staði. Til þess þarf þó uppbyggingu og það gera heimamenn bestir allra. Hverjum skyldi til dæmis hafa dottið í hug að Siglufjörður myndi ná sér á strik sem slíkur? Héðinsfjarðagöng og dugnaður heimamanna hafa gert staðinn að einum hinum merkilegasta á landinu. Hefði framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna getað látið sér detta það í hug fyrir tíu árum?
Vandi ferðaþjónustunnar er að besserwisserarnir í ferðaþjónustu eru þröngsýnir. Þeir sjá aðeins stóru staðina en ekki þá litlu. Þess vegna er þeim einum ekki treystandi fyrir stefnumótun í greininni.
Fyrir stuttu benti Ómar Ragnarsson á yndisfagra staði í náttúru Íslands sem fáir þekkja, en þeir eru:
- Gjástykki
- Hveragil í Kverkfjöllum
- Sönghofsdalur
- Dynk
- Gljúfurleitafoss
- Hvanngiljafoss
- Grímsvötn
- Norðurgil við Mýrdalsjökul
- Jökulgil við Torfajökul
- Strandarhellarnir vestan við Þorlákshöfn
- Hraukarnir í Kringilsárrana
- Sauðárhraukar við Sauðárflugvöll
- Grágæsadalur
- Eldvörp
Ég benti á nokkra aðra sem mér þykir vænt um og mér þykir mikið vænt um:
- Hattver í Jökulgili skammt frá Landmannalaugum og raunar Jökulgil allt
- Gjáin fyrir ofan Stöng í Þjórsárdal
- Rauðibotn, Hólmsá og Hólmsárlón
- Hólmsárfossar neðan við Mælifellssand
- Á og foss sem fellur í hvelfingu efst í Fróðárdal, vestan Draugamúla. Einstaklega fallegt er ofan fossins. Þekki ekki nöfn á þessum stöðum
- Rauðisandur
- Spákonufell við Skagaströnd
- Dyrfjöll
- Borgarfjörður eystri
- Vatnsdalur við Heinabergsjökull í Vatnajökli
- Kálfafellsdalur
- Vestrahorn, gönguleiðin undir frá Papaósi að Horni, einnig gönguleiðin upp Kastárdal og í niður skriðurnar við Kambshorn.
- Gönguleiðin um Endalausadal
- Ketillaugarfjall
- Esjufjöll
- Grímsvötn
- Núpsstaðaskógar
- Upptök Bláfjallakvíslar norðan Öldufells
- Þjófadalir
- Heiðmörk
Ísland verður aldrei ódýrt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Facebook
Athugasemdir
Heilmikið til í þessu en svo ég tengi þetta við markaðslögmálin gagnvart almennri smásölu þá ákveður enginn hvaða vöruflokkar seljist í dag. Fólkið sem kemur inn finnur sér bara eitthvað sem því líkar. Auðvitað er alltof mikil áhersla á örfáa staði og við getum m.a. kennt frekar huglausum leiðsögumönnum um það.
Sigló og Húsavík eru einfaldlega búnir að meika það og þeir staðir kenna okkur meira en margur ferðaspegúlantinn.
Gylfi Gylfason, 22.8.2012 kl. 22:47
Bestu þakkir fyrir athugasemdina, Gylfi. Met mikils þegar menn koma hingað málefnalega. Það sem mestu skiptir er að enginn er fær um að taka ákvörðun fyrir okkur, þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Hins vegar hefur markaðssetningin á Íslandi verið frekar einhæf og það má skrifa á þá sem hikað hafa við að vinna heimavinnuna sína, hver á sínu svæði. Dæmi um góðar hugmyndir sem orðið hafa að veruleika er hvalaskoðun, Bláa lónið og nú virðist Þríhnúkagígur stórviðburður fyrir ferðafólk. Ekki má gleyma stöðum sem við fyrstu sýn eru smáir en hafa gríðarlega möguleika. Ég sé fyrir mér fjölda staða á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Hálendið er stórkostlegt en láglendið tekur öllu fram.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2012 kl. 22:54
Þeir ferðamenn sem koma til landsins eru lang flestir búnir að ákveða nokkurn vegin hvað þeir vilja sjá og gera. Það er ekki eins og ferðamenn séu hópur af rollum sem er hægt að smala á ákveðin svæði á ákveðnum tíma. Þeir staðir sem eru taldir upp hér að ofan munu lang flestir ekki verða fjölfarnir ferðamannastaðir. Til þess eru þeir of afskektir og óaðgengilegir. Það virtist vera búið að ákveða að Húsavík yrði stóriðjubær fyrir nokkrum árum, en núna er Norðursigling stærsti atvinnuveitandin í þeim bæ.
Hlynur Snæland, 22.8.2012 kl. 23:31
sammála. (RauðAsandur)
kær kv :-)
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.8.2012 kl. 04:26
Rauðasandur eða Rauðisandur ... Í gamla daga var því troðið í mann að seinni rithátturinn væri réttur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.8.2012 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.