Forgengilegir skaflar í Gunnlaugsskarði og Kerhólakambi
16.8.2012 | 01:26

Stundum er gaman að vera áhugaljósmyndari, sérstaklega ef maður hefur hirt vel um myndirnar sínar og geymt þær skipulega. Skannaðar slides myndir eru oft lítið merkilegar í samanburði við stafrænar.

Sá að einn af gæðabloggurum landsins, Emil Hannes Valgeirsson, birti nýlga gamla mynd úr gönguferð á Esjuna, tekin í lok ágúst 1995. Hann gekk upp Gunnlaugsskarð, sem er nún frekar erfitt fyrir göngumenn, þó ekki ófært. Og í skarðinu var enn skafl þó liðið væri langt á sumar. Það þykir Emil skiljanlega merkilegt.

Hann hefur mikinn áhuga á Esjunni, sérstaklega hvernig hún veðrast frá einu ári til annars. Hann hefur meira að segja tekið raðmyndir af henni, ein mynd á dag, frá sama sjónarhorni í heilt ár.
Umfjöllun Emils kveikti áhuga hjá mér, enda er ég líka óskaplega hrifinn af Esjunni. Þess vegna leitaði ég að myndum af fjallinu frá því á níunda áratugnum, mundi að þá hafði ég hafði verið afskaplega áhugasamur um gönguferðir á hana á þessum tíma.
Hér er svo afraksturinn. Efsta myndin er tekin í júlí 1983 í fjörunni við Seltjarnarnes. Esjan var þá hvítflekkótt og þannig þekkir nú engin hana að sumarlagi. Gunnlaugsskarð var hvítt og skaflinn við Kerhólakamb á sínum rótgróna stað. Ég á aðra mynd sem tekin var í lok júní á þessu ári og þar fer ekkert á milli mála að Esjan er fastheldin á snjóskafla.

Næsta mynd var tekin úr Hallgrímskirkjuturni í byrjun september á sama ári. Hún hefur hrist af sér mestan snjóinn en engu að síður eru skaflar í Gunnlaugsskarði eins og vera ber og greina má skafl í Kerhólakambi.
Þriðja myndin er tekin við Laugarnes í lok júní 1985. Myndin er sláandi lík fyrstu myndinni, þeirri sem tekin var tveimur árum fyrr, þó er aðeins minni snjór í fjallinu.

Líklega get ég fundið fleiri myndir sem ég hef tekið af Esju, en er ég var að velta því fyrir mér mundi ég eftir myndunum sem faðir minn, Sigurður Skúlason, hafði tekið. Hann hafði víða farið og tekið myndir og sumar myndirnar eru bara ansi góðar og áhugaverðar heimildir um byggingasögu borgarinnar.
Fjórðu myndina tók faðir minn úr hálfbyggðum turni Hallgrímskirkju. Fyrir neðan er verið að byggja Iðnskólann og dráttarbáturinn Magni er á leið út á Sundin.
Fimmtu myndina tók faðir minn af gamla Útvegsbankanum. Horft yfir svæðið þar sem nú stendur tónlistarhúsið Harpan, tómur grunnur fyrir hótel, Seðlabankinn og fleira. Sannarlega fróðleg mynd enda mikið athafnalíf á þessum slóðum.
Ekki veit ég nákvæmlega hvenær myndirnar tvær voru teknar. Gæti trúað því að það hafi verið um mitt sumar 1966.
Hið merkilegasta við þær er að þeim sjást aungvir skaflar í Esjunni. Skannaði ég þó myndirnar mjög nákvæmlega. Myndirnar eru stækkanlega ef áhugi er fyrir því að skoða þær nánar.
Sem sagt aungvir skaflar 1966, fullt af sköflum 1983 og 1985 og hingnandi skaflabúskapur 2012.
Ekki ætla ég að draga endanlega ályktun af þessum myndum enda varla mögulegt. Hitt er þó ljóst að hitastig að sumarlagi hefur verið ákaflega mismunandi allt frá því að við fórum að góna á Gunnlaugskarð og Kerhólakamb sem endanlega sönnun um hitastig á suðvesturhorni landsins. Líklega liggur lausnin falin í veðurfarslegum gögnum frá því 1966 eða þar um bil.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2012 kl. 00:38 | Facebook
Athugasemdir
Sæll. Þetta eru alveg frábærar myndir sem hægt er að stúdera fram og aftur. Merkilegt að sjá myndirnar frá 1983 sem eru teknar eftir kaldan og snóþungan vetur en sumarið var alveg annálað leiðindasumar. Apríl það var sá kaldasti síðan 1920.
Það verðist vera vafi á því hvort síðasti skaflinn hafi alveg horfið árið 1966 en síðustu myndirnar benda þó til þess, hafi þær verið teknar það ár. Árið 1964 hurfu þeir hinsvegar snemma eftir mjög hlýjan vetur. Eftir það hófst kuldaskeiðið sem stóð til árins 1995 en á því tímabili hurfu ekki skaflar fyrr en árið 1998 og svo öll árin eftir 2001 nema í fyrra þegar herslumuninn vantaði.
Svo má benda á fróðlega grein á Veðurstofuvefnum eftir Pál Bergþórsson, Fannir í Esju mæla lofthita, þar sem er mjög góð útlistun þessu: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2068%20%20
Emil Hannes Valgeirsson, 16.8.2012 kl. 10:22
Bestu þakkir fyrir innlitið, Emil. Bjóst fastlega við að þú myndir geta varpað einhverjum ljósi á myndirnar. Eins og fram kemur í pistlinum er ég ekki alveg viss um hvenær pabbi tók þessar tvær síðustu myndir, bara ágiskun hjá mér. Mér sýnist að á myndinni sé Kjörgarður í byggingu, hann var byggður 1959 og síðar, líklega 1964, var fjórðu hæðinni bætt við. Þar með getur ártal myndarinnar verið komið.
Ég man þokkalega eftir sumrinu 1983 en veðrinu hef ég gleymt eins og oftast. Þegar ég skoða myndir frá þessu sumri finnst mér ekkert óvenjulegt í fljótu bragði. Fór til dæmis um miðjan júní í flug um Suðurland með þeim ágæta ljósmyndara Birni Rúrikssyni. Þegar ég skoða þær myndir kemur í ljós talsverður snjór víðast á fjöllum. Hekla í miðjar hlíðar, mikill snjór sunnan Landmannalauga. Þá fór ég að skoða aðrar myndir nánar. Í seríu frá Heiðmörk um miðjan júlí sýnist mér gróður ekki mjög gróskulegur, rétt eins og kuldatíð hafi seinkað vexti. Snjóflekkir í Bláfjöllum og enn meiri í Hengli. Já, líklega var sumarið 1983 bara frekar kalt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.8.2012 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.