Lúpínan hörfar í Heiðmörk
14.8.2012 | 11:26
Alltaf finnst mér jafnundarlegt hversu auðvelt er að búa til vandamál. Upp á síðkastið hefur til dæmis verið mikið agnúast út í lúpínuna, hún sé eiginlega vágestur í íslenskri náttúru. Umræðan minnir mann stundum á heiftina sem var stundum vegna grenitrjáa sem gróðursett voru fyrir meira en eitthundrað árum innan þjóðgarðisins á Þingvöllum. En það er nú annað mál.
Ekki eru þó allir á einu máli um lúpínuna og eiginlega verst að við leikmenn vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga.
Það sem hefur valdið vonbrigðum með þessa plöntu er að menn héldu fyrst í stað að þessi planta myndi bara bæta jarðveginn og svo myndu bara aðrar plöntur taka við og hún myndi fara sem hefur ekki verið raunin. Hún hefur bara styrkst og eflst og dreifst mun víðar en menn kannski áttuðu sig á fyrst.
Þetta segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðstjóri náttúruauðlindasviðs Umhverfisstofnunar á vef Ríkisútvarpsins í dag.
Í Heiðmörk ofan Reykjavíkur var lúpína gróðursett fyrst árið 1959. Ágúst Bjarnason ræddi stuttlega um lúpínuna á heimasíðu sinni í byrjun ársins. Hann segir:
Lúpínan er einstaklega öflug landgræðslujurt, en er umdeild. Sumir líkja henni við illgresi og aðrir við þjóðarblómið. Hún er vissulega ágeng og fyrirferðarmikil, en hvernig hagar hún sér?
- Hörfar hún af þeim svæðum sem hún hefur lagt undir sig og víkur fyrir öðrum gróðri?
- Hefur hún tilhneigingu til að fara inn á gróin svæði?
Svo vísar Ágúst í grein eftir Daða Björnsson, landfræðing, sem ritaði á vef Skóræktarfélags Íslands. Þessi grein finnst mér stórmerkileg og í henni segir Daði:
Vegna heitrar umræðu um kosti og galla lúpínunnar að undanförnu hafa ýmsir skorað á mig að endurtaka rannsóknina [frá 1990] og meta breytingar á útbreiðslu lúpínunnar á gamla rannsóknarsvæðinu á þeim tuttugu árum sem liðin eru. Til að koma til móts við þessar áskoranir kortlagði ég hluta af gamla rannsóknarsvæðinu á ný sumarið 2010. Þessa nýju kortlagningu bar ég síðan saman við fyrri niðurstöður og kannaði hvaða breytingar hafa orðið.
Og niðurstöður Daða eru nokkuð athyglisverðar miðað við þann ofsa sem umræðan um lúpínuna virðist stundum haldinn.
Lúpínan hefur því hörfað af helmingi þess lands sem hún hafði áður myndað þéttar breiður á og þróunin, sem sást í eldri rannsókninni, hefur greinilega haldið áfram.
Og síðar segir hann:
Ef gengið er um svæðið í dag er erfitt fyrir óvant auga að greina hvað var melur eða gróðurtorfa áður fyrr. Sjálfsagt hugsa margir sem þarna fara um hve ágeng lúpínan er í vel grónu landi en átta sig síður á því að þar er hún að láta undan. Landið sem lúpínan skilur eftir sig er gras og blómlendi með um það bil 10 cm þykku moldarlagi ofan á gamla melnum. Ég ætla að láta aðra um að lýsa einkennum landsins nákvæmlega, hugsanlega gæti það verið áhugavert verkefni fyrir áhugasaman náttúrufræðing.
Í þessum orðum kveður við allt annan tón en hjá sviðstjóranum hérna fyrir ofan. Í Heiðmörk virðist lúpínan gera það sem í upphafi var spáð, hún myndi um síðir víkja fyrir öðrum gróðri.
Í þessu máli er þó varla neinn einn sannleikur og ekki ætla ég af vanþekkingu minni að taka afstöðu til lúpínunnar. Hins vegar finnst mér hún alveg einstaklega falleg og fara víðast ákaflega vel í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Æ hún er svo sem ágæt lúpínan á einstaka stað svo sem í útjaðri bæja þar sem mikill gróður er fyrir sem getur tekið veitt henni samkeppni. En alveg agalegt finnst mér að sjá lúpínuna breiða úr sér í stórum stíl á auðnum landsins. Mér finnst lúpínan þar nánast eins og veggjakrot í landinu. Auðnirnar eru eitt af því gerir landið sérstakt og verðmæti sem þarf að passa upp á. Fyrir utan það að land sem grær upp af sjálfsdáðum án sáningar og plöntunar er alltaf eðlilegast.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.8.2012 kl. 12:54
Lúpínan er alveg stórkostleg jurt sem á það til að hörfa þegar hún er búin að mynda næringarríkan jarðveg á örfoka landsvæði svo að aðrar jurtir sem ekki gátu þrifist vaxa nú og dafna. T.d sandarnir fyrir austan þar sem ekki var þorandi að keyra yfir ef hreyfði vind, þ.e ef manni þótti vænt um lakkið á bílnum.Núna keyrir maður yfir sandana þar sem fagurbláir akrar skarta sínu fegursta.
við fussum nú bara á blómarasistana
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.8.2012 kl. 20:23
Ég hef tekið eftir því að rollur éta lúpínuna, þar sem girðing er lúpínan friðarmegin en sést ekki beytarmegin.
Þetta sést vel td. kringum sumarhúsabyggðina í Grafningi.
Jónas Jónsson, 15.8.2012 kl. 09:34
Góð samlíking Emil. Þetta er eins og veggjakrot í náttúrunni þar sem hún á ekki við. Hún er eflaust góð til uppgræðslu þar sem enginn gróður er fyrir, en að sjá hana leggja undir sig lyng og annan fjallagróður er sárgrætilegt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.8.2012 kl. 10:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.