Önugur Eiður skammast
9.8.2012 | 12:22
Eiginlega er hægt að fyrirgefa allt í netheimum nema önuglyndi. Hins vegar má hafa gaman af slíkum enda er það ekki skilyrði að kátt og hresst fólk hafi eitt rétt fyrir sér. Og eitthvað má nú á milli vera.
Oft les ég málfarspistla Eiðs Guðnasonar, fyrrum þingmanns, ráðherra og sendiherra, með mikilli athygli. Oft leiðist mér þegar hann leiðist út í að kasta skít í þá sem hann er í nöp við. Í dag hnýtir hann í þul Ríkisútvarpsins:
Molaskrifari fylgdist með úrslitum 100 metra spretthlaups karla á OL á BBC. Sá svo þennan sama atburð endursýndan í Ríkissjónvarpinu (06.08.2012). Það var eiginlega hálf óhugnanlegt að heyra gargið í íslenska þulnum.
Hann kýs að kalla lýsinguna garg. Þulurinn hefur þó fengið einróma lof fyrir lýsingar sýnar og þekkingu á svo til öllum íþróttagreinum er hann kemur nálægt.
713.000 lítrar láku út, segir í fyrirsögn á mbl.is (07.08.2012) Fréttin var um áfengissölu fyrir verslunarmannahelgina. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið?
Persónulega hefði ég skipt út sögninni að leka og sett í staðinn þá að streyma. Í raun er þetta hin prýðilegasta fyrirsögn. Eiður hefur þó engan skilning á gerð fyrirsagna, hann starfaði lengst af við útvarp og sjónvarp. Og þó svo að þetta sé léleg fyrirsögn, sem vel má vera, takið eftir orðalaginu hjá Eiði. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið? Þetta er bráðfyndið, hann er eins og fúll kall sem skammast út í litlu strákana sem missa fótboltann sinn yfir í garðinn hjá þeim leiðinlega.
Veröldin er lífleg og skemmtileg en Eiður skilur ekkert í því heldur skammast og reitir hár sitt.
Svona dettur af og til inn í pistlana hjá Eiði, gerir þá auðvitað skemmtilegri aflestrar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég setti einu sinni út á pistil Eiðs, nokkrum misserum síðan,en hann tók því afar vel og viðurkenndi að honum varð á.
Helga Kristjánsdóttir, 9.8.2012 kl. 19:28
Það mælir með manninum, Helga.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.8.2012 kl. 20:47
Talandi um að vera önugur þá finnst mér ekki mikill munur á ykkur í þessum pistli þínum.
Það má líka kalla það stílbrigði sem hann notar og stundum er öflugra að vera önugur til að fá athygli, og það virðist honum hafa tekist. Það eru jú marklaus skrif sem eigi bíta.
Gylfi Gylfason, 10.8.2012 kl. 00:13
Þulir sjónvarpsins á ólympíuleikunum eru allir alveg frábærir! Ekki mikið þó þeir lifi sig inn í keppnina.
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.8.2012 kl. 01:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.