Stórkostlegir Ólympíuleikar

Í stað þess að flækjast um fjöll og hafa það skemmtilegt með góðu fólki um verslunarmannahelgina var ég heima. Lá flatur með einhverja hitasótt, nær dauða en lífi í marga sólarhringa. Ójá, þetta voru mikil veikindi og skiptir engu þó þeir sem til þekkja hlægi að mér og haldi því fram að ég hafi einungis þjáðst af léttvægri flensu ...

Hvað sem því líður þá horfði ég dálítið á viðburði á Ólympíuleikunum í sjónvarpinu þegar ég mátti vera að því í dauðateygjum mínum. Og mikið svakalega er gaman að þessum viðburði. Skipulagning Bretanna er frábær, myndatakan framúrskarandi góð og myndefnið, maður lifandi. Allt þetta glæsilega unga íþróttafólk sem kemur í þeim tilgangi að vera með, skara framúr og setja met.

Og ríkissjónvarpið á skilið hól fyrir góða þuli. Held að handboltaleikjum hafi aldrei nokkru sinni verið lýst jafn vel og af eins mikilli yfirvegun. Sama er með aðrar greinar. Lýsingarnar eru lifandi og skemmtilegar og ekki spillir fyrir skrækur aðstoðarþulurinn í frjálsu íþróttunum sem með áhuga sínum og innlifinu grípur mann með. Hann hefur einstaklega góða innsýn í allar greinar og getur bætt við fjölda upplýsinga, t.d. um kalk og klísturnotkun stangastökkvara, „svif“ á hlunki sem nefndur er kringla og svo framvegis. 

Ég hef líka horft á útsendingar nágrannaþjóðanna frá leikunum og held að þar beri af umfjöllun Norðmanna. 

Sigurvegarar taka misjafnlega við verðlaunum sínum. Í gær hágrét gullhafinn í grindahlaupi er hann fékk verðlaunin afhent þannig að maður komst jafnvel við ... Aðrir standa hnarreistir og horfa á fána sína rísa að húni.

Vonandi eigum við eftir að fá sigurvegara í handboltanum. Ég spái gulli ... 

Ólympíuleikarnir eru stórkostleg skemmtun sem ég hefði áreiðanlega misst af hefði ég ekki verið svo heppinn að veikjast ... eða þannig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband