Svindlað á komandi kyslóðum

Þeir risu skyndilega upp á afturlappirnar andstæðingar Sjálfstæðisflokksins þegar formaður hans lýsti því yfir í útvarpsviðtali að skera þyrfti alls staðar niður í ríkisrekstrinum og væri ekkert undanskilið. Þarna héldu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímir J. Sigfússon að þau hefðu fengið ástæðu til að mikla eigin árangur og berja á íhaldinu.

Þau eru þó orðin nógu sjóuð í stjórnsýslunni að þau vita að Bjarni hafði rétt fyrir sér enda skóluð til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og útskrifuð með láði í niðurskurði ríkisrekstrar, uppsögnum fólks í stjórnsýslunni og leggja niður vænlega byggðastefnu af því hún er svo „dýr“.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann sýnir fram á að útgjöld hins opinbera hafi þrefaldasta að raunvirði frá 1980, mælt á verðvísitölu landsframleiðslu.

Árið 1980 voru útgjöldin 1,1 milljón króna á hvern Íslendinga en tæpar 2,4 milljónir á síðasta ári.

Meginreglan hefur verið sú að útgjöld hins opinbera hafi verið hærri en tekjur eða í 22 ár af 32 frá árinu 1980. Samtals nemur hallinn rúmlega 525 milljörðum króna. Þennan halla verða skattgreiðendur framtíðarinnar að greiða með einum eða öðrum hætti. Í raun er hallinn enn meiri því með skipulegum hætti hafa ýmsar skuldbindingar verið faldar og það sem er verra; skatttekjur framtíðarinnar verið færðar til að standa undir rekstri samtímans líkt og gert var þegar samið var við álfyrirtækin um fyrirframgreiðslu skatta. Þannig er verið að svindla á komandi kynslóðum.

Þetta eru sláandi ummæli en í flestum tilfellum sannleikurinn er ósköp einfaldur. Á Íslandi búa ekki þrjár milljónir manna, þrjátíu eða þrjúhundruð, við verðum að skilja það. Og Óli Björn segir:

Sú stund er fyrir löngu runnin upp að almenningur átti sig á því að Íslendingar hafa ekki efni á að reka það umfangsmikla kerfi sem byggt hefur verið upp á umliðnum áratugum. Liðlega 300 þúsund manna þjóð hefur ekki efni á því að halda úti 15 sendiráðum eða halda úti fjölmörgum eftirlitsstofnunum, sem eru sumar hverjar a.m.k. í besta falli óþarfar. Íslendingar hafa ekki efni á því að halda úti flókinni og fjölmennri stjórnsýslu en reyna á sama tíma að tryggja gott heilbrigðiskerfi.

Um þetta hef ég nokkuð ritað á þessari síðu. Ég get ómögulega séð að þjóðin geti haldið úti stjórnsýslu eða kerfi sem standist að öllu leyti öðrum og fjölmennari ríkjum snúning. Við eigum einfaldlega að forgangsraða og skipuleggja kerfi sem er í senn gott og gefandi fyrir almenning og um leið hvetjandi fyrir fólk að sinna því sem hið opinbera getur ekki staðið í. Menntun og heilbrigðismál er til dæmis höfuðatriði. Staðan er sú að við þurfum að velja á milli fjölmargra þátta eins og Óli Björn segir. Er til dæmis eitthvað vit í að halda úti fimmtán sendiráðum þegar árlega þarf að endurnýja tækjabúnað heilbrigðisstofnana en ekki finnst fjármagn til þess? 

Ríkisstjórnin fann peninga til að halda stjórnlagaþingskosningar, halda svo að málum að tvisvar þurfti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og framundan er eitthvað fyrirbæri sem sumir nefna þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Er nú nokkur furða þó maður spyrji hvort ekki sé tími kominn til að forgangsraða því litla fjármagni sem kemur af sköttum landsmanna.

Í lok greinar sinnar segir Óli Björn og ættu nú flestir að geta tekið undir með honum, hvar í flokki sem þeir standa.

Þeir sem veljast til setu í sveitarstjórnum eða á Alþingi eru trúnaðarmenn almennings – gæslumenn sameiginlegra fjármuna landsmanna. Þeim ber því að gæta aðhalds og verja fjármunum af skynsemi. Þeir eiga að gera allt til að koma í veg fyrir að eyðsla samtímans kalli á aukna skattheimtu og lakari lífskjör í framtíðinni. Metnaðurinn á að vera sá að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir en skilja ekki eftir reikninginn. Þess vegna eiga stjórnmálamenn samtímans að strengja sameiginlegt eitt heit: Okkar arfleifð verður aldrei sú að hafa veðsett framtíð afkomenda okkar. 

Ég vil bara bæta því við hér í lokin að annað sameiginlegt heit mætti allt eins vera á þá lund að umgegnin við land og náttúrugæði má aldrei vera slík að hún sé óafturkræf. Afkomendur okkar eiga allt eins rétt á því landinu og gæðum þess eins og núlifandi kynslóðir. Þetta er mér gríðarlega mikils virði.


mbl.is Óli Björn Kárason: Á kostnað komandi kynslóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband