Kerlingin gat ekki Kerlingar aðeins Haraldar

Mbl Haraldur

Segja má að ég sé í aðdáendaklúbbi Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings, í Stykkishólmi. Ekki aðeins myndum við teljast sveitungar, báðir fæddir þarna, þó talsverður sé aldursmunurinn, heldur er áhugi beggja á landinu gríðarlegur. Þar með lýkur samanburðinum. Hann er virtur fræðimaður í jarðvísindum og víðfarinn og virtur en ég er bara að krafsa hér heima án nokkurrar stefnumörkunar.

Jæja. Í Mogganum í morgun birtist viðtal við Harald, ágætt viðtal, svo langt sem það nær. Eiginlega fannst mér það ekki nógu gott, heldur stutt og ómarkvisst. Þó tók hún Kolbrún Bergþórsdóttir það og yfirleitt er fátt upp á hana að klaga í blaðamennskunni. Ég get samt ekki orða bundist, allt þó í góðu þrátt fyrir fyrirsögnina hér að ofan sem mér finnst bara nokkuð skondin.

Meðfylgjandi er blaðsíða með mynd og texta frá viðtalinu. Alveg stórkostleg mynd. Og hver skyldi myndatextinn vera: „Hluti af rútínu minni er að fara út klukkan sjö á morgnanna og upp í fjöllin.“

Er hægt að birta nærmynd af einu merkilegasta fyrirbrigði íslenskrar náttúru, því sem á uppruna sinn í mörgum þekktum þjóðsögum og hefur gnæft yfir vegarendum allan þann tíma sem þjóðleið lá yfir Snæfellsnesfjallgarð, án þess að geta þess í myndatexta?

Auðvitað er þetta Kerlingin sem gnæfir fyrir ofan skarðið sem dregur nafn sitt af henni. Um Kerlingarskarð lá þjóðvegurinn í tugi ára og víst að flestir sem áttu leið þarna um gutu augunum upp til Kerlingarinnar, stundum með óttablöndnum áhuga.

Enginn hjónasvipur er með Haraldi og Kerlingu á myndinni, þrátt fyrir menntun sína alla, frægð og frama er hann bara sem lítið peð. Og svo er um okkur hina líka. Víst er að einn daginn ætla ég að banka upp á hjá Haraldi og fá að fara með honum upp í fjöllin.

En hér er sagan um Kerlinguna í Kerlingarskarði. Af henni er enn fleiri útgáfu og tengingar. Látum þessa þó nægja. 

Kerlingin lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hafði hún með sér hest og á honum klifjar með skyrtunnu og heysátu, sumir segja að hún hafi einnig haft með sér hafur. Kerlingin var nokkuð sein til ferðarinnar og varð að flýta sér nokkuð. Þegar kerlingin var komin áleiðis vestur fjallgarðinn á móts við Ljósufjöll losnaði sátan af klifjunum og varð eftir þar sem nú heitir Sátan. Kerling brá þá á það ráð að hanga sjálf í klifjunum á móti tunnunni. Hesturinn þreyttist nú fljótt og gafst að lokum upp þar sem Hesturinn er nú. Kerling ætlaði þá að bera tunnuna sjálf en gafst upp og skildi hana eftir þar sem Skyrtunnan er nú. Hafurinn gekk með Kerlingu en hún var á mikilli hraðferð þar sem brátt myndi dagur rísa og skildi hafurinn eftir í fjallinu sem nú er þekkt sem Hafursfell

 Þegar Kerlingin var komin þangað sem nú er Kerlingarskarð ætlaði hún að stökkva yfir skarðið en þurfti að bíða því menn voru í skarðinu. Sumir segja að þar hafi Þangbrandur eða aðrir kristnir menn verið á ferð að boða kristni og hafi hitinn verið svo mikill að Kerling gat ekki stokkið yfir áður en sólin kom upp og varð því að steini. Einnig er sagt að ferðamaður hafi verið þar og sagt: "líttu í austur kerling" í þann mund er sólin kom upp og hafi kerlingin orðið að steini. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband