Eiður Guðnason missir stjórn á sér vegna joðs
12.7.2012 | 13:27
Hann Eiður Guðnason, fyrrum sendiherra, ráðherra og alþingismaður, dundar sér við að skrifa á heimasíðu sína um málfar í fjölmiðlum. Og gerir það vel, svona efnislega.
Hins vegar hefur hann skrýtinn ritstíl. Best að lýsa honum þannig að hann sé önugur, fúll á móti. Hranlegur og leiðinlegur stíll mannsins gerir það að verkum að ég nenni sjaldnast að lesa skrifin eftir Eið, þó ég hefði nú gott af því (svona efnislega).
Hvað um það. Ég álpaðist til að lesa einn pistil eftir Eið og í honum stendur meðal margs annars (feitletrunin er mín):
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins náði nýjum botni í skrifum sínum á miðvikudag (11.07.2012). Djúpt var niður á botninn áður. Enn dýpra nú. Hann skrifar um umfjöllun Styrmis Gunnarssonar um Steingrím J. Sigfússon ráðherra og segir: Veit Styrmir ekki hvað J. í nafninu stendur fyrir? Júdasartilvísunin æpir á lesandann. Verri getur nokkur maður varla verið en svikarinn Júdas. Áhangendur Morgunblaðseigenda og skrifara nota gjarnan nasistatilvísanir og tala um föðurlandssvikara þegar rætt um þá sem styðja Evrópusamstarfið. Nú hefur nýr maður verið leiddur til leiks á síðum Moggans, svikarinn Júdas. Svona hefði Matthías aldrei skrifað, ekki Styrmir heldur. Þetta er heldur ógeðfellt.
Þetta minnir mig á manninn sem saknaði 5.000 króna seðilsins. Hann leitaði í öllum vösum og litaðist síðan um í herberginu þar sem nokkrir menn voru auk hans. Gekk síðan á hvern og einn og ásaskaði um stuldinn. Allir báru þeir af sér sök og tóku í raun áburð mannins óstinnt upp.
Sá var nú orðinn sannfærður um að einhver hefði stolið frá sér og stakk höndum í vasann, þungbrýnn mjög og horfði morðaugum á félaga sína. Örskömmu síðar birti yfir honum er hann dró seðilinn upp úr vinstri buxnavasa sínum. Og af barnslegri gleði hrökk út úr honum: Ó, hérna er hann þá. Svo hélt hann áfram við störf sín og skeytti engu þó hann hafði fyrir örfáum mínútum ásakað samstarfsmenn sína um þjófnað.
Sama er með Eið Guðnason, þann besservisser. Hann er svo illa að sér eða bráður nema hvort tveggja sé, að hann stekkur upp með hinn eina og sanna skilning á ómerkilegu joði og fimbulfambar um Júdas, nasisma og föðurlandssvik. Ekki dettur honum í hug að höfundur Staksteina hafi einfaldlega átt við að joðið í millinafni Steingríms J. Sigfússonar, allsherjarmálaráðherra, gæti staðið fyrir upphrópuninni JÁ. Já ESB aðild.
Eins og maðurinn í sögunni þá mun Eiður ábyggilega tauta í barm sér: Ó, átti höfundurinn við það. Og svo heldur Eiður áfram aðfinnslum sínum, eða öllu heldur önugu nöldri sínu, rétt eins og ekkert hafi í skorist. Þykist engum skulda afsökunarbeiðni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:37 | Facebook
Athugasemdir
Eiður hefði mátt nota gæsalappir í sinni tilvísun til að gera þetta skiljanlegra en mér sýnist það vera Eiður en ekki Staksteinahöfundur sem notar orðið "Júdasartilvísun".
Hinsvegar finnst mér ekki ólíklegt að Staksteinahöfundur sé þarna með ósmekklegum hætti að vísa í Júdas eins og Eiður bendir á, en Staksteinahöfundur er sennilega það sjóaður á ritvellinum að hann gefur hluti í skyn frekar en að láta hanka sig á smáatriðum.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.7.2012 kl. 15:33
Fyndið með aumingja Eið. Fyrir nokkrum árum móðgaðist hann svo út í Moggann að hann sagði honum upp eftir áratuga áskrift og hætti að blogga þar. Ég bloggaði þá um það að það væri engin hætta á að Eiður myndi hætta að lesa Moggan sinn, hann myndi einfaldlega færa áskrift sína yfir á eiginkonuna. Nú hefur það sannast: Eiður les Moggann !
Örn Johnson, 12.7.2012 kl. 18:38
Held, Emil, að stundum fari menn flatt á því að reyna að finna dýpri skilning en efni standa til í einföldu máli. Það gerir þessa upphrópun Eiðs enn kómískari en ella. Kannski ekki í fyrsta sinn hjá honum, eins og Örn bendir á. Eiður les Moggann en því miður með raungum gleraugum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.7.2012 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.