Er það lausn að kippa lýðræðinu úr sambandi?

Eitt af því merkilegasta sem ég las í morgun var eftirfarandi á vef Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Evran gerir þjóðir gjaldþrota vegna þess að efnahagsleg mistök fá ekki leiðréttingu í gengi gjaldmiðilsins. Spánn getur ekki af eigin rammleik komið sér út kreppunni þar sem eina raunhæfa útgönguleiðin, gengisfelling, er lokuð.

Innri gengisfelling, þ.e. niðurfærsla launa og verðlags, tekur mörg ár að framkvæma. Forsenda innri gengisfellingar er að samstaða sé um það að þjóðin lifi um efni fram. Slík samstaða er nær ómöguleg því ólíkir þjóðfélagshópar ná ekki saman um slíka greiningu. Lýðræðislegar kosningar eru ekki til þess fallnar að leiða fram sameiginlega niðurstöðu.

Til að verja evruna verður að kippa lýðræðinu úr sambandi, líkt og gert var í Grikklandi - eins og Gavin Hewitt hjá BBC bendir á. 

Ríki gera vissulega mistök í efnahagsmálum sínum en oftar en ekki er alþjóðlegt umhverfi síst af öllu hagstætt rekstri þess. Ekki þurfa mistök að koma til, síður en svo. Rétt eins og hér á landi er það lífsnauðsynlegt að eiga möguleika á að leiðrétta gengi gjaldmiðilsins.

Margir andstæðingar krónunnar benda á að gengi hennar sé nú aðeins brot af virði hennar frá upphafi. Þetta er auðvitað í eðli sínu rangt vegna þess að gengið endurspeglar yfirleitt stöðu gjaldmiðilsins á hverjum tíma. annað eru bara einfaldara reikningsæfingar. Í tugi ára voru nær einu gjaldeyristekjur þjóðarinnar af sölu sjávarafurða, þær héldu þjóðinni á floti. Umhverfið var síður en svo auðvelt eða einfalt. Aflabrögð gátu verið mismunandi og einnig markaðir erlendis. Hvort tveggja leiddi til breytinga á gengi krónunnar. Hvað annað?

Ljóst má vera að komist einstök ríki í vanda með efnahagsmál sín þá geta þau stærri gert það líka sem og ríkjabandalög. Evrópusambandið og Evran eru ekki undanskilin. Vandinn er bara sá að einfaldara ætti að vera að stýra íslenskum efnahagsmálum en þeim þar sem tuttugu og sjö ríki koma saman með tuttugu og sjö eða fleiri kröfur um úrlausn mála. Má vera að slíkt sé vonlaust verkefni og því einfaldast að kippa lýðræðinu úr samanbandi og láta stjórnina kommiserunum í Brussel eftir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband