Þegar vindgreipin varð að golugreip

920430-274 - Version 2

Fyrir um tuttugu árum gengum við fjórir félagar frá Goðahnúkum í norðausturhluta Vatnajökuls og suðvestur í Öræfajökul og þar niður. Þessi ferð rifjaðist upp fyrir mér um daginn er ég skannaði inn á tölvuna mína þrjú hundruð og sextíu myndir úr ferðinni.

Meðferðis höfðum við sérhannað segl sem er ákaflega líkt fallhlíf en var ætlað til þess að láta vindinn draga sig á skíðum. Í orðfátt þess tíma var seglið kallað „fjallhíf“ og skýringin var sú að með þessu segli mátti nota byr til að komast upp á fjöll. Mér þótti orðið hins vegar kauðslegt og þar sem enginn vildi kalla þetta segl kom ég með hið fagra nýyrði „vindgreip“. Náði það strax miklum vinsældum meðal okkar fjögurra og engra utan þeirra.

920430-275 - Version 2

Jæja, víkur nú sögunni að ferðinni. Við voru komnir úr skála Jöklarannsóknarfélagsins í Esjufjöllum og runnum sem leið lá sunnan undir Mávabjörgum og stefndum á Öræfajökul. Brá svo við að austlægur vindurinn tók að blása allhressilega. Við drógum því upp okkar ágætu vindgreipar upp og hugðumst nýta okkur byrinn.

Til að byrja með komumst við líklega tvo kílómetra en þá lægði og loks datt á dúnalogn. Við vildum ekki trúa því og stóðum því albúnir að grípa vindinn sem hugsanlega myndi bjóðast. Biðin var löng og einn félaga minna gleymdi sér eitt augnablik, var líklega að fá sér kaffi í rólegheitunum, er vindsveipur hirti greipina og einn skíðastaf sem hann hafði brugðið í böndin úr henni.

920430-276 - Version 2

Þó vindurinn væri ekki mikill dugði stafurinn til þess að opna hana og okkur til mikillar skelfingar sigldi þetta fyrirbrigði þannig niður Breiðamerkurjökul. Félagi minn (vil ógjarnan nefna nafn hans því enn skammast hann sín fyrir atvikið) gafst fljótlega upp á að eltast við vindgreipina. Ég hljóp auðvitað af stað og fram úr honum Óla (... jæja, þarna kom nafnið - alveg óvart!) og var nærri búinn að ná henni er aðeins bætti í vindinn, nóg til þess að ég þurfti að lúta í lægra haldi. Hvarf svo vindgreipin sjónum okkar og sáum við hana aldrei aftur.

Ég gekk nú til baka og saman réðum við ráðum okkar. Við höfðum varaskíðastaf svo engin vandræði hlutust af tapi þess sem ferðaðist með vindgreipinni.

920430-311 - Version 2

Gengum við svo upp á Öræfajökul. Um það bil tveimur klukkustundum síðar var ég orðinn gjörsamlega kraftlaus, skildi ekkert í að félagar mínir voru enn í fullu fjöri. Það var ekki fyrr en liðið var á kvöld og við búnir að tjalda að við áttuðum okkur á því að ég hafði líklega gengið fjórum kílómetrum lengra en allir hinir í eltingaleiknum við vindgreipina og eytt dýrmætri orku sem hinir áttu enn til góða.

Að lokum má geta þess að fyrst vindgreipin stóð ekki undir nafni og iðulega þurftum við að bíða eftir byr þá ákváðum við að skipta um nafn og kalla þennan andskota golugreip, og er ekki sæmdarheiti. 

Myndirnar tók ég þegar þetta gerðist. Á þeirri fyrstu er allt í blússandi gangi. Á næstu mynd virðist allt ætla að ganga vel og á þeirri þriðju standa menn eins og illa gerðir hlutir á jöklinum og bíða byrs. Í baksýn er Öræfajökull og þar ber mest á Þuríðartindi, einstaklega fallegum gígtappa (held ég).

Fjórða myndin er af sjálfum mér nálægt Þuríðartindi. Held að ég hafi gefið henni systur minni, Þuríði, myndina, svona vegna nafnsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband