Viðbjóðslegt er karlmaður grætur

Fjör og mikil skemmtun er af Evrópumótinu í fótbolta sem haldið er í Póllandi og Úkraínu. Kemur þar margt til. Þjóðverjar leika fínan fótbolt, Danir eru ekki alveg með sjálfum sér, Hollendingar eru frábærir en fúlir og hrokafullir og eiga því ekkert erindi áfram. Úkraínumenn koma á óvart, Rússar líka, Frakkar valda vonbrigðum sem og Svíar, Grikkir leika með þjáningu, og Portúgalir geta ekkert ef Ronaldo er haldið niðri sem að vísu er afar erfitt.
 
Væntingarnar til enska landsliðsins eru eins og til íslenska lagsins á Eurovision, ávísun á tóm vonbrigði. Þó tvær efstu deildirnar á Englandi séu með þeim skemmtilegustu í heimi er landslið þeirra fremur svona eins og lið Hollendinga og Dana.
 
Ítalir og Spánverjar leika keimlíkan fótbolta. Hver einasta snerting verður til þess að leikmaður kútveltist í grasinu og grípur jafnan um ökkla sér oftar og skiptir engu þó honum hafi verið hrint. Svo kemur æ oftar fyrir að leikmenn leggjast flatir til þess eins að fá leikinn stöðvaðann. Það gerði sá hugumprúði Pepe um daginn, þóttist hafa verið brugðið og grenjaði og emjaði eins og íslenskur grís sem er geldur án deyfingar. Endursýning leiddi hins vegar í ljós að hann hafði fallið á eigin bragði. Að sjálfsögðu gekk hann óhaltur útaf og aftur inn á völlinn en sókn andstæðinganna hafði með þessu verið stöðvuð.
 
Einn skemmilegasti penninn á Morgunblaðinu er án efa Kolbrún Bergþórsdóttir. Hún hefur allt annan vinkil á fóboltann en við karlremburnar. Hún segir:
 
Allt bendir til þess að vandasamt verði að koma auga á flottustu lærin á EM þetta árið. Stuttbuxurnar hafa síkkað svo mjög að erfitt er að koma auga á þrekleg læri. Helst gerist það þegar leikmenn meiðast eftir spark andstæðingsins og liggja grenjandi á vellinum. Ekkert er viðbjóðslegra en karlmaður sem grætur, sagði Nóbelsskáldið okkar, mjög réttilega, en þá er bót í máli að þegar karlmenn á EM meiðast á læri þá sýna þeir meidda svæðið. Á þeim stundum horfir maður faglegum gagnrýnendaaugum á viðkomandi læri. Stundum er lærið fremur væskilslegt, en einstaka sinnum stenst það prófið og er svo pattaralegt að það er leikmanninum til mikils sóma. Læri skipta yfirleitt ekki máli í hinu daglega amstri, en fyrir áhorfanda á knattspyrnuleik sem gerir fagurfræðilegar kröfur gegna þau lykilhlutverki. 
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband