Moka, breyta, sökkva, selja ...

Með því að beisla flóð og leysingavatnið úr þessum ám og veita þeim um Hálsalón til Fjótsdals, en halda eðlilegu sumarrennsli í Dettifossi, má koma í veg fyrir það að fossinn rífi sig niður í flúðir, sem hann er nú þegar byrjaður á.  [...]

Með því að veita flóðvatninu úr Skaftá yfir í Langasjó væri komið í veg fyrir mikið sandfok og öll uppgræðsla yrði auðveldari og ýmsar sérstakar hraunmynanir myndu ekki hverfa í sandinn. [...]

Stærsta umhverfisverndarmálið er þó að nýta vatnið í Grímsvötnum til raforkuframleiðslu, en með nútímatækni má bora frá Hamrinum um 20 km að Grímsvötnum og veita vatninu um Hágöngulón. [...]

Ísland hefur lengi átt duglega og drífandi menn sem sjá engin vandamál heldur ótal verkefni. Þeir segja jafnan: „Það sem þarf að gera, verður að gera“. Á móti kemur að margir dugnaðarforkar sjást ekki fyrir, þeir ráðast á hvert verkið á fætur öðru, mokum, mokum, strákar. Verkákefð þeirra er slík að ekkert annað kemst að og þeir sem horfa á segja stundum í undrun: „Hægan nú, betur vinnur vit en strit.“

Ég játa það að ég varð dálítið hugsi við að lesa grein Ragnars Önundarsonar, viðskiptafræðings og fyrrverandi bankamanns, í Morgunblaðinu í morgun. Hann ritar um virkjunarkosti á Suðurlandi og gyllir þá allasvakalega. Í grein sinni vitnar hann í mann sem heitir Elías Kristjánsson, sem skrifaði grein í Morgunblaðið 2002. Tilvitnunin hér að framan er úr þeirri grein (leturbreytingar eru mínar).

Ekki man ég eftir þessari grein Elíasar, líklega vegna þess að hann er einn af þessum mönnum sem ég nefndi hér á undan og sést ekki fyrir, telur óþarft að velta málunum frekar fyrir sér, einhenda sér bara í moksturinn. Tæknilega er allt hægt, við getum breytt landinu. Niður með fjöllin, upp með dalina, eins og segir í sögunni.

Elías vill vernda Dettifoss fyrir sjálfum sér, nokkuð sem fæstir geta mögulega tekið undir. Auðvitað eru verk nátturunnar hálfónýt, allt að hrynja, fjöll og hamrar, en það er hægt að laga með slatta af steypu, lími og teipi. Hversu mikils virði eru þá náttúruminjar eftir að maðurinn hefur „lagfært“ þær?

Tæknilega séð ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að láta vatnið úr Skaftá renna upp í móti, en eins og allir vita liggur Langisjór hærra. En viljum við það? Viljum gjörbreyta þessu einstæða vatni, gera það að miðlunarlóni?

Fær nú ekkert að vera í friði, dettur manni í hug, varðandi hugmyndina um að bora til Grímsvatna. Varla þarf mikið að ræða um þessa hugmynd, tæknilega séð er hún án efa stórhættuleg auk þess að vera illframkvæmanleg.

Ragnar Önundarson slær á svipaða strengi í grein sinni í Mogganum. Hann mærir hugmyndir Elíasar og bætir um betur, vill veita Hvíta í 30 kílómetra göngum yfir í Þjórsá, helst upp í móti, og virkja þar. Manni verður eiginlega orðfall frekar en að hugarflugið fari af stað.

Við skulum endilega virkja á Íslandi, halda áfram því starfi um ókomin ár. Gerum það hins vegar af ígrunduðu máli, hlaupum ekki til með þá glýju í augunum að hver einasta virkjun sé stórkostleg peningamaskína og verði ekki af henni séu það tapað fé.

Sá ofnotaði frasi að náttúran sé ekki tekin í arf frá forfeðrunum heldur fengin að láni frá afkomendum okkar er að mörgu leiti réttur. Það sem knýr mig áfram er sú einfalda staðreynd að ég vil geta ratað um það land sem forfeður mínir gengu um og það sem meira er ég vil líka geta sýnt barnabörnum mínum þær slóðir. Eða viljum við lesa um það á skilti að þar sem nú er tvítugt dýpi hafi afi og amma búið allan sinn aldur? 

Jú, mikil ósköp, betur vinnur vit en strit. Hugsum málið þó ekki sé fyrir aðra en afkomendur okkar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband