Alræmdur mannasættir ...
30.5.2012 | 10:15
Höfundur Staksteina Morgunblaðsins er hnyttinn í dag og kemst vel að orði. Hann ræðir um manninn sem er formaður þingflokks vinstri-grænna. Sá hefur unnið sér það helst til frægðar í starfi sínu að tala áður en hann hugsar. En í Staksteinum dagsins stendur þetta:
Hinn alkunni mannasættir Björn Valur Gíslason hefur nú kynnt sáttatillögu í atvinnumálanefnd þingsins. Sættirnar eiga að því er virðist að ganga út á að heldur færri útgerðarfyrirtæki fari á hausinn næsta árið en gert var ráð fyrir í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Litlum hluta vandans á með þessu að fresta um ár.
Á þeim tíma á að starfa veiðigjaldanefnd til að viðhalda óvissunni og freista þess að knýja fram hærri álagningu síðar.
Svona sáttatillögur geta aðeins komið frá jafn alræmdum mannasætti og Birni Vali. Aðeins sá sem efnir hvarvetna til ófriðar gæti látið sér detta í hug að sættir næðust um slíka tillögu.
Breytingartillaga Björns Vals er viðurkenning á að sjávarútvegsfrumvörp Steingríms J. Sigfússonar eru ónothæf og óboðleg eins og þeir sem umsagnir hafa veitt eru sammála um.
Slík frumvörp verða ekki nothæf við það eitt að draga fram sáttatillögu á síðustu dögum þingsins og ætlast til að hún fáist afgreidd með þeim skaða sem hún augljóslega mundi valda efnahag landsins.
Lagasetning Alþingis getur ekki verið prúttmarkaður fyrir óprúttna stjórnmálamenn. Stórkostleg hækkun skatta verður ekki skapleg við það að hækkunin kunni að vera heldur minni en óboðleg frumvörp gerðu ráð fyrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.