Málþóf, ekki málþóf eða bara málþóf
29.5.2012 | 09:28
En þessi mikla umræða á föstudag kom mér á óvart. Ef til vill fara öll mál sem komast á dagskrá í málþóf, en ég veit ekki hvort þetta var málþóf eða hvað. Það voru fleiri en stjórnarandstæðingar í þessari umræðu. Stjórnarsinnar voru það líka. Það er búið að ræða allar hliðar málsins og þá hlýtur það að ganga til atkvæða. Þá kemur vilji þingsins fram.
Þetta er haft eftir Kristjáni B. Möller, formann þingflokks Samfylkingarinnar í viðtali á bls. 2 í Morgunblaðinu i dag (leturbreytingar eru mínar).
Heldur finnst mér nú þingmaðurinn setja niður við þessi orð. Samfylkingarmenn eru orðnir svo taugaveiklaðir vegna stjórnarandstöðunnar að öll umræða er nú kölluð málþóf. Þegar Samfylkingin var í stjórnarandstöðu voru umræður yfirleitt kallaðar lýðræðislegur réttur þingmanna og forusta flokksins hafði á hraðbergi nýyrðið umræðustjórnmál. Hefur eitthvað breyst hjá Samfylkingunni í þessum efnum?
Er það svo að frumvarp sem ríkisstjórnin, framkvæmdavaldið, leggur fram á síðustu dögum þingsins, eigi að fara svo til umræðulaust í gegn? Er öll umræða málþóf? Hvað mega þá breytingatillögur við frumvörp kallast? Skemmdarverk?
Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um þann halla sem mörgum þótti á Alþingi vegna meints yfirgangs framkvæmdavaldsins. Töldu margir að efla þyrfti virðingu þingsins og stemma stigu við ágangi ráðherra.
Orð Kristjáns Möllers benda nú til þess að áður hafi ekki fylgt hugur máli hjá þeim Samfylkingarmönnum. Bara innantómt loft. Þeir eiga lýðræðishugtakið og umræðustjórnmálin, aðrir eru með málþóf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.