Getur hraun ógnað höfuðborgarsvæðinu?

heidmerkureldar

Einn af málefnalegri og betri pistlahöfundum á blogginu er Emil Hannes Valgeirsson. Í dag birtir hann hugrenningar sínar um hugsanlega Heiðmerkurelda, eldgos sem fræðilega séð gæti komið upp og valdið hraunrennsli niður í byggð á höfuðborgarsvæðinu.

Með pistlinum birtir hann kortið sem hér er til vinstri og ég leyfi mér að endurbirta hér, bið Emil að virða mér hnuplið til betri vegar. Munum að hér er aðeins um tilgátu að ræða. Eldsprungan gæti verið styttri, hún gæti legið á annan hátt og eldvirkning kann að verða slík að hraun rynni ekki úr henni allri á þann hátt sem myndin lýsir.

Með þessari umfjöllun sinni ræðir Emil þau mál sem fæstir hafa rætt og almannavarnir hafa ekki sinnt eða tjáð sig um opinberlega að neinu leyti. Þó er mikil ástæða til.

Hér eru mörg álitamál sem þarf að huga að: 

  • Mannmargar byggðir eru í rennslislínu hrauns
  • Hraunrennsli lokar leiðum út úr höfuðborgarsvæðinu
  • Fjölmargar götur lokast og hverfi geta einangrast vegna hraunrennslis
  • Rafmagnlínur, hitaveituleiðslur, vatnsleiðslur skemmast eða eyðileggjast vegna hraunrennslis, jafnvel eldsumbrota

 Ljóst er að eldgos af þessu tagi getur fræðilega gerst. Því er ástæða fyrir yfirvöld að gera ráð fyrir því sem þarf að gera til að stjórna hraunrennslinu með vatnskælingu. Það er hægt, var gert í Vestmannaeyjum. Það sem liggur beinast við er að undirbúa eftirfarandi:

  1. Verja líf og nánasta umhverfi fólks 
  2. Verja íbúðahverfi og atvinnuhúsnæði
  3. Verja veitulagnir
  4. Halda meginleiðum opnum
  5. Koma í veg fyrir að einstök hverfi eða hús króist af
  6. Koma í veg fyrir að hraunstraumar renni til sjávar í gegnum byggðirnar
  7. Hraun verður að fara suðvestan við höfuðborgarsvæðið og álverið

Síðst en ekki síst þarf að vega og meta hvort vinnandi vegur er að bjarga öllum mannvirkju eða hvort einstaka fórnir séu leyfilegar vegna heildarinnar.

Kostnaðurinn við að stýra hraunstraumnum er áreiðanlega gríðarlegur, jafnvel þó tækjanotkun og vinnutími sé ekki reiknaður til fulls.

Nú er brýnast að yfirvöld almannavarna fari í það að útbúa áætlun um það hvernig t.d. er hægt að koma í veg fyrir að hraun falli ofan í Elliðaárdal eða ofan í miðjan Hafnarfjörð. Hvernig er það gert á hagkvæmasta máta? Um leið fá tillögur til úrbóta umræðu í þjóðfélaginu og smám saman næst einhver samstaða um réttar aðgerðir. Vonandi gýs ekki áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar Hjallamisgengið myndaðist lokaðist leiðin fyrir hraunrennsli niður í Garðabæ og Hafnarfjörð.

Hins vegar er greið leið niður í Elliðavog.

Axel Einarsson gerði líkan að eldvirkni á norðurhluta svæðis, sem náði frá Krýsuvík norður í Bláfjöll fyrir almannavarnir á tíunda áratugnum.

Þeim hluta, sem ógn var af á nyrðri hlutanum, var stungið ofan í skúffu og einungis höfð æfing vegna eldvirkni á syðri hlutanum!

Ég gerði um þetta frétt, sem engu breytti um þetta, þótt ljóst væri að um væri að ræða að leiðir lokuðust út af höfuðborgarsvæðinu og heitavatns- og kaldavatnsleiðslur rofnuðu, vatnsbólin eyðilegðust og raflínur slitnuðu.

Ómar Ragnarsson, 28.5.2012 kl. 22:04

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Stutt er síðan þú skrifaðir um þetta á blogginu þínu, Ómar. Fleiri en ég hafa verið undrandi á þessu sinnuleysi. Umfjöllun Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings, og kortið hans Emils hefur vakið athygli, ef til vill þarf róttækari umfjöllun til að stjórnvöld vakni og taki til hendinni. Stærsta vandamálið er eins og þú nefnir, skemmdir á veitulögnum. Afleiðingar þess geta orðið mjög hættulegar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.5.2012 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband