Villtist fólkið á gönguleiðinni?

Kattahryggir

Fólk sem finnst á gönguleið hefur ekki villst. Það hefur haldið kyrru fyrir líklega vegna þess að það þekkti ekki framhald leiðarinnar.

Björgunarsveitarmenn voru sendir upp Hvannárgil og Kattahryggi ...“. Svo segir í fréttinni á mbl.is. Látum vera að björgunarsveitir hafi gengið upp Hvannárgil. Það er hins vegar hrikalega erfið leið og eiginlega ótrúlegt að þær skuli hafa farið hana meðan ekki var gengið úr skugga um það að fólkið væri sunnan Heljakambs.

En það er þetta með að senda menn „upp Kattahryggi“. Það á bara ekki við að taka svona til orða miðað við aðstæður. Kattahryggir eru að mestu einstigi, bratt til beggja handa, varla meira en um 300 m vegalengd. Björgunarsveitirnar voru sendar upp á Morinsheiði, það er allt og sumt. Ef áhugi er að troða inn fleiri örnefnum hefði mátt taka með Strákagil, Kattahryggi og Foldir.

Fréttin gengur út á að fólkið var á leið yfir Fimmvörðuháls. Þegar yfir Hálsinn er komið, sunnan Heljarkambs, er fólkið komið á Goðaland. Væntanlega hefur það verið á leið ofan í Bása. Þeir eru í Goðalandi. Hafi fólkið ætlað lengra þarf að fara yfir Krossá, væntanlega á göngubrúnni, sé áin enn undir henni. Norðan Krossár er Þórsmörk.

Fyrir alla muni höfum landafræðina á hreinu. Meðfylgjandi mynd er af hluta af Kattahryggjum.

 Viðbót kl. 13:30: 

Hef greinilega haft Moggann að hluta til fyrir rangri sök. Eftir að hafa heyrt útvarpsfrétt um atburðinn sem var nánast samhljóða frétt Moggans fletti ég upp á heimasíðu Landsbjargar. Þar stendur:

PARS LEITAÐ Á FIMMVÖRÐUHÁLSI

27. maí 2012 

Björgunarsveitir af Suðurlandi voru kallaðar út í nótt til leitar að pari sem var á göngu yfir Fimmvörðuháls en villtist á leið sinni niður í Þórsmörk. Fólkið hringdi sjálft til Neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð og voru björgunarsveitir kallaðar út klukkan rúmlega eitt í nótt.

Sendir voru hópar upp Hvannárgil og Kattahryggi þar sem vitað var að fólkið var komið niður fyrir keðjuna við Heljarkamb og því ekki þörf á leitarhópum upp frá Skógum.

Björgunarsveitir fundu fólkið rúmum tveimur tímum eftir að leit hófst og var það þá statt á gönguleiðinni yfir Útigönguhöfða, nokkur hundruð metra frá Heljarkambi. Var það í þokkalegu ástandi þrátt fyrir að hafa verið á göngu í 13 tíma enda ágætlega búið og vel nestað. Var parinu fylgt niður í Þórsmörk. 

Ástæða er til að hvetja Landsbjörg um að sinna landafræði og textagerð betur og ennig að hvetja fréttamenn til að taka ekki allt umhugsunarlaust frá Landsbjörgu. Keðjan sem við settum við Heljarkamb í október er nú næstum því orðin að örnefni. Miðað við vegalengdina yfir Heljarkamb, frá keðju að vörðu, um 100 metrar, er alveg nóg að staðsetja fólkið sunnan eða norðan megin. Varla þarf að kenna Landsbjörgu áttirnar ...

Að mínu mati eiga fréttir frá Landsbjörgu að vera ítarlegar og vel skrifaðar. 


mbl.is Par villtist á leiðinni í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Þetta með Goðaland og Þórsmörk er eitthvað sem flestir eru held ég búnir að gefast upp á að leiðrétta, það er hálfgerður vindmillubarningur að reyna það.

Einar Steinsson, 27.5.2012 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband