Orðskrípið þjóðareign
23.5.2012 | 09:46
Stjórnmálamenn halda því oft á tíðum fram fullum fetum að auðlindir sjávar séu í eigu þjóðarinnar. Er það svo? Fyrir það fyrsta, hvað er þjóð? Hefur einhver hitt þjóðina? Undirritaður efast stórlega um það. Þjóð er nefnilega ekki persóna að lögum og ber því hvorki skyldur né hefur einhvern rétt til eigna. Þjóð hefur heldur engan vilja. Hins vegar samanstendur hún af fjöldamörgum einstaklingum sem hafa bæði vilja, hugvit og langanir. Orðskrípið »þjóðareign«, sem stjórnmálamenn nota óspart í ræðu og riti, er því ekkert annað en lýðskrum. Það sem verra er, með því að staðhæfa að þjóðin eigi sjávarauðlindirnar gefa stjórnmálamennirnir í skyn að almenningur, bæði undirritaður og fleiri sem hafa aldrei verkað fisk eða unnið á sjó, eigi persónulegt tilkall til hluta af auðlindaarðinum.
Ofangreint er úr grein í Morgunblaðinu í morgun eftir Kristinn Inga Jónsson, menntaskólanema. Greinin er vel samin og tekur á því sem fæstir þora að nefna en það er bullið sem nefnists þjóðareign og liggur að baki ofurskatta ríkisstjórnarinnar á sjávarútveginn. Stundum þarf menntaskólanema til að benda á vitleysuna.
Kristinn segir í grein sinni:
Stjórnmálamenn láta oft í veðri vaka að einungis örfáir »sægreifar« hagnist á núverandi kerfi, að þeir maki krókinn á kostnað almennings. Hins vegar er ekkert sem styður þessa fullyrðingu. Það er rétt að þeir sem hafa fjárfest og byggt upp í greininni hafa grætt fúlgur fjár en ekki á kostnað annarra. Kakan hefur heldur stækkað, það er arðsemin aukist til muna - öllum til hagsbóta. Og hvað er það sem telur? Almenningur nýtur ekki góðs af auknum tekjum til ríkisins í formi skatta og veiðigjalds. Miklu fremur eru það fjárfestingar, atvinnutækifæri og framsókn íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, eins og Marels, á erlendri grund sem sjá til þess að öll þjóðin græðir á arðbærum sjávarútvegi. Þjóðinni vegnar vel ef atvinnulífið blómstrar.
Varla er með nokkru móti hægt að mótmæla þessu. Auðvita verða ofurskattar undir felunöfnunum auðlindagjald eða veiðileyfagjald til þess að skattstofninn hrynur og atvinnuleysi verður til. Þjóðinni vegna bara ekkert vel ef stjórnvöld ráðast á atvinnulífið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
þegar maður hugsar til baka á árunum þegar Kristján Ragnarsson þáverandi formaður LÍÚ kom ítrekað fram í fjölmiðlum og kvartaði sáran yfir ofveiði og erfiðum rekstrargrundvelli sjávarútvegsins sem þá var í helgreipum sjóðkerfis sem tryggði það að enginn fór á hausinn en þeir sem skiluðu hagnaði greiddu kostnaðinn fyrir þá sem skiluðu tapi, þá vildi einginn með sjávarútveginn hafa því síður að þjóðin hefði áhuga á þessu. Núna eftir að þessi grein hefur verið færð til nútímalegra horf rekstarlega og sjóðirnir lagðir niður, fyrirtækin standa á eigin fótum og skila arði, fiskveiðistjórnunar kerfi sem kemur veg fyrir ofveiði, þá vill þjóðin eiga þetta allt saman.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.5.2012 kl. 10:37
Já, nokkuð gott innlegg.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.5.2012 kl. 10:38
Í Þingvallalögunum frá 1928 segir: "Þingvellir eru ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem má selja né veðsetja."
Þetta er sem sagt marklaust bull og lögin ógild?
Í tillögum stjórnarskrárnefndar Gunnars Thoroddsens 1983 var lagt til svipað ákvæði um náttúru Íslands og auðlindir.
Marklaust bull hjá Gunnari og félögum?
Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum, "United nations".
Sameinuðu þjóðirnar og United nations eru sem sagt marklaust bull og þar með aðild okkar að þeim?
Ómar Ragnarsson, 23.5.2012 kl. 20:17
„Þjóðareign“ þýðir einfaldlega „ráðherraeign“, þ.e. að peningar fara ekki til þeirra sem afla þeirra, heldur til ráðherra og starfsmanna hans til að úthluta eftir geðþótta. „Þjóðin“ kemur þar hvergi nærri, aðeins ráðherrann og menn hans. Dæmið um Þingvelli er út í hött. Enginn hagnast á þeim, nema þá fyrirtæki í ferðaþjónustu. En á þá ekki að þjóðnýta hagnaðinn af þeim líka?
Vilhjálmur Eyþórsson, 24.5.2012 kl. 01:42
„Hugtakið þjóðareign hefur verið fyrirferðarmikið í umræðum um meðferð og nýtingu náttúruauðlinda, en merking þess ekki að sama skapi skýr. Umræðan hefur einkum snúizt um lagalega stöðu auðlindanna, þannig að nota verður orðið í lögfræðilegri merkingu. Með þeirri nálgun verða fyrst fyrir orðin þjóð og eign. Hugtakið þjóð er bundið við að lýsa tilteknum sameinkennum þess hóps sem kallast þjóð og hann verður síðan að afmarka nánar allt frá því að hann lifir frjáls í ríki náttúrunnar, gengist undir þjóðfélagssáttmála sem síðan þróast í stofnanabundið ríki sem hefur sjálfstæða tilveru gagnvart þeim hópi sem að baki stendur. Sú tilvera birtist í hugtakinu persóna að lögum. Til að ákvarða hugtakið eign er hefðbundin skilgreining eignarréttarins lögð til grundvallar. Þjóðareign verður því ekki skilið öðrum skilningi en ríkiseign sem fyrirsvarsmenn ríkisins fara með. Sem dæmi um þjóðareignir hafa verið nefndir Þingvellir, handritin í Stofnun Árna Magnússonar, Skarðsbók postulasagna, Listasafn Einars Jónssonar, Stytta Leifs Eiríkssonar, menningararfur þjóðarinnar og auðlindir lands og sjávar.
Réttarstaða Þingvalla er ákveðin í gildandi lögum, meðferð handritasafns Stofnunar Árna Magnússonar ákvarðast af erfðaskrá Árna og konu hans frá 1730, skipulagsskrá 18. janúar 1760 og lögum um stofnunina. Sama er að segja um Skarðsbók postulasagna sem lögð var til Stofnunar Árna Magnússonar. Réttarstaða Listasafns Einars Jónssonar lýtur ákvæðum í erfðaskrá listamannsins og konu hans frá 11. september 1954 og staða styttu Leifs Eiríkssonar af eðlilegum kurteisissamskiptum ríkja. Meðferð menningararfs þjóðarinnar og náttúruauðlinda lands og sjávar ræðst af gildandi lögum hverju sinni.
Réttarstaða þessara stofnana og verðmæta er hin sama að því leyti að ríkið ræður ekki yfir neinum heimildum eignarréttar. Það hefur einungis varðveizlu- og verndarskyldur, reyndar takmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir auðlindum lands og sjávar. Löggjafinn hefur hins vegar í hendi sér að breyta stöðu Þingvalla, og auðlindanna með því að breyta lögum og eftir atvikum stjórnarskrárákvæðum ef ákvæðunum yrði skipað þar að viðbættum fyrirmælum um menningararf þjóðarinnar. Öðru máli gegnir um stofnanir sem komið hefur verið á fót og verðmæti sem einstaklingar hafa lagt til almannaheilla og bundin eru skipulagsskrá. Þar hefur löggjafinn og stjórnvöld takmarkaðar og jafnvel engar fyrirsjáanlegar heimildir til breytinga. Ókosturinn við að nota hugtakið þjóðareign er hætta á að það verði notað í blekkingarskyni og þá til að dylja fyrirætlanir um íhlutun og umsvif ríkisvaldsins án þess að dómur sé hér lagður á hvort þau séu æskileg eða óæskileg. Einungis er hvatt til að orðræðan sé skýr og skilmerkileg svo að hún skili niðurstöðu eða varpi ljósi á raunverulegan ágreining. Jafnframt er minnt á að pólitísk spilling þrífst iðulega í skjóli óljósrar merkingar orða. Gagnrýnt er hvernig allt of víðtækar ályktanir hafi verið dregnar af orðum eins og gjöf, þjóð og eign, einkum í umræðum um stjórn fiskveiða.“
Þetta er að finna á vefslóðinni: http://www.ulfljotur.is/efni/hugtakid_thjodareign. Höfundur er Sigurður Líndal, prófessor. Undir vangaveltur löglærðra manna má taka en forðast að láta sem svo að það sem segir í lögum eða hefur verið ástundað með hefð sé skyndilega allt marklaust. Þetta á við orðið þjóðareign, einnig skyndilegar breytingar á starfsemi forsetaembættisins og í þriðja lagi má nefna varðandi afrétti, að afnotaréttur breytist í eignarétt. Yfir þetta síðastnefnda hefur verið unnið á skipulagðan hátt með þjóðlendulögunum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.5.2012 kl. 08:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.