Engin rányrkja íslenskra útgerða við Afríku

Sagt hefur verið og skrifað að skip Íslendinganna séu í samkeppni við smábáta og beitt sé rányrkju og sóðaskap við auðlindina. Því er líka haldið fram að heimamenn hafi engan hag af veiðunum. Stundum er seilst svo langt að bera saman þessar veiðar og landhelgisbaráttu okkar Íslendinga en sá samanburður er út í hött eins og eftirfarandi staðreyndir sýna.

Þessi orð eru úr grein í Morgunblaðinu í dag eftir Hallgrím Hallgrímsson, fyrrverandi skipstjórnarmann, sem hefur mikla þekkingu á veiðum við Afríku. Í greininni hrekur hann fjölmiðlasögur um ofveiði og rányrkju íslenskra skipa við Máritaníu og víðar. Staðreyndin er sú að skáldskapur í fjölmiðlum er orðinn slíkur að lesendur vita minnst um hvar sannleikurinn liggur vegna þess að menn eins og Hallgrímur láta ekki heyra í sér.

Hann segir í Moggagreininni:

Í fyrsta lagi: Allhá veiðigjöld eru greidd heimamönnum og veiðarnar eru í fullri sátt og samvinnu við þarlend stjórnvöld. 

Í öðru lagi: 30% áhafna skipanna eru innfæddir sem njóta alla jafna aðbúnaðar og launa sem þeir ættu ekki annars kost á. Eftirlitsmenn frá Máritaníu eru einnig um borð í skipunum á veiðum.

 Í þriðja lagi: Íbúar Afríku fá hlutdeild í aflanum, enda er hann seldur til framhaldsvinnslu í þessum löndum og oftast endar hann á borðum Afríkubúa.

Í fjórða lagi: Skip í eigu Íslendinga landa öllum afla í Máritaníu. Í flestum tilfellum skapar það atvinnu fyrir innfædda.

Í fimmta lagi: Við hverja afskipun, er fátækum gefið ákveðið hlutfall af fyrsta flokks fiski. Hvort sú úthlutun skilar sér á rétta staði er háð stjórnvöldum hverju sinni og fyrir utan lögsögu þeirra sem að veiðunum standa og fiskinn gefa. Svona mætti lengi telja.

 Sé þetta raunin starfa íslenskar útgerðir á mjög ábyrgan hátt úti fyrir ströndum Afríku og með þessu eru gróusögurnar hraktar, vonandi í eitt skipti fyrir öll. En Hallgrímur bætir um betur er hann segir:

Íslensku skipin eru útbúin svokölluðum Argos- og Ais-staðsetningartækjum sem senda til gervitungla upplýsingar um auðkenni, staðsetningu, stefnu og hraða. Almenningur um heim allan og yfirvöld í viðkomandi landi hafa því fulla yfirsýn yfir aðgerðir og ferðir skipanna.

Fyrir um sex eða sjö árum átti ég þess kost að heimsækja íslenskt útgerðarfyrirtæki á Las Palmas á Kanaríeyju og undir leiðsögn framkvæmdastjórans var farið í afar áhugaverða skoðunarferð um fyrirtækið og sagt frá rekstri þess. Þetta fyrirtæki hefur nú verið sameinað öðru en það sem ég heyrði þar á sér samsvörun við fjölmargt af því sem Hallgrímur getur um í grein sinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband