Katla er að fara að gjósa!
12.5.2012 | 10:13
Eftir alla umræðuna í fyrra, spádóma, draumfarir og ætlanir jarðfræðinga stendur aðeins eitt eftir um Kötlu. Hún gýs einhvern tímann. Enginn veit hvenær. Þess vegna er fyrirsögn pistilsins bæði rétt og röng: Katla er að fara að gjósa. Að okkar tímatali er langt síðan hún gaus og þess vegna hlýtur hún að gjósa bráðlega, en samkvæmt jarðfræðilegu tímatali er afar stutt frá síðasta gosi og ekkert víst að það skipti nokkru máli.
Ég fylgist nokkuð reglulega með jarðskjálftayfirliti á vefsíðu Veðurstofunnar, skil þar fátt nema það eitt að í Mýrdalsjökli hafa litlar hræringar verið undarfarnar vikur og eiginlega frá því í byrjun árs. Segja má að ekkert þar bendi til Kötlugoss. Nema það komi bara óforvarendis.
Þær einu ályktanir sem ég get dregið af meðfylgjandi korti og öðrum álíka hjá Veðurstofunni eru þessir punktar við upptök Tungnakvíslajökuls, vestanmegin í Mýrdalsjökli. Þar eru alltaf viðvarandi skjálftar. Veðja á að þar gjósi næst. Svipað var uppi á teningnum þegar gaus í Eyjafjallajökli. Mikil skjálftavirkni var alltaf við Steinsholtsjökul, skriðjökul sem gengur norður úr honum. Auðvitað hafði ég rangt fyrir mér þá enda hef ég ekkert vit á þessu.
Hið eina sem ég hef vit á er að lesa pistla á bloggsíðu Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings. Hann sagði meðal annars í pistli á bloggsíðu sinni 21. desember 2011:
Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos.
Ég leyfi mér sem leikmaður að trúa Haraldi betur en öllum spámönnum og draumafólki. Hins vegar er ég þess fullviss að Katla gjósi mjög bráðlega - tja ... nema hún gjósi ekki!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður. Ég hef velt fyrir mér veðurfari fyrir síðustu eldgos, og séð samhengi milli lognviðri, hlýjinda og háttalagi fugla fyrir gos. Það fór í gegnum hugann þegar ég var að labba heim fyrir tveimur dögum síðan, að nú væri lognið og hlýindin, ásamt hegðun fuglanna á svipuðu róli og fyrir síðustu gos. Svo hugsaði ég með mér að þetta væri nú bara ímyndun í mér, og vona að það sé rétt.
En það er engu logið, þegar sagt er að Katla og fleiri eldstöðvar geti gosið hvenær sem er. Engin lifandi maður getur sagt til um það á nákvæman hátt og með vissu.
Ég bið almættið algóða um að hjálpa öllu fólki og dýrum hvar sem er í heiminum, þegar náttúruhamfarir eru á ferð. Það hefur aldrei skaðað að biðja almættið algóða og hlutlausa um hjálp, en það hefur hjálpað mörgum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.5.2012 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.