Forgengilegt Staup í Hvannágili og aðrar gersemar

Apr25$03 - Version 2DSC_0403 - Version 2

Í einni af mínum fyrstu ferðum í Hvannárgil í Goðalandi rakst ég á þennan fallega klett sem í raun var ekkert annað en sandsteinn. Líklega hefur hann verið leyfar af einhverjum enn stærri kletti sem þarna stóð forðum daga og veðraðist með tímanum. Ég gæti trúað að hann hafi verið um fimmtán til tuttugu metra hár.

Félagar mínir tóku upp á því að nefna hann Staupið og nafnið festist við hann. Mér fannst Bikarinn vera meira við hæfi en fékk engu um það ráðið.

Fjölmargir lögðun undir sig betri fætinum og gengu í Hvannárgil til þess eins að skoða náttúruundrið.

Svo gerðist það dag einn að vinkona hringdi í mig og tjáði mér þær sorgarfréttir að Staupið væri hrunið.

DSC_0409 110827 Hvannárgil, við gilmót, Merkurtung - Version 2

Þetta fundust mér ótrúlegar fréttir og þrátt fyrir að fleiri og fleiri fréttir bærust af þessu trúði ég þeim ekki fyrr en ég kom á staðinn.

Svona gerast nú ýmislegt í landinu. Þegar betur er að gáð mátti svo sem alveg búast við því að Staupið hryndi. Það var ekki hannað til langs tíma, efniviðurinn var lélegur, engin byggingareglugerð náði yfir það, öngvir eftirlitsmenn höfðu með því auga og því mátti móðir náttúra sæta því að þetta verk hennar eins og mörg önnur eyðilegðist. 

DSC_0388 110827 Hraunrennsli í Hvannárgili - Version 2

Þetta breytir því ekki að Hvannárgil er mikil gersemi. Þriðja myndin er tekin skammt frá þeim stað er Staupið stóð. Vinstra megin liggur Hvannárgil upp á Helgjarkambi sem þó sést ekki á myndinni. Engu að síður varpar sólin geislum á Morinsheiði og gengt henni er Bröttufannarfell á Fimmvörðuhálsi.

Hægra megin er annað stórt gil en nafnlaust. Ég hef leyft mér að kalla það Syðra-Hvannárgil. Það liggur inn að Eyjafjallajökli, skammt vestan við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Tvisvar hef ég álpast ofan í þetta gil af Hálsinum og í bæði skiptin lent í miklum erfiðleikum með að komast út úr því. Innst er það þröngt og erfitt yfirferðar, áin er vatnsmikil, hún hefur grafið sig svo mikið að oft þarf að vaða hana og hreinlega klifra upp kletta eða brattar sandhlíðar.

Hægra megin á myndinni er Merkurtungnahaus, 868 m hár. Milli ánna heitir Sandhryggur. Þar fyrir ofan er lítil slétta og út á hana rann hraunið úr eldstöðvunum á Hálsinum frá því 2010. Raunar féll lítil spýja ofan í Hvannárgil eins og sjá má á fjórðu og síðustu myndinni.

Sakar því ekki að geta þess að klikka má á myndirnar og stækka þær talvert mikið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband