Afbrotamenn eru skelfing vitlausir

Hér áður fyrr velti ég því stundum fyrir mér hvers vegna kostnaðurinn við löggæslu þyrftir að vera svo mikill sem raun bar vitni. Á námsárunum vann ég í tvö sumur sem lögreglumaður og uppgötvaði að svokallaðir glæpamenn væri eiginlega ekkert margir. Síðar fjölgaði þeim og nú tengjast þeir frekar fjármögnun eiturlyfjaneyslu heldur en að í umferð séu harðsvíraðir glæponar sem safni fé til efri áranna.

Ég held að enn séu glæpamenn tiltölulega fáir og raunar margir skelfing vitlausir. Væri þeir skynsamir myndu þeir annað hvort ekki láta ná sér eða hætta þessari iðju og taka sér eitthvað annað fyrir hendur.

Nei, þetta eru rugludallar og margir stórhættulegir vegna fíkniefnaneyslu sinnar og heimsku.

Velvakandi í Morgunblaðinu er oft vel skrifaður enda blaðamenn Morgunblaðsins flestir mjög góðir pennar. Í dag var Velvakandi sérstaklega fyndinn og tek ég mér það Bessaleyfi að birta hann í held sinni.

Snjallir afbrotamenn eru algengir í bíómyndum, en minna fer fyrir þeim í raunveruleikanum. Víkverji rakst á nokkrar frásagnir af misheppnuðum afbrotam...

Snjallir afbrotamenn eru algengir í bíómyndum, en minna fer fyrir þeim í raunveruleikanum. Víkverji rakst á nokkrar frásagnir af misheppnuðum afbrotamönnum á vefsíðu Der Spiegel og gat ekki stillt sig um að láta nokkrar þeirra ganga.

Ungur maður braust inn í hús í bænum Joshua Tree í Kaliforníu. Þegar hann hafði látið greipar sópa ákvað hann að opna kampavínsflösku. Þar sem kampavín bragðast ekki vel á tóman maga afréð hann að fá sér snarl með. Að því loknu kviknaði þörf til að baðast og fór hann í sturtu. Á meðan hann var í sturtunni kom eigandi hússins heim, heyrði vatnsniðinn og hringdi á lögregluna. Maðurinn heyrði ekki í lögreglunni þegar hún kom að handtaka hann.

Við höldum okkur við Bandaríkin. Haustið 2010 faldi innbrotsþjófur í Oak Hill sig á efri hæðinni þegar íbúarnir komu heim. Hann kom hins vegar upp um sig þegar hann sprakk úr hlátri vegna þess að einn húsráðenda sagði brandara.

Bankaræningi í Wuppertal í Þýskalandi vildi koma í veg fyrir að skelfing gripi um sig þegar hann hugðist ræna banka. Í stað þess að hrópa lét hann gjaldkerann hafa miða, sem á stóð »Þetta er bankarán«. Hann komst á braut með ránsfenginn, en náðist brátt vegna þess að hinum megin á umslaginu var heimilisfangið hans.

Í mars braust átján ára unglingur inn í hús í Münster og tók meðal annars með sér aðgangsupplýsingar um heimabanka fórnarlambanna. Því næst tæmdi hann reikninga þeirra, en var ekki séðari en svo að hann millifærði féð á eigin reikning.

Og svo var það innbrotsþjófurinn í Silver Springs í Flórída, sem braust inn og ákvað að hlaða farsímann á meðan hann var að athafna sig. Hann hafði sig síðan á braut, en gleymdi farsímanum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er neyslan sem ruglar menn. Ég hef, af sérstökum ástæðum, kynnst allmörgum fyrrverandi afbrotamönnum. Þeir eru ekkert heimskari en gengur og gerist og engir rugludallar þegar þeir hafa náð sér frá vímugjöfunum. Og merkilegt nokk þá eru þeir stundum ærlegri en gerist og gengur með góðborgara - að ekki sé nú minnst á broddborgara og stjórnmálamenn!

En gaman að glæponar hafi húmor og geti hlegið að bröndurum. Þá fyrirgefst mönnum nú margt! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.4.2012 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband