Hryðjuverkasamtök herja á landið

Ómar, VítiÓmar Ragnarsson birtir hrikalega sláandi mynd af mannvirkjum sem Landsvirkjun leyfði sér að reisa við Víti nálægt Kröflu. Segja má að með þessu hafi fyrirtækið eiginlega eyðilagt gíginn stórkostlega.

Í pistli sínum segir Ómar og ég er algjörlega sammála honum:

Landsvirkjun hefur unnið stórfelld óafturkræf spjöll algerlega að óþörfu á Víti við Kröflu.

Sá staður hefur þá algeru sérstöðu að gígarnir eru tveir, risastór neðri gígur og annar minni rétt ofan við þann.

Þarna hafa verið unnin óbætanleg spjöll með því að setja niður 6000 fermetra borplan við jaðar efri gígsins og ryðja burtu viðkæmum hálendisgróðri sem þar var svo að aldrei verður hægt að bæta úr því.

Öll fyrri loforð um að stefnubora þarna svo að ekki þyrfti að eyðileggja staðinn voru svikin.

Vel hefði verið hægt að bora fjær Vítisgígunum tveimur og þessi framkvæmd er í æpandi mótsögn við margítrekaðar fullyrðingar Landsvirkjunar um vandaða og tillitssama umgengni hana við náttúruna og "snyrtileg" virkjanamannvirki.

Rétt er að taka fram að með því að smella tvisvar á myndina er hægt að stækka hana svo að einstök atriði sjáist betur. Þá sést hvernig gróna svæðið neðst á myndinni hefur verið skorið í sundur og viðkvæmri gróðurþekjunni eytt að stórum hluta til þess að geta þanið borplanið inn á hana. Þetta er í um 600 metra hæð yfir sjó og því alls ekki það sama að gera þetta í þessari hæð eða niðri á láglendi. 

Hellisheiði 1

Í raun og veru hefur Landsvirkjum gert sig seka um hryðjuverk gegn landinu þarna við Víti á sama hátt og Orkuveita Reykjavíkur með þeirri virkjun sem (ranglega) nefnd er Hellisheiðarvirkjun (hún er á Kolviðarhóli, vestan Hellisheiðar).

Með ólíkindum er sú blinda sem stjórnendur orkufyrirtækja og jafnvel stjórnmálamenn eru haldnir. Oftast er farið með ofbeldi gegn landinu, landslagi og staðháttum breytt svo ítarlega að á eftir minnir fátt á það sem var. Menn reyna ekki einu sinni að sýna neina viðleitni, þó ekki væri fyrir annað en kurteisissakir. 

Hellisheiði var einu sinni á góðri leið með að verða vinsælt til útivistar en því miður er það ekki lengur svo.

Hellisheiði 4DSC_0177

Þrátt fyrir fornminjar á Hellisheiði er ekki gaman að koma þangað, ekki heldur í hið forna Yxnaskarð, um það liggur hraðbraut hryðjuverkanna. Kletturinn þar sem Búi vó fósbróður sinn er horfinn í umhverfi mannvirkja.

Enginn leggur leið sína lengur upp á Skarðsmýrarfjall nema bormenn og verktakar. Innstidalur á undir högg að sækja. Þar sporar Orkuveitan út með dyggri aðstoð mótorhjólakappa sem vilja reyna sig við landið. 

Þrátt fyrir vaxandi áhuga á utiveru og ferðalögum virðist umhverfisvernd og íhaldsemi í umgengni við náttúruna hafi ekki aukist að saman skapi. Mörgum er andskotans sama um landið og víla ekki fyrir sér að breyta því og móta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þvert ofan í það sem alltaf er verið að tala um eru miklu meiri umhverfisspjöll af háhitavirkjunum en vatnsaflsvirkjunum.

Þórir Kjartansson, 22.4.2012 kl. 17:50

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta fer eftir aðstæðum, Þórir. Erfitt verður að gera háhitavirkjun sem hefur meiri neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif en Kárahnjúkavirkjun.

En háhitavirkjanir sem umturna nýrunnum hraunum og gígum eru nú á teikniborðinu og eru byrjaðar að fá grænt ljós til orkunýtingar.

Ómar Ragnarsson, 22.4.2012 kl. 18:08

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Talan 6000 fermetrar hjá mér var misminni. Ég mældi planið á jörðu niðri þegar ég var þarna síðast og það er 10000 fermetrar.

Ómar Ragnarsson, 22.4.2012 kl. 18:08

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú rétt í þessu varð ég að bæta við annarri mynd að norðank á bloggsíðu mína, tekinni á jörðu niðri, til þess að bera af mér ásakanir um falsanir og lygar varðandi gróðurinn sem þarna hefur verið umturnað. Ritari athugasemdar við pistil minn fullyrðir að þarna sé enginn gróður heldur aðeins leirdrulla sem gustuk hafi verið að þekja.

Á viðbótarmynd minni sést hið sanna enn betur, þarna skiptast á mosi og grænar grundir. Nema að grasið sé séríslensk græn leirdrulla!

Síðan á ég mynd frá framkvæmdum við þetta borplan í upphafi þeirra, þar sem sést sá gróður, sem borplanið er nú búið að eyðileggja.

Ómar Ragnarsson, 22.4.2012 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband