VG hefur brugðist öllum meginmarkmiðum sínum

Menn sem verja ekki sín helgustu vé eiga að víkja, þeir hafa misst trúnað og traust fjölmargra félaga sinna og skv. skoðanakönnunum helming kjósenda sinna. Forustan hefur brugðist öllum meginmarkmiðum sem Vinstri græn voru stofnuð til. Það er brýnt að skipta um forustu hjá VG og boða til kosninga þegar í haust. Að ári gætum við hreinlega þurrkast út af Alþingi Íslendinga. Það er eðlileg lýðræðisleg niðurstaða þegar forustan hefur yfirgefið öll meginmarkmið sem Vinstri græn voru stofnuð til að halda vörð um. 
 
Hörður Ingimarsson, félagi í VG, gott ef ekki í flokksráði, skrifa hálfsíðugrein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann gagnrýnir forystu flokksins síns harðlega eins og má sjá af ofangreindu sem eru lokaorð greinarinnar.
 
Enn standa upp flokksmenn og undrast stjórnarhætti forystu VG. Hörður gagnrýnir verklag forystunnar í ríkisstjórn og telur upp „afrekin“:
 
Afskrifaðir voru 14 milljarðar vegna Hörpunnar sem er slík sóun á almennafé að fáheyrt er. Jafnvirði Héðinsfjarðarganga. Forusta VG brást í Magma-málinu. Fjármálaráðherrann lá á málinu og Svandís Svavarsdóttir lét sér vel líka þrátt fyrir stór orð. Tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur um „Icesave“ (98% höfnuðu lögunum 6. mars 2010, kjörsókn 62,7%) vöktu fjármálaráðherrann ekki til meðvitundar á hvaða villigötur hann var kominn. Þingflokkurinn átti að kokgleypa „Icesave“-sullið á hálftíma. Forseti Íslands bjargaði okkur frá því að kyngja þeim beiska bikar og fól þjóðinni að velja sín örlög. 
 
Og Hörður gagnrýnir afstöðu forystunnar til einstakra þingmanna sem svo hafa hrökklast úr flokknum og hann segir:
 
Jarðfræðingurinn Steingrímur þoldi ekki hugmyndir hagfræðingsins Lilju Mósesdóttur. Þær máttu ekki koma til skoðunar. Steingrímur og Katrín lögðu til í þingflokknum að Jón Bjarnason, ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs, viki úr ríkisstjórninni til að gera samstarfið liprara og geðþekkara forustu ESB. Þá var mælirinn fullur. 

Ég hef lengi undrast langlundargeð hins almenna flokksmanns í Vinstri grænum, hversu mikið hann lætur yfir sig ganga. Ljóst má vera af orðum Harðar Ingimarssonar að honum þykir nóg um. Hins vegar er þó alveg skýrt að forystan fer sínu fram hvað svo sem Hörður segir. Þannig hefur það verið á fundum að flokkurinn kokgleymir allt sem forystan vill og menn eins og Hörður hafa hvorki styrk eða dugnað til að standa upp í hárinu á afvegaleidri forystunni. Og flokksmenn rétta síðan upp hönd og samþykkja loðnar yfirlýsingar sem leyfa Steingrími og félögum að fara sínu fram. Hjarðhegðun flokksmanna VG er með ólíkindum.

Þrátt fyrir allt tuðið í Herði hefur hann rétt fyrir sér að einu leiti þegar hann segir: Að ári gætum við hreinlega þurrkast út af Alþingi Íslendinga. Staðreyndin er nefnilega sú að enginn annar flokkur hefur farið jafn illa með flokksmenn sína, þingmenn, almenna félaga og kjósendur, á jafn stuttum tíma eins og Vinstri grænir. Svikið eiginlega allt sem einn stjórnmálaflokkur ætti að halda í heiðri. Slíkur flokkur fær slæma útreið í kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það er verst að öll hjörðin skuli ekki sjá þetta, eða gera neitt í því, vegna þess að flestir hljóta nú að sjá þetta. En halda menn almennt að stjórnin lifi út kjörtímabilið Sigurður?

Eyjólfur G Svavarsson, 20.3.2012 kl. 12:01

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Verður vorið sólríkt, Eyjólfur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.3.2012 kl. 12:33

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er bæði ljótt og ómaklegt að tala um dugleysi, hjarðhegðun eða tuð í Herði Ingimarssyni. Ég þekki manninn og hann er í sínu heimahéraði þekktur að öðru. Hörður hefur áreiðanlega hvorki þagað á fundum með formanninum né glúpnað.

En greinilega hafa ekki nægilega margir á þeim fundum búið að sömu einurð og hann.

Það væri óskandi að hjarðhegðun sjálfstæðismanna breyttist í einurð manna eins og Harðar Ingimarssonar liðsmann Vinstri grænna.

Hvar og hvenær hafa birst í Morgunblaðinu beittar ádeilur flokksmanna á formanninn Bjarna Benediktsson sem margir leyfa sér að kalla Bjarna vafning í dag?

Árni Gunnarsson, 20.3.2012 kl. 22:03

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Árni. Ég er ekki að gera lítið úr Herði, en þegar menn eins og hann rísa upp hver á fætur öðrum og mótmæla gerðum forystu VG og ekkert gerist þá virka þetta eins og tuð, árangurslaust fálm. VG ætlar með landið inn í ESB, ef ekki þá er verið að gera þjóðinni mikinn óleik með þessum aðlögunarviðræðum sem enginn alvara er á bak við. Hér er um óafturkræfan skaða að ræða hvernig sem á málið litið. Og svo er það allt annað sem Hörður nefnir og vekur undrun hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Ekki blanda öðrum flokkum inn í innanhúsvanda VG.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.3.2012 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband